Fréttir

25.01 2018 - Fimmtudagur

Vopnafjörður í brennidepli – viðtal við sveitarstjóra

Ólafur Áki sveitarstjóri er í viðtali í 1. tbl. ársins vikublaðsins Austra og þar sem það er áhugavert fer vel á að birta kafla úr því hér. Segir þar að í fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2018 sé gert ráð fyrir heildartekjum upp á liðlega milljarð króna og rekstrarniðurstaðan jákvæð um tæpar 134 milljónir. Til framkvæmda verði varið 105 m.kr. eða um 78% af áætluðum rekstrarfagangi. Vegur þar þyngst bygging vallarhúss á íþróttasvæðinu upp á 50 m.kr. en þess er vænst að úr Mannvirkjasjóði KSÍ komi samtals 15 m.kr. til byggingarinnar. Verið er að vinna deiliskipulag fyrir svæðið og þar er m.a. gert ráð fyrir fjölnota íþróttahúsi og útivistarsvæði.

23.01 2018 - Þriðjudagur

690 VOPNAFJÖRÐUR

Á morgun verður heimildarmyndin 690 VOPNAFJÖRÐUR frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni FIPA - Festival International de Programmes Audiovisuels – og keppir í flokki alþjóðlegra heimildarmynda. Svo sem frá var greint hér á heimasíðu Vopnafjarðar 20. október sl. berast eigi færri en 1200 umsóknir til stjórnar hátíðarinnar ár hvert frá liðlega 70 löndum en innan við 10% hljóta náð fyrir augum dómnefndar. Í þeim hópi er hugverk Körnu, Sebastians og Arnaldar. Á því leikur ekki vafi að í því felst mikil upphefð að myndin skuli hafa náð inn á FIPA og er það trú tíðindamanns að þessi ljóðræna samfélagsmynd muni vekja athygli yrta hafandi hlotið lof gagnrýnenda.

22.01 2018 - Mánudagur

Fagurt veður á Vopnafirði

Vopnfirðingar nutu hins fegursta veðurs í gær, vindstilla í heiðríkju og frosti sem ku hafa verið nokkrum gráðum undir -10 - sannakallaður kyrrðarkuldi. Birtan er smám saman að vinna á, munar um klukkustund til beggja enda frá stysta degi liðins árs 21. desember til dagsins í dag. Enn eru 2 mánuðir til vorjafndægurs í kringum 20. mars en þangað til mun daginn lengja jöfnum skrefum uns frá deginum í dag til 22. mars lengst um 5.5 klukkustundur. Gerpir er austasti staður Íslands og þar kemur sólin fyrst upp.

 

19.01 2018 - Föstudagur

Vetrarveður framundan – þorri heilsar

Í spákortum Veðurstofu Íslands fyrir næstu viku er vetrarveðurs að vænta og þarf ekki að koma á óvart verandi mitt inn í janúar. Í dag er samkvæmt forna tímatalinu bóndadagur sem markar byrjun þorra en hann er merkilegur fyrir þær sakir að vera sá mánuður sem enn á sér stað í hugum okkar þökk sé einkum þorrablótshefð þjóðarinnar. Gera má ráð fyrir að kaldir vindar hafi oft blásið á þessum árstíma á Fróni og samkvæmt Veðurstofunni má jafnvel gera ráð fyrir leiðindaveðri í næstu viku en er aftur á móti ágætt í dag og á morgun.

16.01 2018 - Þriðjudagur

Þorrablót Vopnfirðinga

Í fornu íslensku tímatali var þorri fjórði mánuður vetrar. Hann hefst á föstudegi í 13. viku vetrar eða á tímabilinu 19.–25. janúar. Næstkomandi föstudag 19. jarnúar er bóndadagur svo sem fyrsti í þorra er gjarnan nefndur og þýðir einungis eitt, daginn eftir er þorrablót Vopnfirðinga. Má gera ráð fyrir að þétt verði bekkurinn skipaður í félagsheimilinu en ef það er einhver viðburður sem fólk almennt bíður eftir er það þorrablótið. Í dag kl. 16:00 opnar miðasalan í anddyri Miklagarðs og leikur ekki vafi á að þá verði þegar mættur álitlegur hópur fólks til miðakaupa en þótt mætt sé snemma verður enginn greinarmunur gerður á betri og almennum sætum! 

12.01 2018 - Föstudagur

Lækkun kosningaaldurs í 16 ár

Lagt er til að kosningaaldur til sveitarstjórna lækki úr 18 í 16 ár í frumvarpi sem er nú í umsagnarferli á Alþingi. Að frumvarpinu standa 15 þingmenn úr öllum þingflokkum. Á fundi sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps var málefnið til umræðu undir almenn mál, Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórnar, Þingskjal 40. Er skemmst frá því að segja að frumvarpið hlaut jákvæða efnismeðferð í sveitarstjórn.

10.01 2018 - Miðvikudagur

Fjárhagsáætlun sveitarfélagins til kynningar

Sveitarstjóri boðaði til almenns fundar um fjáhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2018 í Kaupvangskaffi í gærkvöldi. Almennt virðist fólk ekki sýna málinu mikinn áhuga, allténd ber mætingin þess merki. Þeir sem á hinn bóginn mæta hafa þeim mun meiri áhuga og taka virkan þátt í samtalinu um fjármál sveitarfélagsins og framtíðarhugmyndir. Fylgdi sveitarstjóri málinu úr hlaði með slæðusýningu hvar helstu lykiltölur fjárhagsáætlunarinnar voru tilteknar ásamt framkvæmdaáætlun ársins.

 

09.01 2018 - Þriðjudagur

Bustarfell auglýsir starf framkvæmdastjóra

Stjórn Minjasafnsins á Bustarfelli í Vopnafirði auglýsir starf safnstjóra laust til umsóknar. Starfshlutfall 50%.

 

Safnstjóri starfar samkvæmt lögum um viðurkennd söfn. Æskilegt að viðkomandi hafi menntun eða reynslu á sviði safnamála.

08.01 2018 - Mánudagur

Jólin kvödd með eftirminnilegum hætti

Jólin eru að baki. Blessað jólaskrautið fór niður á velflestum heimilum landsins um helgina. Þegar skrautið hverfur finnum með áþreifanlegum hætti fyrir breytingunni en skjótt verður allt sem fyrr í hringiðu hvunndagsins. Þrettándinn var á laugardag og um langt árabil hefur sveitarfélagið boðið íbúum upp á bálköst og flugeldasýningu í tengslum við hann undir handarjarðri Kiwanis. Svo var sannarlega nú, sýningin hin glæsilegasta í tilefni 50 ára afmælis Kiwanisklúbbsins Öskju og hátíðarkaffið maður minn, það var stórglæsilegt!

08.01 2018 - Mánudagur

Fundarboð - kynning á fjárhagsáætlun 2018

Athygli er vakin á að sveitarstjóri hyggst kynna fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2018 í Kaupvangskaffi í kvöld frá og með kl. 20:00. Verður farið yfir helstu tölur, tekjur og gjöld - og er fundarmönnum frjálst að spyrja að kynningu lokinni. Eru allir velkomnir. 


313 - 322 af 2238
< 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir