Fréttir

27.11 2018 - Þriðjudagur

Deiliskipulag hafnarsvæðis til kynnnigar

Í dag milli kl. 15:00 – 18:00 er opið hús í félagsheimilinu Miklagarði þegar til kynningar verður tillaga að deiliskipulagi hafnarsvæðis Vopnafjarðar. Býðst íbúum að kynna sér drög að að nýju deiliskipulag fyrir miðhluta hafnarsvæðisins ásamt umhverfisskýrslu, skv. ákv. gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð. Skipulagstillagan er kynnt á vinnslustigi í samræmi við 4.mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

26.11 2018 - Mánudagur

Blítt veður - breytinga að vænta

Veðurblíða hefur ríkt á Íslandi sl. daga en sú hæð sem tók sér bólfestu yfir landinu miðju hefur stýrt veðurfarinu. Það gerist líklega ekki oft að allt landið njóti samskonar veðurs dögum saman. Hin góða tíð með vindstillu og heiðríkju sólarhringum saman er kannski ekki fordæmalaus en heyrir vafalítið til undantekninga í landi þar sem vinds gætir flesta daga. Logn um nokkurra daga skeið er öllum kærkomið. Samkvæmt Veðurstofunni er breytinga að vænta, ofankomu í formi regns er spáð á miðvikudag en snjókomu fimmtu- og föstudag.

 

23.11 2018 - Föstudagur

Aðventurölti vel tekið

Frá því var greint í gær að nokkrir þjónustuaðilar í Vopnafjarðarbæ hygðust bjóða til kvöldopnunar og nefndu viðburðinn aðventurölt. Sjálfsagt hafa frumkvæðisaðilar gert sér vonir um að vel myndi viðra til rölts en að það yrði sú dásemd sem Vopnfirðingum bauðst í gærkvöldi tók vonum þeirra líklega fram. Nú er eigi gott að segja hvers frumkvöðlar væntu en svörun íbúa hlýtur að hafa glatt hluaðeigendur, þátttaka íbúa miðað við hina frægu höfðatölu var nefnilega stórgóð. Í litla bænum skapaðist sérlega ánægjuleg stemning sem hlýtur að vera þjónustuaðilunum mikill hvati. Íbúum ekki síður.

22.11 2018 - Fimmtudagur

Aðventurölt á Vopnafirði

Nokkrir aðilar í Vopnafjarðarbæ standa að nýbreytni í aðdraganda jóla, bjóða þeir til kvöldopnunar undir heitinu aðventurölt á Vopnafirði í kvöld milli kl. 19:00 – 22:00. Í tilkynningu hér að lútandi segir: Eigum saman skemmtilegt kvöld á aðventunni, njótum stundarinnar, röltum um fallega bæinn okkar, hittum fólk, ýmis tilboð í gangi ásamt léttum veitingum, kaupum jólagjafir … og: Gleði og aðventuskemmtun eins og hæun gerist best.

20.11 2018 - Þriðjudagur

Alþjóðlegur dagur barna

Í dag, 20. nóvember, er alþjóðlegur dagur barna haldinn hátíðlegur um allan heim. Dagurinn er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Yfirskrift átaks UNICEF á Íslandi og okkar í ungmennaráðinu á alþjóðlegum degi barna er #börnfáorðið. UNICEF á Íslandi hefur sent hagnýt ráð til ráðamann í sveitarfélögum til minna á að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir öllum börnum um allan heim mikilvæg réttindi. Er markmið dagsins að gefa börnum orðið og skapa vettvang fyrir okkur - börn og ungmenni - til að tjá skoðanir okkar opinberlega og í okkar nærumhverfi.

19.11 2018 - Mánudagur

Þrjár Rauða krossdeildir sameinast

Austurfrétt greinir frá því á vefsíðu sinni í dag að 3 Rauða krossdeildir á Austurlandi muni sameinast innan tíðar. Um er að ræða Vopnafjarðardeild RKÍ, Héraðs- og Borgarfjarðardeild og ber hin nýja deild nafnið Rauði krossinn í Múlasýslu. Munu þær tvær síðarnefndu þegar vera sameinðar í eina. Sölvi Kristinn formaður deildarinnar á Vopnafirði segir sameininguna efla báðar deildir.

16.11 2018 - Föstudagur

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Sunnudaginn 18. nóvember nk. verður þeirra minnst sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi. Efnt verður til athafnar í sjöunda sinn í Reykjavík og er hliðstæð athöfn víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Athygli er vakin á að í Vopnafjarðarkirkju er messa kl. 20:00 nk. sunnudag og mun sr. Þuríður Björg minnast fórnarlamba umferðarslysa í predikun sinni.

 

15.11 2018 - Fimmtudagur

Að endingu mun stytta upp

Uppstyttur hafa fáar verið í nóvembermánuði en útlit fyrir veðrabrigði á morgun en því fer fjarri að tíðin muni minna á vetur því gera má ráð fyrir tveggja stiga hitatölu á laugardag og hlýindi ríkja næstu daga á eftir. Í föstu formi hefði ofankoma mánaðarins þýtt snjóskafla svo fráleitt mikla að leita þyrfti til sögukunnugra þegar vetur var vetur með snjó frá hausti fram á vor. Tíðindamaður rölti með myndavélina sl. sunnudag og fylgir afraksturinn fréttinni.

15.11 2018 - Fimmtudagur

Selárlaug lokuð í dag

Athygli sundlaugargesta er vakin á að laugin er lokuð í dag vegna bilunar í vatnsdælu. Unnið er að viðgerð og verður opnun tilkynnt um leið og lag kemst á. Afleiðing bilunar er köld laug og pottur sem öllu jafna skal vera heitur.

 

Beðist er velvirðingar á seinkominni tilkynningu en ekki lá fyrir um ástand vatns fyrr en komið var að opnun kl. 14 í dag.

 

-Fulltrúi

12.11 2018 - Mánudagur

Ekki vetur í kortunum

Þegar líður að miðjum nóvember ríkir milt veður á landinu og ekkert í kortunum þessa vikuna að það muni breytast. Þvert á móti er því spáð að hitinn nái allt að 13°C um næstu helgi og því æði fátt sem minnir á að tíðin er vetur og hver dagur styttri en sá fyrri. Einhver væri nú snjórinn hefði úrkoma sl. daga verið í föstu formi en til að mynda regnið og rokið sem hér var sl. laugardag heyrir frekar til undantekninga en reglu. Samkvæmt Veðurstofunni er óþarft að hafa áhyggjur af ófærð þessa vikuna hið minnsta, á meðan slíta nagladekkin yfirborði vega og gatna.


83 - 92 af 2155
1 2 3 4 5 6 7 8 9 10  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir