Fréttir

05.12 2018 - Miðvikudagur

Fyrsti í aðventu

Síðastliðinn sunndag var fyrsti sunnudagur í aðventu sem er staðfesting þess að innan 4ra sunnudaga eru komin jól. Þess er minnst um land allt og um heim allan raunar að við höfum sett miðið á hátíð ljóss og friðar. Aðventa kemur úr latínu, Adventus - „koman“ eða „sá sem kemur“. Er aðventan í Kristni fjórir síðustu sunnudagarnir fyrir jóladag. Hefð er komin á að tendrað er á ljósum jólatrésins við Kaupvang að þessu tilefni en fyrr um daginn var messa í Vopnafjarðarkirkju og opið hús á Hótel Tanga í framhaldi af henni.

03.12 2018 - Mánudagur

Fullveldishátíð Vopnfirðinga – 100 ára fullveldi fagnað

Þann 1. desember sl. fagnaði íslensk þjóð að liðin eru 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918. Líklega má staðhæfa að það hafi verið merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttunni sem þá hafði staðið í nær eina öld. Árið sem brátt er að baki ber einkunnarorðin Fögnum saman 100 ára fullveldi! Skipaði Alþingi afmælisnefnd sem m.a. var falið að hvetja skóla til þess að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918. Vopnfirðingar minntust tímamótanna með glæsilegri dagskrá í Vopnafjarðarskóla.

30.11 2018 - Föstudagur

Messa og jólatréð við Kaupvang

Á sunnudag næstkomandi er fyrsti sunnudagur í aðventu og samkvæmt hefðinni er kveikt á ljósum jólatrésins við Kaupvang. Við höfum reynslu af alls kyns veðri en samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar eru líkur á að veðrið verði skaplegt eða NV 4 m/sek. og lítilsháttar snjókoma. Myndarlegt tréð er gjöf HB Granda hf. til Vopnfirðinga og kemur úr landsins stærsta skógi, Hallormsstað.

29.11 2018 - Fimmtudagur

Fullveldishátíð Vopnfirðinga

Vopnafjarðarskóli í samstarfi við menningarmálanefnd býður til fullveldishátíðar í Vopnafjarðarskóla laugardaginn 1. desember. 100 ár verða þá liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Eru allir íbúar hjartanlega velkomnir til hátíðarinnar.

29.11 2018 - Fimmtudagur

Selárlaug lokuð 1. desember

Íslensk þjóð fagnar 100 ára fullveldi þann 1. desember nk. og er öllum íbúum boðið til fullveldishátíðar í Vopnafjarðarskóla frá og með kl. 14. Af þessu tilefni er Selárlaug lokuð þennan merka dag og er þess vænst að sem flestir geri sér dagamun og taki þátt í hátíðardagskránni í Vopnafjarðarskóla.

29.11 2018 - Fimmtudagur

Selárlaug í kaldara lagi

Starfsmaður Selárlaugar vill koma þeim upplýsingum á framfæri að afloknu úrhelli gærdagsins og næturinnar ásamt nokkrum vindstyrk er laugin og potturinn í kaldara lagi í dag. Hiti sundlaugar þessa stundina er 27°C eða 5-6 °C undir meðallagi og heiti potturinn 37°C eða ca. 3°C lægra en er öllu jafna.

Breytingar til batnaðar eru síðan háðar veðri.

28.11 2018 - Miðvikudagur

Bílar og vélar meðal framúrskarandi fyrirtækja

Bílar og vélar ehf. á Vopnafirði er meðal 27 fyrirtækja á Austurlandi sem eru á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi. Var listinn kynntur um miðjan mánuðinn en B&V hefur um árabil tilheyrt þessum hópi fyrirtækja. Hefur Creditinfo um 9 ára skeið birt lista yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi, þau voru alls 857 árið 2017 og sem fyrr greinir 27 með heimilsfestu á Austurlandi. Er gleðilegt til þess að vita að Vopnfirðingar skuli eiga fyrirtæki í þessum ágæta hópi en það eru skilyrði sem uppfylla verður og engan veginn sjálfgefið að taka sæti meðal framúrskarandi fyrirtækja.

 

27.11 2018 - Þriðjudagur

Deiliskipulag hafnarsvæðis til kynnnigar

Í dag milli kl. 15:00 – 18:00 er opið hús í félagsheimilinu Miklagarði þegar til kynningar verður tillaga að deiliskipulagi hafnarsvæðis Vopnafjarðar. Býðst íbúum að kynna sér drög að að nýju deiliskipulag fyrir miðhluta hafnarsvæðisins ásamt umhverfisskýrslu, skv. ákv. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð. Skipulagstillagan er kynnt á vinnslustigi í samræmi við 4.mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

26.11 2018 - Mánudagur

Blítt veður - breytinga að vænta

Veðurblíða hefur ríkt á Íslandi sl. daga en sú hæð sem tók sér bólfestu yfir landinu miðju hefur stýrt veðurfarinu. Það gerist líklega ekki oft að allt landið njóti samskonar veðurs dögum saman. Hin góða tíð með vindstillu og heiðríkju sólarhringum saman er kannski ekki fordæmalaus en heyrir vafalítið til undantekninga í landi þar sem vinds gætir flesta daga. Logn um nokkurra daga skeið er öllum kærkomið. Samkvæmt Veðurstofunni er breytinga að vænta, ofankomu í formi regns er spáð á miðvikudag en snjókomu fimmtu- og föstudag.

 

23.11 2018 - Föstudagur

Aðventurölti vel tekið

Frá því var greint í gær að nokkrir þjónustuaðilar í Vopnafjarðarbæ hygðust bjóða til kvöldopnunar og nefndu viðburðinn aðventurölt. Sjálfsagt hafa frumkvæðisaðilar gert sér vonir um að vel myndi viðra til rölts en að það yrði sú dásemd sem Vopnfirðingum bauðst í gærkvöldi tók vonum þeirra líklega fram. Nú er eigi gott að segja hvers frumkvöðlar væntu en svörun íbúa hlýtur að hafa glatt hluaðeigendur, þátttaka íbúa miðað við hina frægu höfðatölu var nefnilega stórgóð. Í litla bænum skapaðist sérlega ánægjuleg stemning sem hlýtur að vera þjónustuaðilunum mikill hvati. Íbúum ekki síður.


143 - 152 af 2222
< 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir