Fréttir

16.11 2018 - Föstudagur

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Sunnudaginn 18. nóvember nk. verður þeirra minnst sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi. Efnt verður til athafnar í sjöunda sinn í Reykjavík og er hliðstæð athöfn víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Athygli er vakin á að í Vopnafjarðarkirkju er messa kl. 20:00 nk. sunnudag og mun sr. Þuríður Björg minnast fórnarlamba umferðarslysa í predikun sinni.

 

15.11 2018 - Fimmtudagur

Að endingu mun stytta upp

Uppstyttur hafa fáar verið í nóvembermánuði en útlit fyrir veðrabrigði á morgun en því fer fjarri að tíðin muni minna á vetur því gera má ráð fyrir tveggja stiga hitatölu á laugardag og hlýindi ríkja næstu daga á eftir. Í föstu formi hefði ofankoma mánaðarins þýtt snjóskafla svo fráleitt mikla að leita þyrfti til sögukunnugra þegar vetur var vetur með snjó frá hausti fram á vor. Tíðindamaður rölti með myndavélina sl. sunnudag og fylgir afraksturinn fréttinni.

15.11 2018 - Fimmtudagur

Selárlaug lokuð í dag

Athygli sundlaugargesta er vakin á að laugin er lokuð í dag vegna bilunar í vatnsdælu. Unnið er að viðgerð og verður opnun tilkynnt um leið og lag kemst á. Afleiðing bilunar er köld laug og pottur sem öllu jafna skal vera heitur.

 

Beðist er velvirðingar á seinkominni tilkynningu en ekki lá fyrir um ástand vatns fyrr en komið var að opnun kl. 14 í dag.

 

-Fulltrúi

12.11 2018 - Mánudagur

Ekki vetur í kortunum

Þegar líður að miðjum nóvember ríkir milt veður á landinu og ekkert í kortunum þessa vikuna að það muni breytast. Þvert á móti er því spáð að hitinn nái allt að 13°C um næstu helgi og því æði fátt sem minnir á að tíðin er vetur og hver dagur styttri en sá fyrri. Einhver væri nú snjórinn hefði úrkoma sl. daga verið í föstu formi en til að mynda regnið og rokið sem hér var sl. laugardag heyrir frekar til undantekninga en reglu. Samkvæmt Veðurstofunni er óþarft að hafa áhyggjur af ófærð þessa vikuna hið minnsta, á meðan slíta nagladekkin yfirborði vega og gatna.

10.11 2018 - Laugardagur

Ertu með góða hugmynd?

Uppbyggingarsjóður Austurlands auglýsir eftir umsóknum fyrir árið 2019. Tilgangur sjóðsins er að styrkja verkefni sem falla að Sóknaráætlun Austurlands til menningar- og listuppbyggingar, stofn- og rekstrarstyrki til menningar og verkefni til nýsköpunar og atvinnuþróunar. Er sjóðurinn samkeppnissjóður og styrkveitingar miðast við árið 2019. Aðeins verður ein úthlutun á árinu.

 

08.11 2018 - Fimmtudagur

Fregnir af HB Granda hf

Fjölmiðlar hafa frá því greint að HB Grandi hf. hafi ákveðið að hætta rekstri bolfiskvinnslu á Vopnafirði. Ákvörðunin var tilkynnt á starfsmannafundi þriðjudaginn 30. október sl. Fregnir af uppsögnum hafa fylgt í kjölfarið sem eðlilega hafa komið á umróti í nærsamfélaginu. Með nýjum eigendum mátti alltaf búast við breytingum og sjálfsagt sér ekki fyrir endann á þeim. Á hinn bóginn hafa fregnir verið misvísandi og sá félagið sig knúið til að senda frá sér yfirlýsingu og er hana að finna hér að neðan.

06.11 2018 - Þriðjudagur

Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Á fundi sveitarstjórnar þann 28. júní sl. var samþykkt samhljóða að aldarafmælis fullveldis þjóðarinnar yrði minnst. Var málinu vísað áfram til menningar- og fræðslunefndar. Nú liggur fyrir að þessa merka atburðar verður minnst í Vopnafjarðarskóla laugardaginn 01. desember, nákvæmlega 100 árum síðar. Meðfylgjandi er tilkynning frá skólastjóra hér að lútandi.

31.10 2018 - Miðvikudagur

Ábending frá Persónuvernd vegna skólasamfélagsins

Persónuvernd vill af gefnu tilefni vekja athygli á því að stofnuninni hefur borist fjöldi ábendinga bæði frá foreldrum barna og starfsmönnum skóla um breytta starfshætti í skólum vegna nýrra persónuverndarlaga. Svo virðist sem misskilnings gæti víða í skólasamfélaginu um til hvaða aðgerða þurfi að grípa til þess að skólastarf sé í samræmi við ný persónuverndarlög. Er um langan texta að ræða en tíðindamanni þótti tilhlýðilegt að líta á það sem snýr einkum að myndatökum innan skólaveggja til birtingar á opinberum vettvangi.

29.10 2018 - Mánudagur

Vopnafjarðarirkju bárust gjafir

Á vef Hofssóknar er frá því greint að á vordögum hafi Vopnafjarðarkirkju borist tvær gjafir. Um er að ræða annars vegar gjöf Kiwanisklúbbsins Öskju og Svanborgar Víglundsdóttur sem gáfu kirkjunni snúningsbekk undir kistur. Mælifell og Bílar & vélar smíðuðu gripinn og Svanborg saumaði utanum hann. Snúningsbekkur er verkfæri sem auðveldar að miklu leyti þá þungu raun margra sem þurfa að bera ástvin sinn út úr kirkjunni til grafar. Allt sem léttir undir á slíkum stundum er sannkölluð himnasending, segir sr. Þuríður Björg í skrifum sínum.

26.10 2018 - Föstudagur

Haustgleði yngri flokka Einherja

Ungmennafélagið Einherji hélt haustgleði yngri flokka félagsins á Hótel Tanga í gær og voru saman komin um 50 ungmenni að þessu tilefni. Að vanda var stemningin góð meðal hinna ungu liðsmanna sem að hafandi viðurkenningu um háls og myndatöku þáðu krakkarnir pítsu og franskar. Í upphafi viðburðar gerði formaður að umtalsefni mikilvægi félagsins í vopnfirsku samfélagi en leiða má að líkum að bróðurpartur nemenda Vopnafjarðarskóla komi að starfi félagsins, misvirk eins og gengur. Einherji er á landsvísu lítið félag en stórt í nærsamfélagi okkar en sem dæmi má áætla að leiki á vegum félagsins á sumrinu mæti eigi færri en 3000 manns eða hátt í 5 faldur fjöldi íbúa sveitarfélagsins.


113 - 122 af 2179
< 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir