Fréttir

31.10 2018 - Miðvikudagur

Ábending frá Persónuvernd vegna skólasamfélagsins

Persónuvernd vill af gefnu tilefni vekja athygli á því að stofnuninni hefur borist fjöldi ábendinga bæði frá foreldrum barna og starfsmönnum skóla um breytta starfshætti í skólum vegna nýrra persónuverndarlaga. Svo virðist sem misskilnings gæti víða í skólasamfélaginu um til hvaða aðgerða þurfi að grípa til þess að skólastarf sé í samræmi við ný persónuverndarlög. Er um langan texta að ræða en tíðindamanni þótti tilhlýðilegt að líta á það sem snýr einkum að myndatökum innan skólaveggja til birtingar á opinberum vettvangi.

29.10 2018 - Mánudagur

Vopnafjarðarirkju bárust gjafir

Á vef Hofssóknar er frá því greint að á vordögum hafi Vopnafjarðarkirkju borist tvær gjafir. Um er að ræða annars vegar gjöf Kiwanisklúbbsins Öskju og Svanborgar Víglundsdóttur sem gáfu kirkjunni snúningsbekk undir kistur. Mælifell og Bílar & vélar smíðuðu gripinn og Svanborg saumaði utanum hann. Snúningsbekkur er verkfæri sem auðveldar að miklu leyti þá þungu raun margra sem þurfa að bera ástvin sinn út úr kirkjunni til grafar. Allt sem léttir undir á slíkum stundum er sannkölluð himnasending, segir sr. Þuríður Björg í skrifum sínum.

26.10 2018 - Föstudagur

Haustgleði yngri flokka Einherja

Ungmennafélagið Einherji hélt haustgleði yngri flokka félagsins á Hótel Tanga í gær og voru saman komin um 50 ungmenni að þessu tilefni. Að vanda var stemningin góð meðal hinna ungu liðsmanna sem að hafandi viðurkenningu um háls og myndatöku þáðu krakkarnir pítsu og franskar. Í upphafi viðburðar gerði formaður að umtalsefni mikilvægi félagsins í vopnfirsku samfélagi en leiða má að líkum að bróðurpartur nemenda Vopnafjarðarskóla komi að starfi félagsins, misvirk eins og gengur. Einherji er á landsvísu lítið félag en stórt í nærsamfélagi okkar en sem dæmi má áætla að leiki á vegum félagsins á sumrinu mæti eigi færri en 3000 manns eða hátt í 5 faldur fjöldi íbúa sveitarfélagsins.

24.10 2018 - Miðvikudagur

Kvennaverkfall kl. 14:55 á kvennafrídegi

Í dag, 24. október, er kvennafrídagurinn. Eru konur hvattar til að ganga út af vinnustað sínum klukkan 14:55. Í ár verður gengið út undir kjörorðunum: „Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!“. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna voru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55. Í ljósi þess lokar íþróttahúsið kl. 14:55 og opnar aftur kl. 16:00.

22.10 2018 - Mánudagur

Vinamessa

Viku vina lauk í gær með messu  og vöfflukaffi að henni lokinni. Að baki er þá níunda Vinavikan og þau sátt sem að málum koma, vikan hefur öðlast fastan sess í félags- og menningarlífi Vopnfirðinga. Því er ekki að leyna að dregið hefur úr þátttökunni. Þannig var færra í messu gærdagsins en sl. ár, færra í fyrra en árið á undan. Þeir sem ekki hafa reynt ættu að hafa í huga messu næsta árs en Vinavikumessur hafa yfir sér létt yfirbragð og er ágætis tilbreyting frá hefðbundinni messugjörð.


17.10 2018 - Miðvikudagur

Vinaganga

Annar dagur í Vinaviku er í dag en í gær fjölmenntu Vopnfirðingar í Vinagöngu, flestir voru ungir að árum en þeir voru nokkrir eldri sem slógust í för og tóku þátt í hjartagjörð við göngulok. Kaffi var í boði í framhaldi af útiveru. Fyrir 4 árum lét sr. Stefán Már þess getið að Vinagangan væri stærsta skipulagða gangan á Íslandi í október það árið og eigum við ekki bara að trúa því að það eigi við nú. Sem fyrr varðar mestu að verið er að minna á vináttuna og gildi þess að standa saman.

16.10 2018 - Þriðjudagur

Vinavika Vopnfirðinga

Vinavikan hefst í dag kl. 15 með formlegum hætti er gengin verður Vinaganga frá Vopnafjarðarskóla að Vopnafjarðarkirkju. Gengið er í nafni kærleika og vináttu. Meðal þátttakenda að þessu sinni er frú Sólveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum og kemur til með að njóta kökuhlaðborðs í safnaðarheimilinu eins og aðrir þátttakendur að göngu lokinni. Eru allir hvattir til þátttöku í gönguna en Vinavikan í ár er hin 9unda í röðinni.

15.10 2018 - Mánudagur

Kuldaboli 2018

Um helgina fór fram ungmennahátíðin Kuldaboli, samstarfsverkefni félagsmiðstöðva í Fjarðabyggð. Eins og vanalega var unglingum úr 8. – 10. bekk af öllu Austurlandi boðin þátttaka og héðan frá Vopnafirði fóru 19 ungmenni í fylgd Þórhildar Sigurðardóttur forstöðumanns félagsmiðstöðvarinnar Drekans. Aðalmarkmiðið með Kuldabola er að krakkar kynnist innbyrðis, prófi nýjar tómstundir og skemmti sér saman á heilbrigðan máta. Miðpunktur hátíðarinnar er Fjarðabyggðahöllin og þeir sem reynt hafa vita að nafngiftin Kuldaboli stendur fullkomlega undir merkjum.

 

15.10 2018 - Mánudagur

Íbúð til leigu

Til leigu er er 5 herbergja íbúð að Kolbeinsgötu 55, í blokkinni. Umsóknir berist til skrifstofu Vopnafjarðarhrepps fyrir 22. október nk. Umsóknareyðublöð má nálgast á heimasíðu Vopnafjarðarhrepps eða á skrifstofu sveitarfélagsins að Hamrahlíð 15.

12.10 2018 - Föstudagur

Síldveiðar ganga vel

Á fundi strandríkja í desember sl. náðist samkomulag um veiðar norsk-íslenskrar síldar á árinu 2018. Ekki náðist samkomulag um skiptingu heildarafla milli ríkja en aðilar komu sér saman um að miða sínar aflaheimildir við 435 þúsund tonna heildaraflamark. Vertíðin fór vel af stað og þessa dagana veiðist stór og falleg síld, mikið er til og hún yfir 400 grömm.


163 - 172 af 2222
< 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir