Fréttir

21.03 2018 - Miðvikudagur

Víkingur AK á heimleið með tæplega 2600 tonn af kolmunna

HB Grandi náði að afla allra þeirra 33.800 tonna sem félagið átti í loðnukvóta á þessu tímabili og lauk vertíðinni þann 12. mars sl. Mikil dreifing var á loðnunni og því talið vandkvæðum bundið að áætla stærð stofnsins. Um miðjan dag í dag er von á Víkingi AK til Vopnafjarðar með tæplega 2.600 tonna kolmunnaafla. Þetta er fyrsta veiðiferð skipsins á árinu á kolmunnamiðin vestur af Írlandi en þar er nú töluverður fjöldi íslenskra, færeyskra og rússneskra skipa að veiðum á alþjóðlegu hafsvæði. Frá þessu er greint á vefsíðu félagsins, www.hbgrandi.is

21.03 2018 - Miðvikudagur

Vopnfirðingar minntir á skoðanakönnun samstarfsnefndar

Vopnfirðingar fengu skoðanakönnun senda heim í liðinni viku og nú þegar skilafrestur er brátt úti þykir rétt að minna fólk á að svara könnuninni. Svo sem frá var greint í frétt hér þann 13. mars sl. vill samstarfsnefnd sveitarfélaga á Austurlandi kanna hug íbúa til sameiningar og/eða aukins samstarfs sveitarfélaga. Þarf ekki að orðlengja að lítil þátttaka bjagar niðurstöðuna og mjög lítil gerir hana vart marktæka.

 

19.03 2018 - Mánudagur

Veðurblíða á landinu

Íslendingar hafa skynjað nærveru vorsins sl. daga en veður liðinnar helgar var sérlega gott með mildum sunnanþey og sólskini. Hefur gengið mjög á snjóinn, hann með öllu horfinn hér á Vopnafirði nema einstaka snjóbingur þar sem honum hafði verið skóflað upp við gatnahreinsun. Þótt ekki sé sami hitinn á landinu í dag og var um helgina er engu að síður hlýrra í Reykjavík en mörgum borgum Evrópu og BNA, Ósló, London, New York, París, Amsterdam, Berlín og Boston svo dæmi séu tekin.

16.03 2018 - Föstudagur

Sögulegt stund á sveitarstjórnarfundi

Frá því var greint í gær að fulltrúar í ungmennaráði Vopnafjarðar myndu sitja fund sveitarstjórnar, var heimsókn þeirra fyrsta mál á dagskrá fundarins. Stundin var söguleg fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn sem ungmennaráð situr fund sveitarstjórnar en á útmánuðum síðastliðins árs var samþykkt í sveitarstjórn að ungmennaráð skyldi stofnsett. Kom ráðið saman til fyrsta fundar hinn 26. september sl. og hefur fundað þrisvar síðan að meðtöldum fundinum í gær. Og einn fund skal ráðið halda áður en vetur er úti svo sem bókað var á fundinum í gær.

15.03 2018 - Fimmtudagur

Ungmennaráð fundar með sveitarstjórn

Ungmennaráð Vopnafjarðar kom saman til fyrsta fundar þann 26. september sl. og hefur ráðið fundað 2var síðan en skv. samþykktum þess skal fundað a.m.k. tvisvar á ári auk fundar með sveitarstjórn. Hefur ungmennaráð sveitarfélagsins gert betur og komið saman til fundar þrisvar sem fyrr greinir og ungmennin hafa sýnt að þau hafa rödd sem vert er að hlýða á. Sem dæmi má nefna komu ungmennin með margskonar tillögur viðvíkjandi framtíðarskipulag íþróttasvæðisins og hönnuðir hafa tekið mið af í verkefnavinnu sinni. Í dag kl. 16 setjast fulltrúar í ungmennaráði á fund sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps og má gera ráð fyrir að verði öllum hlutaðeigandi gagnleg stund.

13.03 2018 - Þriðjudagur

Skoðanakönnun

Á fundi sveitarstjórnar þann 01. mars sl. lá til kynningar fundargerð samstarfsnefndar sveitarfélaga á Austurlandi dags. 16. febrúar sl. Fundargerðinni fylgjandi var skoðanakönnun sem samstarfsnefndin hyggst leggja fyrir íbúa sveitarfélaga á Austurlandi. Var á fundinum samhljóða samþykkt að leggja könnunina fyrir íbúa Vopnafjarðar. Í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar var öllum íbúum 18 ára og eldri send könnunin með skilafrest til 23. mars nk. og gerir sveitarstjórn(ir) sér vonir um að svörunin verði góð.

09.03 2018 - Föstudagur

Karlakór Vopnafjarðar á söngmóti á Akureyri

Karlakór Vopnafjarðar tók þátt í söngmóti á Akureyri laugardaginn 24. febrúar sl. en allt frá árinu 2005 hefur Karlakór Akureyrar Geysir haldið mót þetta undir því skemmtilega heiti „Hæ! Tröllum á meðan við tórum“. Hafa yfirleitt 3 kórar sungið með þeim en að þessu sinni voru þeir 2, annars vegar okkar kór og hins vegar Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. Vann sá kór frækinn sigur í kórakeppni Stöðvar tvö í haust. Segir á heimasíðu Karlakórs Akureyrar Geysis að nafnið, „Hæ! Tröllum!“, tengist þeirri ímynd sem þetta fyrirbærinu, karlakór, er í huga margra og má til sanns vegar færa.

08.03 2018 - Fimmtudagur

Leikhópurinn Lotta sýnir Galdrakarlinn í Oz

Leikhópurinn Lotta er mættur til Vopnafjarðar enn á ný, að þessu sinni að vetri. Á morgun, föstudaginn 09. mars kl. 17:30 hefst sýning hópsins á Galdrakarlinum í Oz í Miklagarði. Leikhópinn og söguna af galdrakarlinum má gera ráð fyrir að flestir þekki. Leikhópurinn Lotta hefur síðastliðin ellefu sumur ferðast með útileiksýningar út um allt land með Vopnafjörð sem áfangastað. Á hverju ári setur hópurinn upp nýjar sýningar, sýningar sem allar hafa slegið í gegn og eru enn spilaðar af geislaplötum á fjöldamörgum heimilum.

06.03 2018 - Þriðjudagur

Stefna Þjóðminjasafnsins í menningarminjum

Á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga er frá því greint að Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, hafi fylgt úr hlaði stefnu Þjóðminjasafnsins í menningarminjum á fundi með formanni, framkvæmdastjóra og sviðsstjórum sambandsins. Markmið safnastefnunnar er að hvetja til langtímahugsunar í safnastarfi og framsækinnar stefnumótunar. Stefnumörkun fór fram í samráði við starfsfólk á viðurkenndum söfnum og eigendur um land allt. Voru söfnin heimsótt og landshlutafundir haldnir á árunum 2015 og 2016 þar sem árangur og áskoranir í safnastarfi var rætt. Þá byggir stefnan einnig á árangursmati fyrri stefnumörkunar.

05.03 2018 - Mánudagur

Gunnar Gunnarsson nýr framkvæmdastjóri UÍA

Á heimasíðu UÍA er frá því greint að stjórn þess hafi ráðið nýjan framkvæmdastjóra til starfa en starfið var auglýst fyrir nokkru laust til umsóknar. Til starfans var ráðinn Gunnar Gunnarsson sem flestir þekkja sem Gassa. Mun Gunnar taka við af Ester Sigurástu Sigurðardóttur sem gengt hefur starfinu um skeið en er nýr resktrarstjóri Löngubúðar á Djúpavogi.


303 - 312 af 2257
< 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir