Fréttir

29.11 2018 - Fimmtudagur

Fullveldishátíð Vopnfirðinga

Vopnafjarðarskóli í samstarfi við menningarmálanefnd býður til fullveldishátíðar í Vopnafjarðarskóla laugardaginn 1. desember. 100 ár verða þá liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Eru allir íbúar hjartanlega velkomnir til hátíðarinnar.

29.11 2018 - Fimmtudagur

Selárlaug lokuð 1. desember

Íslensk þjóð fagnar 100 ára fullveldi þann 1. desember nk. og er öllum íbúum boðið til fullveldishátíðar í Vopnafjarðarskóla frá og með kl. 14. Af þessu tilefni er Selárlaug lokuð þennan merka dag og er þess vænst að sem flestir geri sér dagamun og taki þátt í hátíðardagskránni í Vopnafjarðarskóla.

29.11 2018 - Fimmtudagur

Selárlaug í kaldara lagi

Starfsmaður Selárlaugar vill koma þeim upplýsingum á framfæri að afloknu úrhelli gærdagsins og næturinnar ásamt nokkrum vindstyrk er laugin og potturinn í kaldara lagi í dag. Hiti sundlaugar þessa stundina er 27°C eða 5-6 °C undir meðallagi og heiti potturinn 37°C eða ca. 3°C lægra en er öllu jafna.

Breytingar til batnaðar eru síðan háðar veðri.

28.11 2018 - Miðvikudagur

Bílar og vélar meðal framúrskarandi fyrirtækja

Bílar og vélar ehf. á Vopnafirði er meðal 27 fyrirtækja á Austurlandi sem eru á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi. Var listinn kynntur um miðjan mánuðinn en B&V hefur um árabil tilheyrt þessum hópi fyrirtækja. Hefur Creditinfo um 9 ára skeið birt lista yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi, þau voru alls 857 árið 2017 og sem fyrr greinir 27 með heimilsfestu á Austurlandi. Er gleðilegt til þess að vita að Vopnfirðingar skuli eiga fyrirtæki í þessum ágæta hópi en það eru skilyrði sem uppfylla verður og engan veginn sjálfgefið að taka sæti meðal framúrskarandi fyrirtækja.

 

27.11 2018 - Þriðjudagur

Deiliskipulag hafnarsvæðis til kynnnigar

Í dag milli kl. 15:00 – 18:00 er opið hús í félagsheimilinu Miklagarði þegar til kynningar verður tillaga að deiliskipulagi hafnarsvæðis Vopnafjarðar. Býðst íbúum að kynna sér drög að að nýju deiliskipulag fyrir miðhluta hafnarsvæðisins ásamt umhverfisskýrslu, skv. ákv. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð. Skipulagstillagan er kynnt á vinnslustigi í samræmi við 4.mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

26.11 2018 - Mánudagur

Blítt veður - breytinga að vænta

Veðurblíða hefur ríkt á Íslandi sl. daga en sú hæð sem tók sér bólfestu yfir landinu miðju hefur stýrt veðurfarinu. Það gerist líklega ekki oft að allt landið njóti samskonar veðurs dögum saman. Hin góða tíð með vindstillu og heiðríkju sólarhringum saman er kannski ekki fordæmalaus en heyrir vafalítið til undantekninga í landi þar sem vinds gætir flesta daga. Logn um nokkurra daga skeið er öllum kærkomið. Samkvæmt Veðurstofunni er breytinga að vænta, ofankomu í formi regns er spáð á miðvikudag en snjókomu fimmtu- og föstudag.

 

23.11 2018 - Föstudagur

Aðventurölti vel tekið

Frá því var greint í gær að nokkrir þjónustuaðilar í Vopnafjarðarbæ hygðust bjóða til kvöldopnunar og nefndu viðburðinn aðventurölt. Sjálfsagt hafa frumkvæðisaðilar gert sér vonir um að vel myndi viðra til rölts en að það yrði sú dásemd sem Vopnfirðingum bauðst í gærkvöldi tók vonum þeirra líklega fram. Nú er eigi gott að segja hvers frumkvöðlar væntu en svörun íbúa hlýtur að hafa glatt hluaðeigendur, þátttaka íbúa miðað við hina frægu höfðatölu var nefnilega stórgóð. Í litla bænum skapaðist sérlega ánægjuleg stemning sem hlýtur að vera þjónustuaðilunum mikill hvati. Íbúum ekki síður.

22.11 2018 - Fimmtudagur

Aðventurölt á Vopnafirði

Nokkrir aðilar í Vopnafjarðarbæ standa að nýbreytni í aðdraganda jóla, bjóða þeir til kvöldopnunar undir heitinu aðventurölt á Vopnafirði í kvöld milli kl. 19:00 – 22:00. Í tilkynningu hér að lútandi segir: Eigum saman skemmtilegt kvöld á aðventunni, njótum stundarinnar, röltum um fallega bæinn okkar, hittum fólk, ýmis tilboð í gangi ásamt léttum veitingum, kaupum jólagjafir … og: Gleði og aðventuskemmtun eins og hæun gerist best.

20.11 2018 - Þriðjudagur

Alþjóðlegur dagur barna

Í dag, 20. nóvember, er alþjóðlegur dagur barna haldinn hátíðlegur um allan heim. Dagurinn er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Yfirskrift átaks UNICEF á Íslandi og okkar í ungmennaráðinu á alþjóðlegum degi barna er #börnfáorðið. UNICEF á Íslandi hefur sent hagnýt ráð til ráðamann í sveitarfélögum til minna á að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir öllum börnum um allan heim mikilvæg réttindi. Er markmið dagsins að gefa börnum orðið og skapa vettvang fyrir okkur - börn og ungmenni - til að tjá skoðanir okkar opinberlega og í okkar nærumhverfi.

19.11 2018 - Mánudagur

Þrjár Rauða krossdeildir sameinast

Austurfrétt greinir frá því á vefsíðu sinni í dag að 3 Rauða krossdeildir á Austurlandi muni sameinast innan tíðar. Um er að ræða Vopnafjarðardeild RKÍ, Héraðs- og Borgarfjarðardeild og ber hin nýja deild nafnið Rauði krossinn í Múlasýslu. Munu þær tvær síðarnefndu þegar vera sameinðar í eina. Sölvi Kristinn formaður deildarinnar á Vopnafirði segir sameininguna efla báðar deildir.


103 - 112 af 2179
1 2 3 4 5 6 7 8 9 10  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir