Fréttir

09.02 2018 - Föstudagur

Almenn ánægja með Mannamót

Kynningarvettvangur markaðsstofa ferðaþjónustu landsbyggðanna, Mannamót, var sett upp þann 18. janúar sl. í flugskýli Ernis á Reykjavíkurflugvelli. Samstarfsfyrirtæki markaðsstofanna eru í forgrunni vinnustofunnar og voru yfir 200 sýnendur að þessu sinni, þar af 26 frá Austurlandi og hafa aldrei verið fleiri. Á vef Austurbrúar, www.austurbru.is, er um Mannamót fjallað og segir María Hjálmarsdóttir hjá Austurbrú hafa mikinn samhug ríkt meðal Austfirðinga, samheldni þeirra hafi vakið athygli. Tilgangurinn helgar meðalið, þ.e. að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Mun það hafa vakið eftirtekt sú mikla gróska sem er að finna utan þéttbýlis suðvesturhornsins.

 

08.02 2018 - Fimmtudagur

Hjúkrunarheimilið Sundabúð - sumarafleysingar

Atvinna -  sumarafleysingar

 

Sjúkraliðar og ófaglært starfsfólk óskast til sumarafleysinga  á hjúkrunardeild Sundabúðar. Um er að ræða störf í vaktavinnu við hjúkrun aldraðra, næturvaktir í þvottahúsi og afleysingar í eldhúsi.

 

Einnig vantar starfskraft í ræstingu, vinnutími frá kl. 8 til 12.30

07.02 2018 - Miðvikudagur

Loðnukvótinn 285 þúsund tonn

Hafrannsóknarstofnun leggur til að heildarkvótinn á loðnuveríðinni verði 285 þúsund tonn. Það þýðir að 77 þúsund tonn bætast við upphafskvóta þann sem gefinn var út í haust. Í framhaldi þeirra mælinga sem gerðar voru á stærð loðnustofnsins í september og október, var úthlutað 208 þúsund tonna kvóta. Þá kom fram að ráðgjöfin yrði endurskoðuð í ljósi niðurstaðna úr mælingum síðar um veturinn 2018. Þeim mælingum lauk í liðinni viku. Í viðtali á vef HB Granda hf., www.hbgrandi.is, segir Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs félagsins að niðurstaða mælinga Hafró sé mikil vonbrigði fyrir útgerðina og þeir sannfærðir um að heimila hefði mátt meiri veiði. Er kvótinn nú 14 þúsund tonnum minni en á sl. ári.

05.02 2018 - Mánudagur

Viðauki við samning um félagsþjónustu og barnavernd

Félagsmál Vopnafjarðarhrepps heyra undir félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs og þar á sveitarfélagið einn fulltrúa, Ásu Sigurðardóttur. Hér að neðan er nánar tilgreind samsetning félagsmálanefndar. Á fundi sveitarstjórnar sl. fimmtudag var til umfjöllunar viðauki við samning um félagsþjónustu og barnavernd og samningurinn meðal fylgigagna fundargerðarinnar. Svo sem fram kemur í knöppum texta fundargerðar gerði Ása nánari grein fyrir málinu og þá einkum því verklagi sem kallað hefur verið „sænska módelið“ sem felur í sér ítarlegt samstarf við grunn- og leikskóla aðildarsveitarfélaganna. Var á fundinum samhljóða samþykkt þátttakan í innleiðingu módelsins.

02.02 2018 - Föstudagur

Ögrun í Vopnafirði – útivist og upplifun

Á fundi sveitarstjórnar í gær kynnti Bjarney Guðrún Jónsdóttir verkefni sitt Ögrun í Vopnafirði – útivist og upplifun í fjölbreyttri náttúru – fyrir sveitarstjórn. Hafði Bjarney þegið boð um að koma með kynningu sína á fundinn og bauð upp á glærusýningu sem inniheldur auk texta stórgóðar myndir Jóns Sigurðarsonar. Myndirnar hafa skýran tilgang því þátttakendum er ætlað að mynda á þeim stöðum sem tilgreindir eru. Tíðindamaður hefur fengið aðgengi að glærunum og er fréttin samantekt af því sem á þeim stendur en skemmst er frá því að segja að nefndarmenn lýstu yfir ánægju sinni með hugmyndina og vilji til að styðja svo sem kostur er.

 

01.02 2018 - Fimmtudagur

1. febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar

Dagurinn í dag er Dagur kvenfélagskonunnar. Saga kvenfélaga er samofin sögu lands og þjóðar um langt árabil og leikur ekki vafi á mikilvægi þeirra en ekki einungis er félagsskapurinn hverjum hollur heldur það starf sem innt er af hendi í þágu samfélags síns. Við undirbúning 80 ára afmælis KÍ árið 2010 þótti stjórninni við hæfi að kvenfélagskonur ættu sinn eigin dag og þótti við hæfi að dagurinn sem kvenfélagskonur ákváðu yrði 1. febrúar, stofndagur Kvenfélagasambands Íslands. Á Vopnafirði er Kvenfélagið Lindin sem stofnuð var árið 1921 og hefur látið margt gott af sér leiða í gegnum árin sem kunnugt er. Núverandi formaður félagsins er Karen Hlín Halldórsdóttir.

31.01 2018 - Miðvikudagur

Rysjótt tíð framundan

Frónbúar hafa langa reynslu af tíðum veðrabrigðum árið um kring. Nú þegar hyllir undir lok fyrsta mánaðar ársins og enn er miður vetur má gera ráð fyrir rysjóttri tíð næstu daga. Fyrir þá sem hyggjast leggja land undir fót sjálfsagt að líta á veðurkortið áður en lagt er í hann. Gert er ráð fyrir norðlægri átt í dag og éljagangi á norðanverðu landinu en bjartviðri sunnantil. Gengur í norðvestan 18-23 í nótt suðaustantil en yfirleitt 10-15 á Norðaustur- og Austurlandi og enn hægari á vestanverðu landinu. Lægir og dregur úr éljum síðdegis á morgun, og þar með kveður norðanáttin okkur í bili.

 

29.01 2018 - Mánudagur

Meira af 690 Vopnafjörður

Frá því var greint þann 23. janúar sl. að í þeirri viku skyldi heimildarmyndin 690 Vopnafjörður verða sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni FIPA í Frakklandi. Er gleðilegt að greina frá því að myndin vakti athygli og lofsverða gagnrýni. Í næsta mánuði fer myndin vestur um haf á heimildarmyndahátíðina BIG SKY í Missoula í Montana í Bandaríkjunum og er ein 10 mynda sem keppir um titilinn besta heimildarmyndin. Það eitt að komast inn á hátíðina er frétt en að ná því marki að berjast um þessa vegtyllu er stórfregn.

 

25.01 2018 - Fimmtudagur

Vopnafjörður í brennidepli – viðtal við sveitarstjóra

Ólafur Áki sveitarstjóri er í viðtali í 1. tbl. ársins vikublaðsins Austra og þar sem það er áhugavert fer vel á að birta kafla úr því hér. Segir þar að í fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2018 sé gert ráð fyrir heildartekjum upp á liðlega milljarð króna og rekstrarniðurstaðan jákvæð um tæpar 134 milljónir. Til framkvæmda verði varið 105 m.kr. eða um 78% af áætluðum rekstrarfagangi. Vegur þar þyngst bygging vallarhúss á íþróttasvæðinu upp á 50 m.kr. en þess er vænst að úr Mannvirkjasjóði KSÍ komi samtals 15 m.kr. til byggingarinnar. Verið er að vinna deiliskipulag fyrir svæðið og þar er m.a. gert ráð fyrir fjölnota íþróttahúsi og útivistarsvæði.

23.01 2018 - Þriðjudagur

690 VOPNAFJÖRÐUR

Á morgun verður heimildarmyndin 690 VOPNAFJÖRÐUR frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni FIPA - Festival International de Programmes Audiovisuels – og keppir í flokki alþjóðlegra heimildarmynda. Svo sem frá var greint hér á heimasíðu Vopnafjarðar 20. október sl. berast eigi færri en 1200 umsóknir til stjórnar hátíðarinnar ár hvert frá liðlega 70 löndum en innan við 10% hljóta náð fyrir augum dómnefndar. Í þeim hópi er hugverk Körnu, Sebastians og Arnaldar. Á því leikur ekki vafi að í því felst mikil upphefð að myndin skuli hafa náð inn á FIPA og er það trú tíðindamanns að þessi ljóðræna samfélagsmynd muni vekja athygli yrta hafandi hlotið lof gagnrýnenda.


293 - 302 af 2226
< 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir