Fréttir

15.02 2018 - Fimmtudagur

Myndmál öskudagsins

Öskudagurinn leið áfram með velþóknun barna á öllum aldri en eins og ávallt hefur verið var þáttur Vopnafjarðarskóla stærstur. Byrjar dagurinn á samveru í íþróttahúsinu hvar kötturinn er sleginn úr tunnunni, tunnunum raunar þar eð þær eru tvær. Gekk það óvenju hratt fyrir sig að þessu sinni en svona er þetta stundum, í öðrum tilfellum er á tunnunum hamast ungviðið með litlum árangri lengi vel. Að samveru lokinni var haldið yfir í skóla áður en lagt var í hann, rölt um bæinn og góðgæti þegið í kjölfar söngs. Síðar um daginn var svo öskudagsskrall í félagsmiðstöðunni.

14.02 2018 - Miðvikudagur

Öskudagurinn – dagur allra barna

Dagurinn í dag er dagur allra barna á öllum aldri, öskudagurinn sjálfur og er óskandi að öll börn njóti hans til fullnustu. Sá sem þetta ritar á dásemdar minningar frá æskuárunum á Akureyri en bærinn sá hefur löngum verið höfuðvígi öskudagshátíðarhalda. Önnur bæjarfélög hafa löngu tekið upp háttu norðanmanna en ekki kom til greina að skóli væri starfræktur þennan dag nyrðra heldur var mætt í bítið til þess að gera sig kláran fyrir daginn - og snemma var rölt af stað og voru engir foreldrar til þess að aka með börnin á milli staða á þeim árum!

 

12.02 2018 - Mánudagur

Himinn og jörð

Mikið hefur gengið á í veðrahvolfinu yfir Íslandi sl. daga, vikur raunar. Hafa fréttir stóru fjölmiðlanna mótast af tíðarfarinu syðra en það sem af er nýári hefur hver lægðin af annarri herjað á landið með tilheyrandi veðurhæð takmörkuðu skyggni og ófærð. Svo virðist sem fæstir sýni fyrirhyggju þegar veður versnar með því í fyrsta lagi að kynna sér veðurspána og í annan stað að leggja fyrr til vinnu/skóla eða notast við almenningssamgöngur. Afleiðingar fyrirhyggjuleysisins er kerfinu ofviða og ferð sem öllu jafna tekur 15-20 mínútur tekur allt að 2 klukkustundir – komist fólk yfir höfuð á leiðarenda. Við búum sannarlega betur í litlu samfélagi og fögnum því sjálfsagt flest þegar fréttir berast af vandræðum í umferðinni syðra að búa einmitt á litlum stað og þykjumst jafnvel sannfærð um að flestir ráði ekkert við að keyra í (smá) snjó!

 

09.02 2018 - Föstudagur

Almenn ánægja með Mannamót

Kynningarvettvangur markaðsstofa ferðaþjónustu landsbyggðanna, Mannamót, var sett upp þann 18. janúar sl. í flugskýli Ernis á Reykjavíkurflugvelli. Samstarfsfyrirtæki markaðsstofanna eru í forgrunni vinnustofunnar og voru yfir 200 sýnendur að þessu sinni, þar af 26 frá Austurlandi og hafa aldrei verið fleiri. Á vef Austurbrúar, www.austurbru.is, er um Mannamót fjallað og segir María Hjálmarsdóttir hjá Austurbrú hafa mikinn samhug ríkt meðal Austfirðinga, samheldni þeirra hafi vakið athygli. Tilgangurinn helgar meðalið, þ.e. að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Mun það hafa vakið eftirtekt sú mikla gróska sem er að finna utan þéttbýlis suðvesturhornsins.

 

08.02 2018 - Fimmtudagur

Hjúkrunarheimilið Sundabúð - sumarafleysingar

Atvinna -  sumarafleysingar

 

Sjúkraliðar og ófaglært starfsfólk óskast til sumarafleysinga  á hjúkrunardeild Sundabúðar. Um er að ræða störf í vaktavinnu við hjúkrun aldraðra, næturvaktir í þvottahúsi og afleysingar í eldhúsi.

 

Einnig vantar starfskraft í ræstingu, vinnutími frá kl. 8 til 12.30

07.02 2018 - Miðvikudagur

Loðnukvótinn 285 þúsund tonn

Hafrannsóknarstofnun leggur til að heildarkvótinn á loðnuveríðinni verði 285 þúsund tonn. Það þýðir að 77 þúsund tonn bætast við upphafskvóta þann sem gefinn var út í haust. Í framhaldi þeirra mælinga sem gerðar voru á stærð loðnustofnsins í september og október, var úthlutað 208 þúsund tonna kvóta. Þá kom fram að ráðgjöfin yrði endurskoðuð í ljósi niðurstaðna úr mælingum síðar um veturinn 2018. Þeim mælingum lauk í liðinni viku. Í viðtali á vef HB Granda hf., www.hbgrandi.is, segir Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs félagsins að niðurstaða mælinga Hafró sé mikil vonbrigði fyrir útgerðina og þeir sannfærðir um að heimila hefði mátt meiri veiði. Er kvótinn nú 14 þúsund tonnum minni en á sl. ári.

05.02 2018 - Mánudagur

Viðauki við samning um félagsþjónustu og barnavernd

Félagsmál Vopnafjarðarhrepps heyra undir félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs og þar á sveitarfélagið einn fulltrúa, Ásu Sigurðardóttur. Hér að neðan er nánar tilgreind samsetning félagsmálanefndar. Á fundi sveitarstjórnar sl. fimmtudag var til umfjöllunar viðauki við samning um félagsþjónustu og barnavernd og samningurinn meðal fylgigagna fundargerðarinnar. Svo sem fram kemur í knöppum texta fundargerðar gerði Ása nánari grein fyrir málinu og þá einkum því verklagi sem kallað hefur verið „sænska módelið“ sem felur í sér ítarlegt samstarf við grunn- og leikskóla aðildarsveitarfélaganna. Var á fundinum samhljóða samþykkt þátttakan í innleiðingu módelsins.

02.02 2018 - Föstudagur

Ögrun í Vopnafirði – útivist og upplifun

Á fundi sveitarstjórnar í gær kynnti Bjarney Guðrún Jónsdóttir verkefni sitt Ögrun í Vopnafirði – útivist og upplifun í fjölbreyttri náttúru – fyrir sveitarstjórn. Hafði Bjarney þegið boð um að koma með kynningu sína á fundinn og bauð upp á glærusýningu sem inniheldur auk texta stórgóðar myndir Jóns Sigurðarsonar. Myndirnar hafa skýran tilgang því þátttakendum er ætlað að mynda á þeim stöðum sem tilgreindir eru. Tíðindamaður hefur fengið aðgengi að glærunum og er fréttin samantekt af því sem á þeim stendur en skemmst er frá því að segja að nefndarmenn lýstu yfir ánægju sinni með hugmyndina og vilji til að styðja svo sem kostur er.

 

01.02 2018 - Fimmtudagur

1. febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar

Dagurinn í dag er Dagur kvenfélagskonunnar. Saga kvenfélaga er samofin sögu lands og þjóðar um langt árabil og leikur ekki vafi á mikilvægi þeirra en ekki einungis er félagsskapurinn hverjum hollur heldur það starf sem innt er af hendi í þágu samfélags síns. Við undirbúning 80 ára afmælis KÍ árið 2010 þótti stjórninni við hæfi að kvenfélagskonur ættu sinn eigin dag og þótti við hæfi að dagurinn sem kvenfélagskonur ákváðu yrði 1. febrúar, stofndagur Kvenfélagasambands Íslands. Á Vopnafirði er Kvenfélagið Lindin sem stofnuð var árið 1921 og hefur látið margt gott af sér leiða í gegnum árin sem kunnugt er. Núverandi formaður félagsins er Karen Hlín Halldórsdóttir.

31.01 2018 - Miðvikudagur

Rysjótt tíð framundan

Frónbúar hafa langa reynslu af tíðum veðrabrigðum árið um kring. Nú þegar hyllir undir lok fyrsta mánaðar ársins og enn er miður vetur má gera ráð fyrir rysjóttri tíð næstu daga. Fyrir þá sem hyggjast leggja land undir fót sjálfsagt að líta á veðurkortið áður en lagt er í hann. Gert er ráð fyrir norðlægri átt í dag og éljagangi á norðanverðu landinu en bjartviðri sunnantil. Gengur í norðvestan 18-23 í nótt suðaustantil en yfirleitt 10-15 á Norðaustur- og Austurlandi og enn hægari á vestanverðu landinu. Lægir og dregur úr éljum síðdegis á morgun, og þar með kveður norðanáttin okkur í bili.

 


303 - 312 af 2239
< 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir