Fréttir

30.04 2018 - Mánudagur

Ársreikningur Vopnnafjarðarhrepps 2017 - fréttatilkynning

Vopnafjarðarhreppur ársreikningur 2017

Ársreikningur Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2017 var lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps mánudaginn 30. apríl 2018. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður ársreikninginn tekinn til síðari umræðu í sveitarstjórn 17. maí nk.

Ársreikningur Vopnafjarðarhrepps árið 2017 hefur að geyma ársreikning fyrir þær rekstrareiningar sem falla undir A-hluta starfsemi sveitarfélagsins og samantekinn ársreikning fyrir alla starfsemi þess, þ.e. A- og B-hluta, sbr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

27.04 2018 - Föstudagur

Skyndihjálparnámskeið Rauða krossins

Rauði krossinn á Vopnafirði auglýsir tvö skyndihjálparnámskeið föstudaginn 04. maí og laugardaginn 05. Annars vegar upprifjunarnámskeið á föstudeginum og grunnnámskeið á laugardeginum. Meðfylgjandi er auglýsing hér að lútandi en kennari er Sölvi Krisinn Jónsson og vettvangur námskeiðs safnaðarheimilið.

26.04 2018 - Fimmtudagur

Ráðstefna 9. og 10. bekkjar Vopnafjaðarskóla um loftlagsmál

Í gær stóðu nemendur Kristínar Jónsdóttur, eða Stínu í Skógum, fyrir ráðstefnu um loftlagsmál. Höfðu nemendurnir, í flestum tilfellum tvö og tvö saman, tekið fyrir tiltekið efni til nánari skoðunar undir handleiðslu kennara síns og ljóst að ýmislegt höfðu ungir nemendurnir lært. Bar glærukynning þeirra þess merki en allar áttu þær það sameiginlegt að vera unnar af alúð og vandvirkni. Var ráðstefnan hin athyglisverðasta og ljóst að það er æði margt sem við getum bætt í lifnaðarháttum okkar, einkum í hinum vestræna heimi þar sem sóunin er mest. Raunar er þetta ekki spurning um val.

 

24.04 2018 - Þriðjudagur

Skoðankönnun um hug íbúa til sameiningar sveitarfélaga

Í síðastliðnum mánuði svöruðu íbúar Austurlands skoðanakönnun á vegum samstarfsnefndar sveitarfélaga á Austurlandi þar sem leitast var við að fá svar við hug Austfirðinga til sameingar og/eða aukins samstarfs. Í stuttu máli voru íbúar Fljótsdalshéraðs hlynntastir, Vopnfirðingar og Fljótsdælingar andvígir sameiningarhugmyndum. Raunar eru íbúar Fljótsdalshéraðs þeir einu sem virkilega horfa til frekari sameiningar af íbúum sveitarfélaganna 6 en víða er vilji til aukins samstarfs.

20.04 2018 - Föstudagur

Sumarið er tíminn en hvað með veðrið næstu daga?

Ef litið er á vef Veðurstofunnar má vænta að fyrstu dagar sumars verði í svalara lagi eða frá -1°C upp í 2°C til og með sunnudaginn 29. Einhver ofankoma verður og þá ýmist í formi rigingar, slyddu eða lítilsháttar snjókomu. Verður fremur hæg norðaustlæg eða breytileg átt þessa daga. Ekkert af þessu kemur á óvart því reynslan hefur fyrir margt kennt okkur að halda væntingum í hófi þótt sjálfsagt sé að vona hið besta fyrir sumarið.

Á morgun er gert ráð fyrir 2°C á Austurlandi og sjálfsagt að geta þess að Einherji á leik gegn Leikni Fáskrúðsfirði á Fellavelli í Mjólkubikar karla en liðið vann glæstan 5:2 sigur á Sindra á Hornafirði um liðna helgi eftir að hafa lent manni undir í stöðunni 2:2. Hefst leikurinn kl. 14:00 á Fellavelli sem fyrr greinir og er aðgangur frír.

19.04 2018 - Fimmtudagur

Sumardagurinn fyrsti er í dag - Selárlaug opin 12-16

Í gær kvöddu Íslendingar vetur samkvæmt gamla norræna dagatalinu er dagurinn í dag sumardagurinn fyrsti. Var dagurinn einnig kallaður Yngismeyjadagur og markar upphaf Hörpu sem er fyrstur af sex sumarmánuðunum. Ber daginn alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu 19.-25. apríl eða fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl. Sjálfsagt má deila um hvort tímabilið sé vel valið með hliðsjón af íslensku veðurfari en sannleikurinn er sá að á Íslandi getur snjóað alla mánuði ársins – og þess eru dæmi að það gerist – þótt vissulega megi hlýrri daga vænta eftir því sem inn í vorið/sumarið líður. Fyrsti sumardagur er frídagur og var öldum áður auk heldur messudagur. Í seinni tíð hefur skátahreyfingin einkum haldið uppi hátíð á þessum degi með skátamessum og skrúðgöngum.

17.04 2018 - Þriðjudagur

Selárlaug opin milli kl. 16-19 miðvikudaginn 18. apríl

Athygli sundlaugargesta er vakin á að miðvikudaginn 18. apríl er sundlaugin opin milli kl. 16:00 - 19:00 vegna útfarar Heiðbjartar Björnsdóttur.

-Fulltrúi

13.04 2018 - Föstudagur

Austfirðingum fjölgar um 2% - Vopnfirðingum um 6%

Íbúum Austurlands fjölgaði um 2% á milli árana 2017 og 2018 samkvæmt Hagstofu Íslands og miðast við 01. janúar sl. Íbúum fjölgar í 5 af 8 sveitarfélögum fjórðungsins. Íbúar Austurlands voru 10.485 í upphafi árs og hafði fjölgað um 175 eða 2% milli ára, 49% þeirra í Fjarðabyggð eða 86. Vopnfirðingum fjölgaði hlutfallslega meira en Fjarðarbyggðarbúum eða um 6% og er öll kvennamegin því þeim fjölgar um 18 meðan karlmönnum fækkar um 8. Voru Vopnfirðingar 655 á þessum tímamótum. Er nú því sem jafnt á með körlum og konum komið á Vopnafirði, 328 karlar og 327 konur.

 

12.04 2018 - Fimmtudagur

Kórar Vopnafjarðar halda utan

Kórar Vopnafjarðar, karla- og kirkjukórinn, lögðu haf og land undir fót í gær er kórarnir héldu með Norrænu í átt til Færeyja. Frá Vopnafirði fara að þessu tilefni liðlega 40 manns. Þegar fréttin birtist eru Vopnfirðingar vel á veg komnir en ytra halda þeir tvenna tónleika, í Klaksvík á föstudagskvöld 13. og í höfuðstaðnum Þórshöfn á laugardaginn.

10.04 2018 - Þriðjudagur

Málstofan Skógurinn skemmir ... haldin á Vopnafirði laugardaginn 07. apríl

Frá því var greint hér á heimasíðu Vopnafjarðar 05. apríl sl. að haldin yrði málstofa í félagsheimilinu laugardaginn 07. apríl undir heitinu Skógurinn skemmir útsýnið en hvað gerir hann fyrir okkur? Til stofunnar voru boðaðir þekkingaraðilar á sviði skógræktar með öllu því sem hún inniber auk liðsstyrks af heimavelli. Tíðindamaður naut þeirrar gæfu að fá tækifæri til þátttöku og þá einkum metið út frá þeim stórmerkilegu erindum sem kollegar hans úr hópi frummælanda höfðu að færa. Sá hópur fólks sem lagði leið sína í félagsheimilið fór þaðan margs vísari en eins og málstofustjóri Else Möller orðaði það var megintilgangur málstofunnar að setja fram umræðu um skógrækt á ögrandi hátt. Fundarstjóri var Björn Halldórsson.

 


263 - 272 af 2238
< 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir