Fréttir

31.12 2018 - Mánudagur

Áramótakveðja

Árið 2018 heyrir brátt sögunni til, 364 dagar og ½ sólarhringur betur er að baki og á morgun hefst niðurtalningin á nýjan leik. Árið var merkt átökum utanlands einkum en seint mun heimurinn upplifa ár án stórra átaka. Innanlands var kosið til sveitarstjórna með tilheyrandi breytingum og sveitarfélögum heldur áfram að fækka. Mikið gekk á í pólitíkinni utan þings og sér ekki fyrir endann á hvernig mál kennt við Klaustur muni lykta. Vopnfirðingar geta litið nokkuð sáttir um öxl og sem fyrr mótast niðurstaðan af gjöfulleika hafsins. Breytingar urðu á eignarhaldi HB Granda hf. og var ákvörðun tekin að hætta bolfiskvinnslu félagsins á Vopnafirði og hefur eðlilega breytingar á atvinnustigið.

31.12 2018 - Mánudagur

Áramótabrenna færð til nýárs

Að vel athuguðu máli hefur ákvörðun verið tekin um að færa áramótabrennu Vopnfirðinga til Nýársdags. Verður tendrað í brennunni kl. 17:00 á morgun og flugeldasýning er áætluð kl. 17:30. 

Um leið og við vonumst til að Vopnfirðingar eigi ánægjulegt kvöld í vændum og heilsi nýju ári með gleði í hjarta óskum við eftir að íbúar láti berast ofangreinda ákvörðun og mæti til brennu á morgun kl. 17 á Nýársdag.

-Vopnafjarðarhreppur

31.12 2018 - Mánudagur

Áramótabrenna Vopnfirðinga - möguleg frestun

Vopnfirðingar athugið:

Vegna veðurs eru líkur á að fresta verði tendrun áramótabrennu í kvöld sem áætlað er kl. 20:30 sökum veðurs. Verður málið endurskoðað og endanlega áveðið hér um kl. 16:00 og tilkynnt á þessum vettvangi. Er fólk hvatt til að fylgjast með og deila þessu þannig að þetta nái til flestra.

-Þjónustumiðstöð

30.12 2018 - Sunnudagur

Skrifstofa Vopnafjarðarhrepps lokuð 02. janúar nk.

Athugið að miðvikudaginn 02. janúar nk. er skrifstofa Vopnafjarðarhrepps lokuð.

28.12 2018 - Föstudagur

Tillaga um byggingu á félagslegu húsnæði

Á síðasta fundi sveitarstjórnar haldinn þann 13. desember lagði Þór Steinarsson sveitarstjóri fram tillögu sína er varðar vinnu til undirbúnings uppbyggingar á félagslegu húsnæði í sveitarfélaginu. Í bréfi Þórs til sveitarstjórnar segir að tillagan miðist við að stofnframlag Íbúðarlánasjóðs til framkvæmdanna fáist samþykkt. Fari svo verði farið í vinnuna þegar í upphafi árs 2019.

27.12 2018 - Fimmtudagur

Rauð jól og áramót - líklega

Svíki minni tíðindamanns ekki snjóaði síðast á Vopnafirði þann 09. desember sl. og tveimur dögum síðar var snjórinn allur horfinn. Eftir það hefur snjór ekki sést hér og fátt sem bendir til þess að hér snjói næstu vikuna en mögulega falla einhver snjókorn undir lok árs sem gæti verið í slydduformi. Handan áramóta er sunnanátt í kortunum með fáeinum mínusgráðum. Ef ekki væri fyrir myrkrið hefur tíðin minnt fremur á vor en miðjan vetur en sem dæmi var hitinn um 7°C á jóladag.

24.12 2018 - Mánudagur

Aðfangadagur jóla - gleðileg jól

24. desember það herrans ár 2018 er genginn í garð, dagurinn er aðfangadagur jóla. Í kvöld klukkan 18:00 verða jólin, hátíð ljóss og friðar, hringd inn. Er óskandi að allir fái hennar notið. Tíðin líður og eirir engu; eftir einungis 8 daga er árið liðið og aldrei það kemur til baka. Í barnshuganum skiptir ekki meginmáli hvort árið er 2018 eða 2019, allt miðast við blessaða jólahátíðina. Sjálfsagt er aldrei haldið fastar í hefðirnar en einmitt á þessum tímamótum og þótt við njótum þess í hvívetna að gleðja aðra með gjöf sem gefin er af góðum hug – og þiggjum jafnvel aðra í staðinn – er það samveran, nándin, sem við setjum ofar öllu. Að njóta samvista við fjölskyldu sína á þeim forsendum sem hefðirnar hafa skapað er okkur ómetanlegt og aftur þess óskað að þess fái allir notið.

21.12 2018 - Föstudagur

Aðventukvöld í Hofskirkju

Aðventukvöld í Hofskirkju var haldið sl. þriðjudag og var eins og þau fyrri notaleg kvöldstund fyrir þann góða hóp fólks er lagði leið sína í litlu kirkjuna. Veður skömmu fyrir viðburð gaf ekki tilefni til að fólk færi úr húsi, bálhvass vindur grenjandi rigning, en smám saman dró úr hvort tveggja vindi og regni. Karlakór Vopnafjarðar er í aðalhlutverki á þessum aðventukvöldum meðan kirkjukórinn fær frí. Sami kórstjóri stýrir þeim báðum sem kunnugt er, söng karlakórinn jólasöngva og -lög,létt lög í bland við hátíðleg.

20.12 2018 - Fimmtudagur

Opnun Selárlaugar og íþróttahúss um jól og áramót

Innan fárra daga fagna jarðarbúar flestir jólahátíð. Dimmur vetur er enn myrkari fyrir þær sakir að snjór er enginn, þá koma ljósaskreytingar húsa sér vel. Að vanda taka opnunartímar Selárlaugar og íþróttahúss mið af hátíð ljóss og friðar. Er opnun íþróttamannvirkjanna að finna hér á síðu Vopnafjarðar en þá daga sem ekki er opið má nota til göngu í náttúrunni ef hreyfiþörfin gerir vart við sig um jól og áramót. Athugið að í dag, fimmtudaginn 20. desember, lokar íþróttahúsið kl. 19:30.

18.12 2018 - Þriðjudagur

Fjárhagsáætlun 2019 afgreidd í sveitarstjórn

Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps hefur afgreitt fjárhagsáætlun næsta árs. Á síðasta fundi sveitarstjórnar á árinu 2018 sem haldinn var þann 13. desember sl. fór fram síðari umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2019-2022. Allar upplýsingar um áætlunina, fyrir 2019 og 3ja ára áætlunina 2019-2022, er að finna í fylgigögnum fundargerðar sveitarstjórnar hér á síðunni. Samkvæmt samþykktri áætlun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps er þess vænst að rekstrarniðurstaðan verði jákvæð tæpar 79 milljónir króna. Áætlaðar fjárfestingar á árinu 2019 eru 134,5 milljónir króna og er reiknað með lántöku til að mæta fjárfestingum ársins.


163 - 172 af 2257
< 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir