Fréttir

10.07 2018 - Þriðjudagur

Hjúkrunarheimilið Sundabúð - afleysingar

Hjúkrunarheimilið Sundabúð auglýsir:


Starfsmaður óskast til afleysinga á hjúkrunardeild Sundabúðar, æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Vinnutími er frá kl 18-22:00, og felst vinnan í að aðstoða við hjúkrun og í eldhúsi.

Vinsamlegast hafið samband við Berglindi Steindórsdóttur, hjúkrunardeildarstjóra, sem veitir nánari upplýsingar. Netfang: hjukrun@vopnafjardarhreppur.is, sími 470 1240 og 847 4068.

09.07 2018 - Mánudagur

Vopnaskak, kjötsúpukvöld og skreytingar húsa

Bæjarhátíðin Vopnaskak lauk í gær og gekk almennt stórvel. Þannig fjölmennti fólk á auglýsta viðburði, sem dæmi voru um 150 manns á hagyrðingakvöldi og tvöfalt fleiri á Hofsballi. Getur Debóra Dögg, starfsmaður hátíðar, og menningarmálanefnd gengið sátt frá borði. Á leik Einherja á laugardeginum var fjöldi fólks og stemningin til fyrirmyndar en þar vannst mikilvægur 2:1 sigur á Ægi frá Þorlákshöfn. Að vanda kaus fjöldi að halda inn að Bustarfelli í gær en ólíkt Vopnaskaki fyrra árs lék veður við gesti hátíðar, þannig var til að mynda lengstum leikið í logni á laugardeginum og telst sannarlega til tíðinda.

06.07 2018 - Föstudagur

Nóg um að vera um helgina

Bæjarhátíðin Vopnaskak heldur áfram í dag og um helgina en hátíðinni lýkur með Bustarfellsdeginum á sunnudag. Fram að þeim tíma er margt í boði fyrir Vopnfirðinga og gesti. Strax kl. 12 á hádegi dagsins í dag er danspartí í íþróttahúsinu og dagskráin þar með komin af stað þennan daginn. Vísað er til dagskrár hátíðar meðfylgjandi frétt þann 27. júlí sl.

05.07 2018 - Fimmtudagur

Af Vopnaskaki

Frá því var greint í gær að Vopnaskak þessa árs myndi hefjast formlega þann dag. Á Vopnafjarðarvelli skyldi leikin knattspyrna í 5. flokki kvenna með þátttöku Einherja og 3ja annarra liða. Var leikið við blautar aðstæður og svalar, í einföldu máli var um hráslagalegan júlídag að ræða. Þannig er íslenskt sumar og aldrei á vísan að róa. Síðar sama dag var m.a. boðið upp á vatnsrennibraut neðan Kolbeinsgötunnar og það kunna börnin sannarlega að meta og fullorðnir raunar ekkert síður. Var kátt á hjalla er tíðindamann bar að garði.

04.07 2018 - Miðvikudagur

Vopnaskak fer af stað í dag

Dagurinn í dag miðvikudagurinn 04. júlí markar upphaf Vopnaskas en sl. daga hafa Vopnfirðingar unnið að því að skreyta kauptúnið og sveitina. Við lok bæjarhátíðarinnar verða veitt verðlaun fyrir best skreytta hverfið og best skreytta húsið. Hverfin eru litaskipt líkt og verið hefur um árabil og skiptist svo: Appelsínugult: Skálanesgata, Kolbeinsgata og Miðbraut Grænt: Lónabraut, Fagrihjalli, Hafnarbyggð Blátt: Holt og Hamrahlíð Bleikt: Sveitin

02.07 2018 - Mánudagur

Verklýsing svæðisskipulag Austurlands

Samvinna sveitarfélaganna á Austurlandi hefur verið mikil síðan Samband sveitarfélaga á Austurlandi var stofnað árið 1966. Segja má að vinnan sem farið er í nú endurspegli aukna samvinnu sveitarfélaganna undanfarin ár. Upphaf vinnunnar má rekja til aðalfundar SSA 2015 á Djúpavogi. Þar var rætt um svæðisskipulag á málstofu og varð umræða innan SSA í kjölfarið til þess að ákveðið var að ráðast í gerð svæðisskipulags fyrir Austurland. Í framhaldinu ákvað stjórn SSA að svæðisskipulag Austurlands yrði sérstakt áhersluverkefni í sóknaráætlun landshlutans. Svæðisskipulagsnefnd Austurlands er skipuð 2 fulltrúum frá hverju aðildarsveitarfélagi.

 

29.06 2018 - Föstudagur

Kynning á deiliskipulagi hafnarsvæðis

Mánudaginn 02. júlí nk. verður kynning á deiliskipulagi hafnarsvæðis Vopnafjarðar í félagsheimilinu Miklagarði milli kl. 15:00 – 17:00. Til kynningarinnar mæta Ásdís Helga Ágústsdóttir arkitekt og Sigðurður Jónsson byggingafulltrúi sveitarfélagsins. Eru allir velkomnir til kynningarinnar. Í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og verður hluti þess sem er innan sama svæðis fellt úr gildi við gildistöku nýs skipulags.

29.06 2018 - Föstudagur

Ný trjátegund á Vopnafirði

Skógfræðingurinn Else Möller er stöðugt á vaktinni þegar náttúran á í hlut og svo virðist sem hún hafi uppgötvað nýja trjátegund í Vopnafirði, sbr. fyrirsögn fréttar. Hafði Else samband við tíðindamann hér að lútandi enda um athyglisverða frétt að ræða. Kvað hún það hafa lengi verið trú manna að ekki væri hægt að rækta tré í Vopnafirði. Annað hefði komið á daginn því hér þrífast margar tegundir, þær hæstu trúlega komnar vel yfir 10 metra. Sífellt bætist við flóruna, vaxtarskilyrðin eru býsna góð og með svolítilli aukaumönnun er jafnvel hægt að rækta tegundir eins og eik, álm, ask og eplatré.

27.06 2018 - Miðvikudagur

Vopnaskak 2018 – dagskrá hátíðar liggur fyrir

Sumarið líður allt of fljótt segir í dásamlegum texta Vilhjálms Vilhjálmssonar og er hverju orði sannara, 1/3 hluti sumars er að baki. Um miðja næstu viku eða miðvikudaginn 04. júlí nk. hefst bæjarhátíðin Vopnaskak og stendur til og með sunnudaginn 08. Eru bæjarbúar jafnt sem dreifbýlingar hvattir til að skreyta sitt nánasta umhverfi en samtímis sem hver og einn skreytir hús sitt eru hverfin hvött til samstöðu um skreytingar. Strax á fyrsta degi er eitt og annað í boði og er vísað til meðfylgjandi dagskrár hátíðar.

 

25.06 2018 - Mánudagur

Ungir Vopnfirðingar og mæður sóla sig

Austfirðingar hafa notið veðurblíðu ítrekað það sem af er sumri og samkvæmt Veðurstofu munu sunnanáttir ríkja næstu daga og útlit fyrir ágætis tíð. Í liðinni viku komu dagar sem gáfu tilefni til að njóta útiveru sökum mildi veðurs og voru nokkrar ungar mæður meðal þeirra sem sér það nýttu. Röltu þær um bæinn með vagna sína og kerrur uns sest var niður framan Kaupvangs. Var sólar notið um leið og spjallað var – voru hinir ungu Vopnfirðingar mismikið að velta vöngum yfir því sem fram fór en nutu blíðunnar ekki síður en þeir eldri.

 


233 - 242 af 2253
< 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir