Fréttir

19.12 2017 - Þriðjudagur

Jólahátíð skólanna

Á morgun er 20. desember og þann dag hyggjast skólarnir á Vopnafirði, leikskólinn Brekkubær og Vopnafjarðarskóli, halda árlega jólagleði sína; jólaball í leikskólanum og litlu jólin í grunnskólanum. Hefjast viðburðirnir báðir kl. 09:30 og leikur ekki vafi á að mikið verður um dýrðir og jólaandinn alls ráðandi.

18.12 2017 - Mánudagur

Opnun Selárlaugar og íþróttahúss um jól og áramót

Innan fárra daga fagna jarðarbúar flestir jólahátíð og rétt að hafa í huga að opnun íþróttamannvirkja riðlast af þessu tilefni, opnunartímar Selárlaugar og íþróttahúss taka breytingum. Er opnun íþróttamannvirkjanna að finna hér á síðu Vopnafjarðar en þá daga sem ekki er opið má nota til göngu í náttúrunni ef hreyfiþörfin gerir vart við sig um jól og áramót.

15.12 2017 - Föstudagur

Fjárhagsáætlun 2018 afgreidd í sveitarstjórn

Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps hefur afgreitt fjárhagsáætlun næsta árs. Á síðasta fundi sveitarstjórnar á árinu 2017 sem haldinn var í gær fór fram síðari umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2018-2021. Allar upplýsingar um áætlunina, fyrir 2018 og 3ja ára áætlunina 2018-2021, er að finna í fylgigögnum fundargerðar sveitarstjórnar hér á síðunni. Samkvæmt samþykktri áætlun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps er þess vænst að rekstrarniðurstaðan verði jákvæð um 134 milljónir króna. Verður það að teljast góður árangur en áætlaðar eru framkvæmdir upp á 104 milljónir.

14.12 2017 - Fimmtudagur

Framundan mikil endurnýjun í sveitarstjórnum

Samkvæmt könnun Evu Marínar Hlynsdóttur stjórmálafræðings verður mikil endurnýjun í sveitarstjórnum í komandi kosningum. Það er í sjálfu sér ekki ný fregn en hlutfall þeirra sem ekki snúa aftur fer hækkandi hvað þýðir að fleiri óreyndir einstaklingar gerast sveitarstjórnarmenn. Einkum eru það konur og fulltrúar í sveitarstjórnum smærri sveitarfélaganna sem hætta eftir eitt kjörtímabil. Í frétt RUV hér að lútandi í gær kemur fram að hátt í 40% sveitarstjórnarfólks snúi ekki aftur að kosningum loknum hverju sinni óháð úrslitum kosninga. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sveitarstjórnarmála er lögð áhersla á öflugt samráð milli ríkis og sveitarfélaga um margvísleg mál.

12.12 2017 - Þriðjudagur

Flogið yfir haf

Í jólahappdrætti Einherja þessa árs er meðal vinninga 2 gjafabréf er varða útsýnisflug með Circle Air á Akureyri þar sem vinningshöfum býðst flug í sérútbúinni vél til útsýnisflugs. Er farið inn á hálendi landsins og er óhætt að lofa að það sé upplifun fyrir hvern sem það reynir – landið okkar er sem kunnugt er sérlega fagurt óháð árstíma. Um liðna helgi naut tíðindamaður þeirra forréttinda að fara í flug með vél flugfélagsins þar sem áfangastaðurinn var Grímsey. Þangað hafði tíðindamaður einu sinni komið fyrir hátt í ½ öld með vöruflutningaskipinu Drangi EA. Boðið var vitanlega þegið án umþóttunar.

08.12 2017 - Föstudagur

Nýr meirihluti á Vopnafirði

Betra Sigtún og B-listi famsóknar og óháðra hafa gert með sér samkomulag um meirihluta í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps út kjörtímabilið. Meirihluti Betra Sigtúns og K-lista félagshyggjufólks sem starfað hafði frá upphafi kjörtímabilsins sprakk á sveitarstjórnarfundi fimmtudagskvöldið 30. nóvember sl. vegna skoðanamunar á störfum sveitarstjóra. Í ljósi þessa hafa hlutaðeigendur er mynduðu fyrri meirihluta óskað eftir að birt verði tilkynning/yfirlýsing beggja hér á heimasíðu Vopnafjarðar.

07.12 2017 - Fimmtudagur

Vopnafjarðarhreppur auglýsir eftir umsjónarmanni Miklagarðs

Félagsheimilið Mikligarður

Vopnafjarðarhreppur leitar eftir starfsmanni til að sjá um rekstur samkomuhússins Miklagarðs á Vopnafirði frá 1. janúar 2018.

 

Frekari upplýsingar varðandi starfið  gefur sveitarstjóri í síma 473-1300, netfang olafur@vopnafjardarhreppur.is  eða á skrifstofu sveitarfélagsins Hamrahlíð 15, Vopnafirði.

04.12 2017 - Mánudagur

Fyrsti sunnudagur í aðventu - á Vopnafirði

Í gær var fyrsti sunnudagur í aðventu sem er augljós merki um að jólin eru í nánd og niðurtalningin er hafin. Vopnfirðingar eins og aðrir landsmenn huga að jólum með sínum hætti. Hefð er komin fyrir dagskrá á fyrsta sunnudegi í aðventu, aðventuhátíð í Vopnafjarðarkirkju og dagskrá við Kaupvang hvar tendrað er á ljósum jólatrésins. Raunar bauðst íbúum heitt súkkulaði og smákökur á Hótel Tanga frá og með kl. 14 og það nýttu sér margir.

01.12 2017 - Föstudagur

Skemmtun, messa og tendrun jólaljósa

Í dag fagnar íslensk þjóð fullveldi sínu, 1918 er langt undan og einhvern veginn hefur þessi dagur fallið í skuggann af þjóðhátíðardegi lýðveldisins. Þarna voru mikilvæg skref stigin í átt til sjálfstæðis sem 26 árum síðar var lýst yfir að viðstöddu fjölmenni á Þingvöllum.

 

Annað kvöld stendur Skemmtifélagið stendur fyrir skemmtun í Miklagarði og hefst kl. 20:30 en húsið opnar nokkru fyrr og sjálfsagt að koma fyrr og finna sér þægilegt sæti. Mun jólaandinn vera alls ráðandi og af fenginni reynslu verður án efa mikið fjör en sem kunnugt er tekur fátt því fram þegar heimafólk stendur að samkomu.

30.11 2017 - Fimmtudagur

Svo kom vetur

Líkt og spáð hafði verið í öndverðri liðinnar viku myndi yfir landið ganga veður sem kynni að setja samgöngur úr skorðum, hafa umtalsverð áhrif á líf okkar og fyrirætlanir. Það gekk eftir. Vopnfirðingar fóru ekki varhluta af, blés hann hvössum vindi úr norðri með tilheyrandi ofankomu. Starfsmenn hreppsins voru uppteknir við vinnu frá morgni til kvölds þá daga sem verst lét og héldu götum opnum. Á heiðum uppi gekk svo mikið á að ófært var á Norður- og Norðausturlandi í 2-3 daga. Hafði veturinn minnt á sig.


283 - 292 af 2187
< 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir