Fréttir

31.12 2017 - Sunnudagur

Við áramót

Árið 2017 heyrir brátt sögunni til, 364 dagar og ½ sólarhringur betur er að baki og á morgun hefst niðurtalningin á nýjan leik. Árið var merkt átökum innanlands og utan. Ríkisstjórn Bjarna Ben var knúin til að segja af sér og boðað var til kosninga 3 árum fyrr en vera skyldi. Kosið var í október og nokkrum vikum síðar hafði verið mynduð ný ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur formanns Vg. Hinn nýi forseti vor hefur haft í nógu að snúast hinn pólitískaþátt starfsins og hefur sýnt að hann veldur starfi sínu með sóma. Vopnfirðingar geta litið sáttir um öxl og sem fyrr mótast niðurstaðan af gjöfulleika hafsins. Er full ástæða að horfa björtum augum til komandi árs.

29.12 2017 - Föstudagur

Selárlaug lokað sökum veðurs

Vakin er athygli á að Selárlaug hefur verið lokað í dag sökum veðurs að viðhöfðu samráði við sundlaugarvörð. Mælist frostið 12-13°C auk kólnunar í þeirri vestanátt sem nú ríkir er einfaldlega of kalt að halda opnu. Þarf vart á það minna að laugarhúsið ræður illa við daga sem þessa þegar kuldinn nálgast -20°C.

-Fulltrúi

28.12 2017 - Fimmtudagur

Ný persónuverndarlöggjöf – sveitarfélög skipi persónuverndarfulltrúa

Austurglugginn greinir frá að sveitarfélög austfirsk sem önnur reyni nú að átta sig á áhrifum og umfangi nýrrar persónuverndarlöggjfar sem tekur gildi á Íslandi á næsta ári. Stofnanir þurfa að vera að vera í stakk búnar að bregðast skjótt við þegar einstaklingar vilja nálgast upplýsingar um sig. Ber sveitarstjórnarfólki saman um að mikið verkefni sé að ræða sem Samband íslenskra sveitarfélaga leiðir.

25.12 2017 - Mánudagur

Jól

Jól eru ein stærsta hátíð kristinna manna. Í huga þess er þetta ritar sú stærsta og kann vel að vera að æskujólin sitji svo fast í höfði hans en minningarnar eru yndislegar. Allt er breytingum undirorpið, eins er það með jólin. En af hverju höldum við jól? Hinir kristnu halda þessa hátíð í minningu fæðingar Jesú, sonar Maríu meyjar. Í kristinni trú er Jesús sonur Guðs (Drottins), Kristur (hinn smurði), Messías, sem spámennirnir sögðu fyrir að koma myndi.

24.12 2017 - Sunnudagur

Aðfangadagur jóla

24. desember það herrans ár 2017 er genginn í garð, aðfangadagur jóla. Í kvöld klukkan 18:00 verða jólin, hátíð ljóss og friðar hringd inn. Er óskandi að allir fái hennar notið. Tíðin líður og eirir engu; eftir einungis 8 daga er árið liðið og aldrei það kemur til baka. Í huga barna er mikilvægasti tíminn þó eftir, blessuð jólahátíðin. Sjálfsagt er aldrei haldið fastar í hefðirnar en einmitt á þessum tímamótum og þótt við njótum þess í hvívetna að gleðja aðra með gjöf sem gefin er af góðum hug – og þiggjum jafnvel aðra í staðinn – er það samveran, nándin, sem við setjum ofar öllu. Að njóta samvista við fjölskyldu sína á þeim forsendum sem hefðirnar hafa skapað er okkur ómetanlegt og aftur þess óskað að þess fái allir notið.

23.12 2017 - Laugardagur

Selárlaug - breyttur opnunartími á aðfangadag

Ágætu íbúar, sundlaugargestir einkum og sér í lagi, athygli er vakin á að Selárlaug er opin á aðfangadag milli kl. 12:00 - 14:00 í stað áður auglýstrar opnunar milli kl. 10:00 - 12:00.

Er verið að mæta óskum sundlaugargesta sem óskuðu eftir þessari breytingu sérstaklega og sem fyrr er reynt að mæta óskum gesta svo sem við verður komið. Gildir þetta um daga sem víkja frá fastri opnun svo sem á um jól og áramót. Vonum við að allir geti nýtt sér þennan opnunartíma hafandi að leiðarljósið að nú er það jólaskapið sem gildir.

-Fulltrúi

23.12 2017 - Laugardagur

Þorláksmessa

Í dag er Þorláksmessa, dagurinn fyrir aðfangadag jóla. Um Þorláksmessu segir: Þorláksmessa, sem er þann 23. desember, er haldin til minningar um Þorlák hinn helga Þórhallsson biskup í Skálholti. Hann lést 23. desember 1193 og var þessi messudagur tekinn upp honum til heiðurs og lögleiddur 1199. Gissur Hallsson sagði um Þorlák m.a.: „Hann var hreinlífur alla ævi, siðsamur og lastvar, ör og réttlátur, miskunnsamur og heilráður, lítillátur og stjórnsamur, mjúklyndur með sannri ást og elsku bæði við Guð og menn.“

 

22.12 2017 - Föstudagur

Helgihald um jól og áramót

Hátíð ljóss og friðar, jólahátíðin, þar sem fæðingu Krists er minnst og fagnað, er um það bil að ganga í garð. Í dag eru einungis 2 sólarhringar uns prúðbúnir Íslendingar setjast að veisluborði og fagna fæðingu frelsarans með viðeigandi hætti. Fátt ef nokkuð er betra en aftansöngur klukkustund fyrir innhringingu jóla en að neðan gefur að líta helgihald um jól og áramót á Vopnafirði.

21.12 2017 - Fimmtudagur

Jólaball og litlu jól skólanna

Í gær var mikið um dýrðir í skólum Vopnafjarðar beggja vegna Lónabrautar, komið var að jólaballi Brekkubæjar og litlu jólum Vopnafjarðarskóla. Á stundum sem þessum mæta allir í sínu fínasta pússi, niðurtalning fyrir blessuð jólin er hafin fyrir alvöru. Í hvorri byggingu hafði verið komið fyrir myndarlegu jólatré sem með ljósum sínum setja mikinn svip á umhverfið sitt.

19.12 2017 - Þriðjudagur

Jólahátíð skólanna

Á morgun er 20. desember og þann dag hyggjast skólarnir á Vopnafirði, leikskólinn Brekkubær og Vopnafjarðarskóli, halda árlega jólagleði sína; jólaball í leikskólanum og litlu jólin í grunnskólanum. Hefjast viðburðirnir báðir kl. 09:30 og leikur ekki vafi á að mikið verður um dýrðir og jólaandinn alls ráðandi.


313 - 322 af 2226
< 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir