Fréttir

19.04 2018 - Fimmtudagur

Sumardagurinn fyrsti er í dag - Selárlaug opin 12-16

Í gær kvöddu Íslendingar vetur samkvæmt gamla norræna dagatalinu er dagurinn í dag sumardagurinn fyrsti. Var dagurinn einnig kallaður Yngismeyjadagur og markar upphaf Hörpu sem er fyrstur af sex sumarmánuðunum. Ber daginn alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu 19.-25. apríl eða fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl. Sjálfsagt má deila um hvort tímabilið sé vel valið með hliðsjón af íslensku veðurfari en sannleikurinn er sá að á Íslandi getur snjóað alla mánuði ársins – og þess eru dæmi að það gerist – þótt vissulega megi hlýrri daga vænta eftir því sem inn í vorið/sumarið líður. Fyrsti sumardagur er frídagur og var öldum áður auk heldur messudagur. Í seinni tíð hefur skátahreyfingin einkum haldið uppi hátíð á þessum degi með skátamessum og skrúðgöngum.

17.04 2018 - Þriðjudagur

Selárlaug opin milli kl. 16-19 miðvikudaginn 18. apríl

Athygli sundlaugargesta er vakin á að miðvikudaginn 18. apríl er sundlaugin opin milli kl. 16:00 - 19:00 vegna útfarar Heiðbjartar Björnsdóttur.

-Fulltrúi

13.04 2018 - Föstudagur

Austfirðingum fjölgar um 2% - Vopnfirðingum um 6%

Íbúum Austurlands fjölgaði um 2% á milli árana 2017 og 2018 samkvæmt Hagstofu Íslands og miðast við 01. janúar sl. Íbúum fjölgar í 5 af 8 sveitarfélögum fjórðungsins. Íbúar Austurlands voru 10.485 í upphafi árs og hafði fjölgað um 175 eða 2% milli ára, 49% þeirra í Fjarðabyggð eða 86. Vopnfirðingum fjölgaði hlutfallslega meira en Fjarðarbyggðarbúum eða um 6% og er öll kvennamegin því þeim fjölgar um 18 meðan karlmönnum fækkar um 8. Voru Vopnfirðingar 655 á þessum tímamótum. Er nú því sem jafnt á með körlum og konum komið á Vopnafirði, 328 karlar og 327 konur.

 

12.04 2018 - Fimmtudagur

Kórar Vopnafjarðar halda utan

Kórar Vopnafjarðar, karla- og kirkjukórinn, lögðu haf og land undir fót í gær er kórarnir héldu með Norrænu í átt til Færeyja. Frá Vopnafirði fara að þessu tilefni liðlega 40 manns. Þegar fréttin birtist eru Vopnfirðingar vel á veg komnir en ytra halda þeir tvenna tónleika, í Klaksvík á föstudagskvöld 13. og í höfuðstaðnum Þórshöfn á laugardaginn.

10.04 2018 - Þriðjudagur

Málstofan Skógurinn skemmir ... haldin á Vopnafirði laugardaginn 07. apríl

Frá því var greint hér á heimasíðu Vopnafjarðar 05. apríl sl. að haldin yrði málstofa í félagsheimilinu laugardaginn 07. apríl undir heitinu Skógurinn skemmir útsýnið en hvað gerir hann fyrir okkur? Til stofunnar voru boðaðir þekkingaraðilar á sviði skógræktar með öllu því sem hún inniber auk liðsstyrks af heimavelli. Tíðindamaður naut þeirrar gæfu að fá tækifæri til þátttöku og þá einkum metið út frá þeim stórmerkilegu erindum sem kollegar hans úr hópi frummælanda höfðu að færa. Sá hópur fólks sem lagði leið sína í félagsheimilið fór þaðan margs vísari en eins og málstofustjóri Else Möller orðaði það var megintilgangur málstofunnar að setja fram umræðu um skógrækt á ögrandi hátt. Fundarstjóri var Björn Halldórsson.

 

09.04 2018 - Mánudagur

Vilborg Davíðsdóttir til Vopnafjarðar 10. apríl

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur sækir Vopnafjörð heim á morgun, 10. apríl. Hyggst Vilborg heilsa upp 9. og 10. bekk í Vopnafjarðarskóla og fjalla um Korku sögu og er áætlað verði milli kl. 10:30-11:30. Í framhaldi af skólaheimsókn mun Vilborg sækja eldra borgara heim í Sambúð og er áætlaður tími milli kl. 16:00-17:00. Þar er Auður djúpúðga til umræðu og umfjöllunar en líkt og Korku saga skrifaði Vilborg bók um landnámskonuna Auði djúpugðu, raunar var um þríleik að ræða og kom fyrsta bókin út árið 2009.

06.04 2018 - Föstudagur

Kórtónleikar í Miklagarði

Kórar Vopnafjarðar bjóða til tónleikahalds næstkomandi sunnudag nánar tiltekið 08. apríl nk. Fram munu koma Barnakór Vopnafjarðar, Karla- og Kirkjukór Vopnafjarðar og hefjast tónleikarnir kl. 16:00 í félagsheimilinu Miklagarði. Það er ánægjulegt að greina frá því að í næstu viku halda karla- og kirkjukórinn til Færeyja ásamt kórstjóra sínum Stephen Yates í fyrstu utanför kóranna en ytra munu þeir halda tvenna tónleika, í Klaksvík föstudaginn 13. og í Þórshöfn þann 14.

05.04 2018 - Fimmtudagur

Opnun Selárlaugar næstu 2 vikur

Athygli er vakin á að opnun Selárlaugar verður með breyttum hætti fáeina daga í næstu og þarnæstu viku sökum þess að ¾ starfsmanna íþróttamiðstöðvar verða utan þjónustusvæðis á þeim tíma. Þeir dagar sem málið varðar eru miðvikudagurinn 11. apríl, fimmtudagurinn 12., laugardagurinn 14. og loks mánudagurinn 16. Opnunartíma má sjá hér að neðan.

05.04 2018 - Fimmtudagur

Málstofa á Vopnafirði laugardaginn 07. apríl

Laugardaginn 07. apríl næstkomandi stendur Skógræktar- og landgræsðslufélagið Landbót fyrir málþingi í félagsheimilinu Miklagarði og hefst kl. 13.30. Heiti málstofunnar er Skógurinn skemmir útsýnið en hvað gerir hann fyrir okkur? og verður leitast við að svara þessari staðhæfingu á fundinum. Else Möller formaður Landbótar er í fyrirsvari fyrir viðburðinum og hefur fengið til liðs við sig góðan hóp fagfólks auk þess sem einn úr hópi heimamanna mun leggja viðburðinum lið.

03.04 2018 - Þriðjudagur

Austurbrú rekin með hagnaði

Ársfundur Austurbrúar var haldinn á Breiðdalsvík þann 20. mars sl. og kom fram í málið Jónu Árnýjar framkvæmdastjóra að árið 2017 hafi verið hvoru tveggja viðburða- og árangursríkt. Því til staðfestu er ársreikningurinn sem sýnir að í fyrsta sinn frá stofnun 2012 er Austurbrú með jákvætt eigið fé. Framkvæmdastjóri Austurbrúar þakkar þennan árangur m.a. sterkri kostnaðarvitund starfsfólks og góðri samvinnu starfsmanna og stjórnar stofnunarinnar. Frá þessu er greint á heimasíðu Austurbrúar, www.austurbru.is


283 - 292 af 2253
< 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir