Norðausturvegur formlega opnaður

24.10 2013 - Fimmtudagur

Frá því var greint á heimasíðu Vopnafjarðar í gær að þann dag, miðvikudaginn 23ja október, kl. 14:30 skyldi með formlegum hætti hinn nýi Norðausturvegur – með tengingu við þéttbýlið - vígður að viðstöddu fyrirmenni í íslensku þjóðlífi – gekk það allt eftir. Á tilsettum tíma hóf Hreinn Haraldsson, Vegamálastjóri, raust sína þar sem borða íslensku fánalitanna hafði verið fyrirkomið þvert á hinn nýja þjóðveg Íslendinga og sagði nokkuð er vakti sannarlega athygli tíðindamanns og annarra tilheyranda ef að líkum lætur. Vegir eru ekki lagðir fyrir Vegagerðina, vegir eru ekki lagðir fyrir bíla heldur eru vegir lagðir fyrir fólk. Í orðum Hreins felst vissulega nokkur speki en verður þarna sundurgreint, milli fólks og farartækja? Alla vega þá tók innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, síðan við hljóðnemanum, mælti nokkur falleg orð er málið varðaði áður en hún kaus að fá þingmenn alla til fylgis við sig handan borðans en sjálf skar Hanna Birna á borðann við fögnuð gesta; var Norðausturvegur um Vesturárdal og tenging hans við þéttbýli Vopnafjarðar þar með formlega vígður.

 

 

Fjölmennt var í félagsheimilinu Miklagarði og var ráð fyrir því gert en sjálfsagt má áætla að hátt í 50% gesta hafi verið aðkomnir gestir. Í fullu samræmi við viðburðinn voru ræður fluttar, sem hófst með ræðu Hreins Haraldssonar, er vék verkefninu nýafstöðnu, hversu vel fór á með fólki frá fyrstu stundu til verkloka. Óskaði Hreinn síðan eftir að Þorsteinn sveitarstjóri stýrði dagskrá uns gestum yrði boðið að ganga að allsnægtarborðinu, sem Hótel Tangi átti heiðurinn að í boði Vopnafjarðar/Vegagerðar. Hanna Birna, ráðherra, tók því næst til máls. Gerði að umtalsefni þau sterku tengsl sem hún ætti við norðausturhorn Íslands verandi annars vegar með rætur í Grund í Vopnafirði og hins vegar í Hvammi í Þistilfirði. Væri það henni eðlilega mikið gleðiefni að fyrsti vegur sem hún vígir skuli einmitt vera í Vopnafirði. Vék Hanna Birna máli sínu til Vinanna í Kýrosi, sem buðu henni eins og þingmönnum fjórðungsins með fallegu hjartalaga boðsbréfi – og var engan veginn hægt að hafna. Átti ráðherrann eftir að fá afhentan Vinavikubol og fá knús og hópknús ásamt forsætisráðherra. Í framhaldi af þeim gjörningi söng ungviðið og vakti framtakið mikla hrifningu áhorfenda.

 

Sveinn Sveinsson, deildarstjóri hjá Vegagerð, sagði framkvæmdasöguna í knöppu máli. Gekk framkvæmdin í heild vel en grípa þurfti til sértækra ráðstafana er einn verktakinn fór í þrot en það tafði verkið verulega. Kom Sveinn á framfæri þökkum til allra er hlut áttu að máli og sagði verkið sýna að vel hafi verið staðið að verki. Kristján L. Möller, fyrrum samgönguráðherra, var eðlilega kampakátur en aldrei hvikaði hann frá ætlun sinni að ljúka þessu þarfa verki þó tíminn væri brennimerktur efnalitlum ríkiskassa. Kvaðst Kristján hafa fengið mörg símtölin suður, einkum frá tveimur mönnum, Óla og Alla eins og hann kallar ávallt vini sína, Ólaf Ármannsson og Aðalbjörn Björnsson – sem að öðrum kjörnum fulltrúum ólöstuðum leiddu verkefnið frá upphafi og uns það var komið vel á veg. Það sama á við um Kristján, þáttur hans er óumdeildur.

 

Þorsteinn bauð sjálfum sér að taka til máls og gerði að umtalsefni breytta tíma og bar saman hinn nýja veg og þann fyrri. Var samlíkingin þeim gamla eðlilega öll í óhag og söknuður hins liðna enginn. Í máli Þorsteins kom fram að tekist hafi verið á en menn náð sáttum og nytu allir niðurstöðunnar nú. Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður, sagði að þó oft væri deilt hart um hin ýmsu mál á þingi milli þingmanna flokkanna væri samstaðan ávallt þétt þegar kæmi að hagsmunum fjórðungsins meðal þingmanna hans – og má auðvitað yfirfæra á landið í heild þegar því er að skipta. Hössi, eins og hann heitir einatt í munni tíðindamanns, átti samtal við ungmennin, sem sendu honum hið fallega „ástarbréf“ – eða svo hélt kona hans! – og mæltist vel er hann biðlaði til þeirra að taka með sér inn í framtíðina þann yndislega boðskap sem felst í Vinavikunni. Sannarlega vel að orði komist. Þórunn Egilsdóttir, tvíhöfða sem þing- og sveitarstjórnarmaður, taldi sig tala fyrir munn allra Vopnfirðinga er hún þakkaði framkvæmdina, sem breytt hefði svo miklu fyrir líf íbúa sveitarfélagsins. Breytingin væri mikil fyrir sig persónulega en þeir voru mýmargir dagarnir sem fara þurfti um slæman innansveitarveginn fram og tilbaka milli Hauksstaða og þéttbýlis en nú blasti við stórglæsilegur uppbyggður vegur, öllum til sóma. Var Þórunn reiðubúin að knúsa hvern það sem það vildi svo glöð væri hún á degi sem þessum – og beið tíðindamaður ekki boðanna og fékk fyrstur gesta ærlegt knús!

 

Síðastur á mælendaskrá var þingmaðurinn, nágranninn og fyrrum ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon. Sem fyrrum ráðherra fjármála á krepputíð kvaðst Steingrímur sannarlega á stundum hafa þurft að aðgæta áður en ákvörðun var tekin þegar kollegi hans Kr. Möller hafi óskað fjármagns í þá framkvæmd sem nú stendur fullbúin. Allt hafðist þetta að lokum, m. a. s. fjármagn í þann kafla sem síðastur var boðinn út, tenging við þéttbýli Vopnafjarðar. Vék Steingrímur máli sínu til núverandi stjórnar og benti réttilega á að enn væri brýnt verkefni að vinna, vegurinn milli þéttbýlis á Langanesi og Vopnafjarðar. Það stendur samvinnu staðanna hreinlega fyrir þrifum og vonandi verður þess ekki langt að bíða að sá vegakafli verði á fjárhagsáætlun ríkisins en bæði sveitarfélög leggja ríkinu til mikla fjármuni í gegnum sjávarfang.

 

Síðan var komið að veitingunum og ekki fór á milli mála að fólk kynni að meta þær en það er gömul saga og ný, að það sem kemur frá Boggu og có. á Hótel Tanga á alltaf greiða leið í maga þeirra er framleiðsluna bragða. Meðfylgjandi er fjöldi mynda frá viðburðinum.

 

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir