Fréttir

20.12 2018 - Fimmtudagur

Opnun Selárlaugar og íþróttahúss um jól og áramót

Innan fárra daga fagna jarðarbúar flestir jólahátíð. Dimmur vetur er enn myrkari fyrir þær sakir að snjór er enginn, þá koma ljósaskreytingar húsa sér vel. Að vanda taka opnunartímar Selárlaugar og íþróttahúss mið af hátíð ljóss og friðar. Er opnun íþróttamannvirkjanna að finna hér á síðu Vopnafjarðar en þá daga sem ekki er opið má nota til göngu í náttúrunni ef hreyfiþörfin gerir vart við sig um jól og áramót. Athugið að í dag, fimmtudaginn 20. desember, lokar íþróttahúsið kl. 19:30.

18.12 2018 - Þriðjudagur

Fjárhagsáætlun 2019 afgreidd í sveitarstjórn

Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps hefur afgreitt fjárhagsáætlun næsta árs. Á síðasta fundi sveitarstjórnar á árinu 2018 sem haldinn var þann 13. desember sl. fór fram síðari umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2019-2022. Allar upplýsingar um áætlunina, fyrir 2019 og 3ja ára áætlunina 2019-2022, er að finna í fylgigögnum fundargerðar sveitarstjórnar hér á síðunni. Samkvæmt samþykktri áætlun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps er þess vænst að rekstrarniðurstaðan verði jákvæð tæpar 79 milljónir króna. Áætlaðar fjárfestingar á árinu 2019 eru 134,5 milljónir króna og er reiknað með lántöku til að mæta fjárfestingum ársins.

17.12 2018 - Mánudagur

Aðventukvöld í Hofskirkju 18. desember

Í aðdraganda jóla hefur íbúum Vopnafjarðar staðið til boða að sækja aðventukvöld í Hofskirkju. Þessi kvöld hefur kirkjukórinn fengið frí og sönginn annast karlakórinn undir stjórn sama kórstjóra, Stephen Yates. Annað kvöld, þriðjudaginn 18. desember nk., er komið að viðburðinum og hefst hann kl. 20.00. Hann lætur ekki mikið yfir sér en það hefur sýnt sig að þeir sem viðburðinn sækja þykir tímanum vel varið, sungnir eru fallegir jólasöngvar, ávarpið og athöfnin öll í anda hátíðar ljóss og friðar.

14.12 2018 - Föstudagur

Áfangastaðaáætlun Austurlands komin út

Á vef Austurbrúar er frá því greint að fyrr í mánuðinum hafi komið út áfangastaðaáætlun fyrir Austurland sem unnin er í samstarfi við Ferðamálastofu og markaðsstofur landshlutanna. Áfangastaðaáætlunin er byggð á vinnu síðustu fjögurra ára í verkefninu Áfangastaðurinn Austurland sem Austurbrú hefur haft umsjón með. Er áætluninni ætlað að efla ferðaþjónustuna í fjórðungnum en sem kunnugt er njóta sveitarfélögin ólíkra kosta í þeim efnum.

12.12 2018 - Miðvikudagur

Aðventuhátíð í Vopnafjarðarkirkju

Aðventuhátíð var haldin í Vopnafjarðarkirkju síðastliðinn sunnudag, annan sunnudag í aðventu. Var allvel mætt og munar eflaust nokkru að margir koma að dagskrá aðventuhátíðar en breytir ekki að stund sem þessi er einkar hátíðleg. Það er alltaf ánægjulegt að njóta samvista við börn og unglinga, framlag þeirra var afgerandi í athöfninni. Þannig söng barnakórinn jólalög, hljómaði söngur þeirra fagurlega og nemendur úr tónlistarskólanum léku á hljóðfæri undir stjórn Stephens. Stýrði Stephen samspili þeirra af stakri snilld. Jólasaga sr. Þuríðar er varðaði undirbúning jólanna var ágætis áminning til okkar í neyslusamfélagi samtímans.

10.12 2018 - Mánudagur

Bókakynning, ánægjuleg kvöldstund

Rithöfundalestin átti viðkomu á Vopnafirði að kvöldi laugardagsins áttunda sl. svo greint var frá fyrir helgi að myndi verða. Úr lestinni stigu rithöfundarnir Stefán Bogi Sveinsson, Kristborg Bóel Steindórsdóttir, Benný Sif Ísleifsdóttir, Gerður Kristný og Einar Kárason. Það var nokkur hópur sem kaus að halda til móts við aðkomufólk og hlýða á það sem það hafði að segja og ekki bar á öðru en fólk hafi átt ánægjulega kvöldstund í minni sal Miklagarðs. 

07.12 2018 - Föstudagur

Rithöfundalest(ur) á Vopnafirði laugardaginn 08. desember

Árviss rithöfundalest fer um Austurland dagana 06. - 08. desember. Er síðasta viðkoma lestarinnar á Vopnafirði á morgun, laugardaginn áttunda í félagsheimilinu Miklagarði kl. 20:30. Um er að ræða samstarf Skriðuklausturs, Skaftfells, Ungm.fél. Egils Rauða og menningarmálanefndar Vopnafjarðar. Hefur samstarfið verið við lýði um árabil og farsælt skilað á Austurland mörgum af bestu rithöfundum þjóðarinnar. Á ferð að þessu sinni verða fimm höfundar með nýjustu verk sín: Einar Kárason með Stormfugla, Gerður Kristný með ljóðabókina Sálumessu, Benný Sif með Grímu og Jólasveinarannsóknina, Kristborg Bóel með 261 dagur, Stefán Bogi Sveinsson með ljóðabókina Ópus og Steinunn Ásmundsdóttir, með Manneskjusögu og ljóðabókina Áratök tímans.

05.12 2018 - Miðvikudagur

Fyrsti í aðventu

Síðastliðinn sunndag var fyrsti sunnudagur í aðventu sem er staðfesting þess að innan 4ra sunnudaga eru komin jól. Þess er minnst um land allt og um heim allan raunar að við höfum sett miðið á hátíð ljóss og friðar. Aðventa kemur úr latínu, Adventus - „koman“ eða „sá sem kemur“. Er aðventan í Kristni fjórir síðustu sunnudagarnir fyrir jóladag. Hefð er komin á að tendrað er á ljósum jólatrésins við Kaupvang að þessu tilefni en fyrr um daginn var messa í Vopnafjarðarkirkju og opið hús á Hótel Tanga í framhaldi af henni.

03.12 2018 - Mánudagur

Fullveldishátíð Vopnfirðinga – 100 ára fullveldi fagnað

Þann 1. desember sl. fagnaði íslensk þjóð að liðin eru 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918. Líklega má staðhæfa að það hafi verið merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttunni sem þá hafði staðið í nær eina öld. Árið sem brátt er að baki ber einkunnarorðin Fögnum saman 100 ára fullveldi! Skipaði Alþingi afmælisnefnd sem m.a. var falið að hvetja skóla til þess að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918. Vopnfirðingar minntust tímamótanna með glæsilegri dagskrá í Vopnafjarðarskóla.

30.11 2018 - Föstudagur

Messa og jólatréð við Kaupvang

Á sunnudag næstkomandi er fyrsti sunnudagur í aðventu og samkvæmt hefðinni er kveikt á ljósum jólatrésins við Kaupvang. Við höfum reynslu af alls kyns veðri en samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar eru líkur á að veðrið verði skaplegt eða NV 4 m/sek. og lítilsháttar snjókoma. Myndarlegt tréð er gjöf HB Granda hf. til Vopnfirðinga og kemur úr landsins stærsta skógi, Hallormsstað.


93 - 102 af 2179
1 2 3 4 5 6 7 8 9 10  > 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir