Fréttir

01.06 2018 - Föstudagur

Skólaslit Vopnafjarðarskóla

Í gær var Vopnafjarðarskóla slitið að viðstöddu fjölmenni í sal skólans. Var hvert sæti skipað og rúmlega það. Skólaslit eru hefðbundin í eðli sínu, skólastjóri fer í gegnum starfið á umliðnum vetri, nemendur fá einkunnablöð sín afhent og elstu nemendurnir kveðja skólann sinn hinsta sinni sem nemendur. Skólaslit eru í eðli sínu stórviðburður, það er jú stórt skref að stíga út úr hinu velskilgreinda umhverfi grunnskólans sé til elstu nemenda horft. Nú eins og yfirleitt áður var boðið upp á tónlistaratriði, þau brjóta upp dagskrána með ánægjulegum hætti. Nemendur voru samtals 86 á þessum vetri og voru þau 10 sem luku námi. Við þau sagði Aðalbjörn skólastjóri að útskrift hvers nemanda væri stærsta stund lífs þeirra hingað til sem námsmanns – héðan af eru þau á eigin forsendum í námi sínu.

31.05 2018 - Fimmtudagur

Hreyfivika, Kvennahlaup, fótbolti, sjómannadagur og tónleikar

Hreyfivikan stendur sem hæst þessa dagana og mæðir mikið á Bjarneyju Guðrúnu framkvæmdastýru vikunnar. Í dag eða í kvöld öllu heldur kl. 20 er skallatennis í boði í íþróttahúsinu og miðast eldri nemendur grunnskólans, frá 6. bekk. Á morgun kl. 14 er náttúrubingó með mætingu við Vopnafjarðarskóla og kvöldganga kl. 20 og er mætt við íþróttahúsið. Laugardagur markar lok Hreyfivikunnar með Kvennahlaupi ÍSÍ kl. 10 og leik Einherja og Vængja Júpiters á Vopnafjarðarvelli kl. 14. Á sunnudag fagnar íslensk þjóð sjómannadegi og MC Gauti skemmtir um kvöldið. Veðurútlit er býsna gott þessa daga.

 

30.05 2018 - Miðvikudagur

Tungumálanámskeið fyrir nýbúa á Vopnafirði og Bakkafirði

Á Vopnafirði hefur íslenskukennsla fyrir nýbúa verið í boði í vetur að frumkvæði Austurbrúar. Nutu nemendur kennslu Ásu Sigurðardóttur og hafa vafalaust lært mikið á þeim vikum sem kennslan stóð yfir því Ása kann sitt fag. Í skýrslu félagsráðuneytisins frá 2005 stendur m.a að fjölmenningarsamfélagið sé komið til að vera. Merkjanleg er fjölgun erlendra nýbúa á Vopnafirði á síðastliðnum árum og það er mikilsumvert að samfélagið leitist við að gefa þeim tækifæri til að aðlaga sig íslensku samfélagi.

28.05 2018 - Mánudagur

Hreyfivikan er hafin - frítt í Selárlaug

Hreyfivikan á Vopnafirði hófst í gær og heldur áfram vikuna á enda samanber meðfylgjandi dagskrá. Rétt eins og síðastliðin ár heldur Bjarney Guðrún Jónsdóttir utan um hreyfivikuna sem styrkt er m.a. af Vopnafjarðarhreppi er býður sundlaugargestum frítt í Selárlaug og ókeypis tíma í íþróttahúsinu í auglýsta tíma vikunnar. Er um að gera að hvetja íbúa og gesti til þátttöku en skv. Veðurstofu getum við vænst góðra daga, í tilfellum veðurblíðu.

28.05 2018 - Mánudagur

Blakvetur kvaddur

Allt frá vetrinum 2011-12 hefur blakíþróttin verið skipulega stunduð á Vopnafirði þökk sé áhugasömum hópi kvenna. Í frétt frá 2012 segir að allt hafi þetta byrjað sem léttur leikur – og er svo enn - en smám saman óx stúlkunum ásmegin og án þess að þess væri sérstaklega getið í fjölmiðlum þjóðarinnar skráðu Vopnfirsku blakdömurnar sig til keppni í einu þeirra móta sem fram fara vítt og breitt um landið að vetri. Fjaðrirnar urðu til og ekki litið um öxl eftir það. Tekin var ákvörðun að stofna til krakka- og ungmennablaks hvar Fjarðrir skiptu með sér þjálfuninni. Í liðinni viku lauk vetrarstarfinu með laufléttu móti og pítsu.

27.05 2018 - Sunnudagur

Selárlaug lokuð í dag

Af óviðráðanlegum orsökum er Selárlaug lokuð í dag, sunnudaginn 27. maí. Vonum við að laugin opni að nýju á mánudag, verður það tilkynnt gangi það ekki eftir.

-Fulltrúi

25.05 2018 - Föstudagur

Boltinn tekinn að rúlla

Sumarið er tíminn þá boltinn rúlla fer og síðastliðinn þriðjudag fór fram fyrsti keppnisleikur sumarsins á Vopnafjarðarvelli. Vikum og mánuðum áður höfðu meistaraflokkar Einherja leikið í Lengjubikar KSÍ auk stóru bikarkeppninnar, Mjólkurbikar. Var þriðjudagsleikurinn hluti af þeirri keppni og öttu piltarnir kappi við ÍBV í Eyjum fyrsta maí sl. í henni auk heldur og stóðu sig með sóma þótt leikurinn tapaðist. Áður en gerlegt er að leika keppnisleik þarf að ýmsu að huga og þann 22. maí sl. var unnið á vellinum, raunar báðum, í aðdraganda keppnistímabilsins 2018.

23.05 2018 - Miðvikudagur

Veljum Vopnafjörð – lok verkefnisins

Verkefninu  „Veljum Vopnafjörð“, sem hófst með íbúaþingi í apríl 2016 er nú formlega lokið. Með þessum línum vill undirritaður, fyrir hönd verkefnisstjórnar, þakka öllum þeim sem tóku þátt, með einum eða öðrum hætti. Verkefnið var leitt af Vopnafjarðarhreppi, með stuðningi frá Byggðastofnun, Austurbrú og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. ILDI rjáðgjöf sá um framkvæmd og skipulag verkefnisins.

Kjarni verkefnisins var áhersla á samtal og samstarf við íbúa, höfða til frumkvæðis íbúanna, frumkvöðla og ungs fólks. Í því skyni var m.a. haldið málþing sl. vorið 2017 undir yfirskriftinni, Yngri, kraftmeiri og fjölbreyttari Vopnafjörður, sem byggir á skilaboðum íbúaþings.

22.05 2018 - Þriðjudagur

Aðalsafnaðarfundur Vopnafjarðarsóknar

IMG_0753.JPGAðalsafnaðarfundur Vopnafjarðarsóknar 28. maí nk.

Aðalsafnaðarfundur Vopnafjarðarsóknar verður haldinn mánudaginn 28. maí nk. í safnaðarheimili kirkjunnar og hefst kl. 17:00.

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf.

Allir eru velkomnir.

17.05 2018 - Fimmtudagur

Kjörfundur á Vopnafirði

Kjörfundur vegna sveitarstjórnarkosninga laugardaginn 26. maí 2018 verður haldinn í félagsheimilinu Miklagarði frá kl. 10:00 til kl. 18:00 þann dag.

Athygli er vakin á því að aðgengi fyrir hreyfihamlaða er á norðurinngangi félagsheimilisins.

Kjörskrá liggur frammi á skrifstofu Vopnafjarðarhrepps, Hamrahlíð 15, til og með 25. maí  nk.


253 - 262 af 2253
< 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir