Fréttir

17.10 2018 - Miðvikudagur

Vinaganga

Annar dagur í Vinaviku er í dag en í gær fjölmenntu Vopnfirðingar í Vinagöngu, flestir voru ungir að árum en þeir voru nokkrir eldri sem slógust í för og tóku þátt í hjartagjörð við göngulok. Kaffi var í boði í framhaldi af útiveru. Fyrir 4 árum lét sr. Stefán Már þess getið að Vinagangan væri stærsta skipulagða gangan á Íslandi í október það árið og eigum við ekki bara að trúa því að það eigi við nú. Sem fyrr varðar mestu að verið er að minna á vináttuna og gildi þess að standa saman.

16.10 2018 - Þriðjudagur

Vinavika Vopnfirðinga

Vinavikan hefst í dag kl. 15 með formlegum hætti er gengin verður Vinaganga frá Vopnafjarðarskóla að Vopnafjarðarkirkju. Gengið er í nafni kærleika og vináttu. Meðal þátttakenda að þessu sinni er frú Sólveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum og kemur til með að njóta kökuhlaðborðs í safnaðarheimilinu eins og aðrir þátttakendur að göngu lokinni. Eru allir hvattir til þátttöku í gönguna en Vinavikan í ár er hin 9unda í röðinni.

15.10 2018 - Mánudagur

Kuldaboli 2018

Um helgina fór fram ungmennahátíðin Kuldaboli, samstarfsverkefni félagsmiðstöðva í Fjarðabyggð. Eins og vanalega var unglingum úr 8. – 10. bekk af öllu Austurlandi boðin þátttaka og héðan frá Vopnafirði fóru 19 ungmenni í fylgd Þórhildar Sigurðardóttur forstöðumanns félagsmiðstöðvarinnar Drekans. Aðalmarkmiðið með Kuldabola er að krakkar kynnist innbyrðis, prófi nýjar tómstundir og skemmti sér saman á heilbrigðan máta. Miðpunktur hátíðarinnar er Fjarðabyggðahöllin og þeir sem reynt hafa vita að nafngiftin Kuldaboli stendur fullkomlega undir merkjum.

 

15.10 2018 - Mánudagur

Íbúð til leigu

Til leigu er er 5 herbergja íbúð að Kolbeinsgötu 55, í blokkinni. Umsóknir berist til skrifstofu Vopnafjarðarhrepps fyrir 22. október nk. Umsóknareyðublöð má nálgast á heimasíðu Vopnafjarðarhrepps eða á skrifstofu sveitarfélagsins að Hamrahlíð 15.

12.10 2018 - Föstudagur

Síldveiðar ganga vel

Á fundi strandríkja í desember sl. náðist samkomulag um veiðar norsk-íslenskrar síldar á árinu 2018. Ekki náðist samkomulag um skiptingu heildarafla milli ríkja en aðilar komu sér saman um að miða sínar aflaheimildir við 435 þúsund tonna heildaraflamark. Vertíðin fór vel af stað og þessa dagana veiðist stór og falleg síld, mikið er til og hún yfir 400 grömm.

10.10 2018 - Miðvikudagur

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2018

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga fer fram dagana 11. og 12. október nk. Til ráðstefnunar mæta fulltrúar hinna 74ra sveitarfélaga í landinu en ráðstefnan er stærsti einstaki vettvangur sambandsins sem árlega er haldinn. Þátttakendur hafa verið yfir 400 á sl. árum en til samkomunnar eru allir velkomnir, ekki einungis kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélaga heldur allir áhugamenn um sveitarstjórnarmál. Fleiri komast þó ekki að nú en þeir sem þegar hafa tilkynnt þátttöku sína því uppselt er á viðburðinn.

08.10 2018 - Mánudagur

Samtal við nemendur og foreldra þeirra

Á morgun er fyrirlestur í Vopnafjarðarskóla undir heitinu Fokk me - Fokk you sem fjallar um  sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna. Er fyrirlesturinn ætlaður unglingum og ungmennum, foreldrum þeirra og aðstandendum og starfsfólki sem starfar með unglingum. Fyrirlesarar eru Andrea Marel og Kári Sigurðsson en hvor um sig hefur starfað um árabil í félagsmiðstöðvum og flutt fyrirlestra meðfram vinnu sinni. Samfés, samtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, völdu fræðsluna Fokk Me-Fokk You besta verkefnið í opnum flokki á vettvangi frítímans á aðalfundi Samfés 2017.

 

05.10 2018 - Föstudagur

Þverárvirkjun til umræðu

Á fundi sveitarstjórnar í gær lá fyrir matsáætlunartillaga vegna virkjunar í Þverá í Vopnafirði en um málið var m.a. fjallað í Austurfrétt þann 02. október sl. Þar kemur fram að skoða þurfi möguleg áhrif virkjunar Þverár á uppeldisstöðvar fyrir laxfiska sem veiðast í Hofsá. Gert er ráð fyrir tveggja hektara uppistöðulóni og vatni verði miðlað um niðurgrafna pípu niður í stöðvarhús á láglendi. Að ósk Skipulagsstofnunar hafði sveitarstjórn unnið umsögn um tillögu að matsáætlun vegna hinnar fyrirhuguðu virkjunar og lá fyrir fundi.

03.10 2018 - Miðvikudagur

Innanlandsflug sem almenningssamgöngur til umræðu

Íbúar landsbyggðanna eru almennt á einu máli um að innanlandsflugið sé dýrt og hafi líklega aldrei verið dýrara að fljúga. Um það er raunar deilt og hefur Vopnfirðingurinn Konráð Guðjónsson sýnt fram á í grein sem birtist í Austurglugganum nýverið að flugfargjöld hafi ekki verið lægri frá 2002 sem hlutfall ráðstöfunartekna. Umræðan á sér langa sögu, var málið m.a. til umræðu á nýafstöðnum aðalfundi SSA. Fyrir réttu ári fór fram málþing á Hótel Nordica og vitna má til skrifa Árna Gunnarssonar framkvæmdastjóra Air Iceland Connect um málið í Austurfrétt 27. maí 2016.

 

01.10 2018 - Mánudagur

Vetraropnun Selárlaugar frá og með deginum í dag

Veturinn er smám saman að taka yfir þótt enn sé langt í 1. vetrardag en hann stendur upp á laugardaginn 27. októrber nk. að þessu sinni. Í dag tekur vetraropnun Selárlaugar gildi hvað þýðir að sundlaugin er lokuð í dag, mánudag, svo sem verið hefur samkvæmt hefðinni, opið er alla aðra daga vikunnar.


133 - 142 af 2187
< 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir