Fréttir

05.03 2018 - Mánudagur

Gunnar Gunnarsson nýr framkvæmdastjóri UÍA

Á heimasíðu UÍA er frá því greint að stjórn þess hafi ráðið nýjan framkvæmdastjóra til starfa en starfið var auglýst fyrir nokkru laust til umsóknar. Til starfans var ráðinn Gunnar Gunnarsson sem flestir þekkja sem Gassa. Mun Gunnar taka við af Ester Sigurástu Sigurðardóttur sem gengt hefur starfinu um skeið en er nýr resktrarstjóri Löngubúðar á Djúpavogi.

02.03 2018 - Föstudagur

Karlakórinn Hreimur á Vopnafirði laugardaginn 03. mars

Karlakórinn Hreimur er á söngferðlagi um Austurland þessa helgina og hefur viðkomu á Vopnafirði á morgun, laugardaginn 03. mars. Tónleika heldur kórinn í félagsheimilinu Miklagarði kl. 20:30 en þessi fjölmenni kór hefur fyrir löngu öðlast þá stöðu að vera meðal bestu karlakóra landsins. Á rúmlega 40 ára ferli hefur kórinn gefið út fjölda hljómplatna, farið 9 utanferðir og sungið vítt og breitt um landið. Og er sum sé á Vopnafirði á morgun og kostar 2.500 krónur inn.

01.03 2018 - Fimmtudagur

Ögrun í Vopnafirði kynnt landeigendum

Ögrun Bjarneyjar Guðrúnar var til kynningar fyrir landeigendum sl. þriðjudagskvöld í Kaupvangskaffi og var mæting þeirra með ágætum. Kynnti Bjarney verkefnið sitt fyrir sveitarstjórn þann 01. febrúar sl. og var vel tekið. Í knöppu máli er grunnhugmyndin skilgreind í 3 erfiðleikastigum og er um hringför að ræða í öllum tilfellum. Hver hringur inniheldur 8 staði sem hlutaðeigandi þarf að finna og mynda.

28.02 2018 - Miðvikudagur

Breyting á opnunartíma Selárlaugar

Vakin er athygli sundlaugargesta Selárlaugar á að frá og með 01. mars nk. lengist opnunin um eina klukkustund hvern virkan dag vikunnar sem opið er. Verður opið milli kl. 14:00 - 19:00 frá og með morgundeginum að telja og miðast sem fyrr að vetri við þriðjudag til og með föstudag.

Um helgar helst opnunin óbreytt, kl. 12:00 - 16:00.

-Fulltrúi

26.02 2018 - Mánudagur

Opið hús í Jónsveri og aðalfundur Einherja

Fimmtudaginn 22. febrúar sl. bauð sjálfseignarstofnunin Jónsver ses. til opins húss og sama dag hélt Ungmennafélagið Einherji aðalfund sinn. Margur nýtti sér heimboðið og leit inn í vinnustofuna og kynnti sér starfsemina og mun nýráðin verkefnisstýra Harpa Wiium fá það verk að vinna að eflingu hennar. Húsnæðið er gott og þegar þekking og reynsla af ýmiskonar verkefnum fer saman má ljóst vera að Jónsver ses getur veitt viðskiptavinum sínum margvíslega aðstoð og lausnir. Aðalfund Einherja sem haldinn var á Hótel Tanga sótti nokkur hópur fólks sem lætur félagið sig varða. Fram fór mikil umræða um stöðu félagsins í samfélaginu og þau margslungnu viðfangsefni sem tilhreyra starfi ungmenna-/íþróttafélags.

23.02 2018 - Föstudagur

Selárlaug lokuð laugardaginn 24. febrúar

Vakin er athygli á að Selárlaug er lokuð á morgun, laugardaginn 24. febrúar, af óviðráðanlegum orsökum. Laugin er opin samkvæmt vetraropnun á sunnudag milli kl. 12:00 - 16:00.

Vakin er ennfremur athygli á að frá og með fimmtudag 01. mars nk. lengist opnun Selárlaugar um eina klukkustund og verður opið virka daga, þriðjudag til og með föstudag, milli kl. 14:00 - 19:00. Helgaropnun verður áfram hin sama.

-Fulltrúi

21.02 2018 - Miðvikudagur

Lífshlaupinu lokið í ár

Lífshlaupinu, heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, lauk í gær.  Á Vopnafirði voru nokkrir vinnustaðir og grunnskólinn meðal þátttakenda en hlaupinu er ætlað að höfða til allra aldurshópa. Það er ánægjulegt að greina frá því að Vopnafjarðarskóli hafnaði í 2. sæti grunnskóla með 3-89 nemendur en skólinn hefur ávallt staðið sig vel. Hið sama má segja um leikskólann, hafnaði Brekkubær í 3ja sæti í sínum flokki, vinnustaðir með 5-9 starfsmenn og skrifstofa Vopnafjarðarhrepps í sama flokki í því 7. Blikar ehf. voru ennfremur í þessum flokki og lentu í 14. sæti en alls skráðu sig 140 vinnustaðir í þessum flokki þótt þátttakan hafi ekki verið slík.

 

19.02 2018 - Mánudagur

Konudagur í brennidepli

Í gær var konudagur samkvæmt gamla tímatalinu og fyrsti dagur í Góu sem markar næstseinasti mánuð vetrarmisseris. Á Vopnafirði var eitt og annað gert í tilefni dagsins svo sem sagt var frá hér fyrir helgi að myndi verða. Þannig bauð Einherji upp á sölu blóma í grunnskólanum að morgni konudags, kaffihúsamessa haldin í Kaupvangskaffi um miðjan dag og kl. 17 sýning á endurgerðri heimildarmyndinni 690 Vopnafjörður.

16.02 2018 - Föstudagur

Blómasala, messa og bíó á konudag

Næstkomandi sunnudag er konudagur og markar upphaf Góu og stendur ávallt upp á sunnudag í 18. viku vetrar. Konudagur markar sum sé upphaf Góu rétt eins og fyrsti dagurinn í Þorra er bóndadagurinn. Á konudag minntust bændur og eiginmenn húsfreyjunnar með því að fagna góu sem færir með sér vaxandi birtu og vorinnganginn. Eitt og annað er í boði þennan dag á Vopnafirði. Þannig býður Einherji upp á blómasölu í Vopnafjarðarskóla milli klukkan tíu og tólf, klukkan 15:00 er kaffihúsamessa í Kaupvangskaffi og kl. 17:00 verður heimildarmyndin 690 Vopnafjörður sýnd í Miklagarði.

15.02 2018 - Fimmtudagur

Myndmál öskudagsins

Öskudagurinn leið áfram með velþóknun barna á öllum aldri en eins og ávallt hefur verið var þáttur Vopnafjarðarskóla stærstur. Byrjar dagurinn á samveru í íþróttahúsinu hvar kötturinn er sleginn úr tunnunni, tunnunum raunar þar eð þær eru tvær. Gekk það óvenju hratt fyrir sig að þessu sinni en svona er þetta stundum, í öðrum tilfellum er á tunnunum hamast ungviðið með litlum árangri lengi vel. Að samveru lokinni var haldið yfir í skóla áður en lagt var í hann, rölt um bæinn og góðgæti þegið í kjölfar söngs. Síðar um daginn var svo öskudagsskrall í félagsmiðstöðunni.


293 - 302 af 2238
< 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir