Fréttir

29.11 2017 - Miðvikudagur

Rithöfundalest(ur) á Austurlandi

Rithöfundalest(ur) á Austurlandi - Kaupvangskaffi á Vopnafirði, fimmtudaginn 30. nóv. nk. kl. 20:00.

 

Árviss rithöfundalest fer um Austurland dagana 30. nóvember til 02. desember nk. Á ferð verða kunnir höfundar með nýjustu verk sín. Austfirska verðlaunaskáldið Jónas Reynir Gunnarsson les úr skáldsögunni Millilendingu, sem bókaútgáfan Partus gefur út, og annar austfirskur höfundur, Hrönn Reynisdóttir kemur með annað bindið um hina ótrúlegu Kolfinnu, Nei, nú ertu að spauga, Kolfinna! sem Bókstafur gefur út. Valur Gunnarsson fjallar um hernám Þjóðverja á Íslandi í Örninn og fálkinn sem kemur út hjá Forlaginu og Friðgeir Einarsson, les úr skáldsögu sinni um Formann húsfélagsins sem Bókaútgáfan Benedikt gefur út.

27.11 2017 - Mánudagur

Innsetning Þuríðar Bjargar

Séra Þuríður Björg Wiium Árnadóttir er sóknarprestur Hofsprestakalls. Það var staðfest við innsetningarmessu í Vopnafjarðarkirkju í gærkvöldi. Sr. Davíð Baldursson prófastur Austurlandsprófastsdæmis var hingað kominn til að setja Þuríði Björgu inn í embætti. Var athöfnin öll hin hátíðlegasta enda ekki á hverju ári sem prestur er settur í embætti. Þuríður Björg annaðist messugjörð og fólst það vel húr hendi, örugg og fullkomlega fumlaus.

25.11 2017 - Laugardagur

Innsetningarmessa sunnudaginn 26. nóvember

Á morgun, sunudaginn 26. nóvember næstkomandi kl. 20:00 – athuga breyttan tíma – verður innsetningarmessa í Vopnafjarðarkirkju. Sr. Davíð Baldursson prófastur Austurlandsprófastsdæmis setur sr. Þuríði Björgu W. Árnadóttur formlega inn í embætti sóknarprests Hofsprestakalls. Um hátíðarviðburð er að ræða, Vopnfirðingar eru að fá nýjan sóknarprest og munu án efa fagna með nærveru sinni. 

24.11 2017 - Föstudagur

Lokað í dag í Selárlaug og safnstöð

Athygli íbúa Vopnafjarðar er vakin á að lokað er í dag, föstudaginn 24. nóvember, í Selárlaug og safnstöð sveitarfélagsins. Fer saman að veður er óblítt og aðstæður til aksturs afleitar, slæmt skyggni og ófærð. Að vanda gera starfsmenn þjónustumiðstöðvar sitt ítrasta til að halda götum í þéttbýli Vopnafjarðar opnum en eigi fólk ekki brýnt erindi er viturlegt að halda ró sinni heima fyrir.

 

-Fulltrúi

22.11 2017 - Miðvikudagur

Skóli við Lónabraut í 50 ár

Föstudaginn 17. nóvember sl. var boðið til opins húss í Vopnafjarðarskóla. Tilefnið var ærið því skólinn, starfsmenn hans, vildu fagna 50 ára afmæli skóla við Lónabraut með öðrum úr samfélaginu vopnfirska. Fjölmargir svöruðu kallinu og fyrir þá sem minningar eiga úr skóla á þessum stað nutu þess að rifja upp gamla góða tíma, þann tíma sem þeir áttu í Vopnafjarðarskóla og síðar börn þeirra og barnabörn. Mikið var skrafað, vöngum velt og hlegið. Á stundu sem þessari sannar ljósmyndin eftirminnilega gildi sitt.

22.11 2017 - Miðvikudagur

Sundabúð auglýsir eftir starfskrafti

Atvinna / hlutastarf

 

Starfsmaður óskast til starfa við félagslega heimaþjónustu. Um er að ræða hlutastarf tvo virka daga í viku 4-6 tíma í senn. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.

 

Nánari upplýsingar gefur Emma Tryggvadóttir hjúkrunarforstjóri í síma 470 1240 og emma@vopnafjardarhreppur.is 

21.11 2017 - Þriðjudagur

Hanna Hallgrímsdóttir vann sigur á Bikarmótinu í fitness

Öllu jafna er fitness, sem skilgreinist sem líkamshreysti, ekki til umfjöllunar á heimasíðu Vopnafjarðar. Undantekningin sannar mögulega regluna en um liðna helgi fór fram Bikarmótið í fitness í Háskólabíói. Um 90 keppendur stigu þar á svið og sjá mátti fjölmörg ný andlit meðal keppenda sem voru að stíga sín fyrstu spor á sviði. Í þeim hópi var Hanna Hallgrímsdóttir sem búið hefur um árabil á Vopnafirði. Á sínu fyrsta móti vann Hanna glæstan sigur og kemur heim sem sigurvegari en þótt sigur hefði ekki unnist felst í þátttökunni gríðarstórt skref að stíga.

20.11 2017 - Mánudagur

Veður versnandi fer

Vetur er genginn í garð, raunar er hátt í mánuður síðan að vetur tók við af sumri/hausti skv. almanakinu. Lengi vel var tíðin mild en Ísland stendur norðanlega á jarðarkringlunni og að því hlaut að koma að vetur knúði dyra. Allnokkur snjór féll í þéttbýli Vopnafjarðar um helgina og útlit að svo verði áfram. Skv. Veðurstofunni má gera ráð fyrir vetrarveðri þessa viku, raunar þannig að fólk sem hyggst leggjast í ferðalag landshluta á milli athugi aðstæður áður en lagt er í hann. Hríðarbakki er væntanlegur úr norðri og síðdegis mun veður versna til muna Norðanlands og eins á norðan­verðum Vestfjörðum.

16.11 2017 - Fimmtudagur

50 ára afmæli skóla við Lónabraut

Á vefsíðu Vopnafjarðarskóla www.vopnaskoli.is er frá því greint að er skólastarfið brotið þessa dagana, miðvikudag til og með föstudag 15.-17. nóvember með þemavinnu. Tilefnið er að 50 ár eru síðan, þ.e. árið 1967, var skólastarfið fært frá fallega barnaskólanum við Kolbeinsgötu í  glæsilega byggingu við Lónabraut. Þá byggingu hannaði og teiknaði Sigvaldi Thordarson arkitekt frá Ljósalandi. Byggingin kallast nú gamli skóli til aðgreiningar frá nýbyggingu skólans sem tekin var í notkun árið 2000.

 

15.11 2017 - Miðvikudagur

Fjárhagur sveitarfélaga vænkast

Eftir mikla skuldsetningu sveitarfélaganna fyrir og eftir hrun hefur rekstur þeirra flestra farið batnandi m.a. fyrir hækkun á útsvarstekjum og fasteignaverðs. Bætt staða hefur síðan áhrif á tekjujöfnunarframlag úr Jöfnunarsjóði, það lækkar eðlilega við batnandi rekstur. Í viðtali við Sveitarstjórnarmál 5. tbl. þessa árs segir Vífill Karlsson dósent við HA meiri ástæðu til að ætla að stjórna megi fjárhag sveitarfélaga af yfirvegun og skynsemi til framtíðar.


293 - 302 af 2187
< 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir