Fundargerð atvinnu- og ferðamálanefndar 13. ágúst 2014

26.08 2014 - Þriðjudagur

Fundargerð Atvinnu- og ferðamálanefndar Vopnafjarðar


Fundur í Miklagarði, miðvikudaginn 13. ágúst kl. 10:00


Mættir: Ólafur Ármannsson, Steinunn Aðalsteinsdóttir, Örn Björnsson, Sigríður Bragadóttir, Ólafur Valgeirsson, Eyjólfur Sigurðsson, oddviti og Þorsteinn Steinsson fráfarandi sveitarstjóri.


Dagskrá:


1)     Lagt fram kjörbréf nefndarinnar frá 11. júní sl.
2)    Nefndin skiptir með sér verkum.
3)    Drög að samþykktum fyrir atvinnu- og ferðamálanefnd.
4)    Önnur mál.

1.    Oddviti setti fund og bauð nefndarmenn velkomna til starfa. Hann gerði það að tillögu sinni að Ólafur Ármannsson yrði formaður nefndarinnar og var hann kosinn með öllum greiddum atkvæðum. Að því loknu tók nýkjörin formaður við fundarstjórn og gaf fráfarandi sveitarstjóra orðið. Þorsteinn ræddi um hlutverk nefndarinnar og óskaði nefndarfólki velfarnaðar í mikilvægum störfum.

2.    Þá var tekið fyrir annað mál á dagskrá, verkaskipting innan nefndarinnar. Var þar fyrst til að taka að velja varaformann. Formaður taldi nauðsyn bera til að í það embætti yrði kjörin kona og stakk upp á Steinunni Aðalsteinsdóttur og var hún kjörin með öllum greiddum atkvæðum. Þá þurfti að nefna til ritara og beindust sjónir fundarmanna að Ólafi Valgeirssyni sem sat og punktaði hjá sér hvort sem var. Var hann kosinn ritari með öllum greiddum atkvæðum. Að þessu loknu yfirgáfu Eyjólfur og Þorsteinn fundinn.

3.    Þriðja mál á dagskrá var að fjalla um drög að samþykktum fyrir nefndina. (Drögin eru hér fyrir aftan sem fylgiskjal).
Voru drögin rædd lið fyrir lið og það sem stakk í augu við fljóta yfirferð fært til betri vegar en drögin í heild bíða nákvæmari rýningar áður en unnt verður að senda þær til sveitarstjórnar til afgreiðslu. Þá var rætt um þau atriði sem upp komu í umræðunni um hvern lið. Í annarri grein þarf að breyta texta; fækka varamönnum úr fimm í þrjá. Varðandi staflið B í þriðju grein lýsti formaður áhuga á að halda sem fyrst almennan fund um atvinnumál á Vopnafirði, kanna viðhorf íbúanna til þessara mála og hvert hugurinn stefndi. Til lítils væri að Atvinnumálanefnd væri að baksa í einhverju sem enginn áhugi væri fyrir auk þess sem vænta mætti góðra hugmynda frá grasrótinni. Slíkur fundur gæti komið að góðu gagni við stefnumótun í atvinnumálum sem er eitt af hlutverkum nefndarinnar samkvæmt staflið C. Í staflið D þarf að færa orðalag til nútímahorfs og tala um Austurbrú í því samhengi sem þar er á ferð. Stafliðir E og F bera vitni um háleit markmið og þar er drepið á þörfum málum en fundarmenn lýstu áhyggjum sínum yfir öfugþróun þar sem til dæmis opinber störf hverfa úr byggðarlaginu. Þar er reyndar smáglæta þegar ein staða lögreglumanns bættist við þá sem fyrir var. Nefndarmenn voru sammála um nauðsyn þess að skjóta fleiri og fjölbreyttari stoðum undir atvinnulíf byggðarlagsins. Hvað staflið G varðar voru nokkuð skiptar skoðanir en menn þó sammála um jákvætt gildi þess að fá viðurkenningu; klapp á bakið. Í staflið I þarf að breyta orðalagi og tala um „eflingu ferðaþjónustu“ og „kynningu á Vopnafjarðarhreppi sem áfangastað“. Í framhaldi af umfjöllun um stafliði I og J spannst nokkur umræða það helsta sem fyrir lægi hvað varðar móttöku ferðamanna og voru nefndarmenn sammála um að brýna nauðsyn bæri til að gera bragarbætur á tjaldstæði bæjarins. Þær úrbætur þyrfti að fara í sem fyrst svo bætt aðstaða kæmi til nota næsta sumar.

4.    Önnur mál. Formaður ræddi nauðsyn þess að nefndin fundaði reglulega og voru nefndarmenn sammála um það. Um fundartíma varð niðurstaðan að prófa að hafa fundi kl. 12 á hádegi; verður endurskoðað ef kemur í ljós að hentar ekki.
Spannst umræða um atvinnumál almennt og nauðsyn þess að taka til hendi við að framfylgja þeim þörfu markmiðum sem koma fram í drögum að samþykktum nefndarinnar, svo sem í staflið A í þriðju grein og ekki síður B og C.
Fram komu áhyggjur nefndarmanna vegna ákveðinnar stöðnunar sem ríkti í atvinnumálum byggðarlagsins, ástand sem drægi úr möguleikum til fólksfjölgunar. Lítur nefndin svo á að það sé hennar brýnasta verkefni að leita leiða til að „kveikja eld“ ef það mætti verða til að koma hlutunum á hreyfingu.
Nefndarmenn ákváðu að kalla nýráðinn sveitarstjóra til fundar með nefndinni við fyrstu hentugleika eftir að hann tekur til starfa.

Fleira ekki og fundi slitið kl. 11:40

Ólafur Valgeirsson, ritari.


Vopnafjarðarhreppur


Atvinnumál
Samþykkt fyrir atvinnu- og ferðamálanefnd
1. grein

Atvinnu- og ferðamálanefnd er tengiliður sveitarstjórnar og atvinnulífs.  Atvinnumálanefnd fjallar um atvinnu- og ferðamál á Vopnafirði í umboði sveitarstjórnar að svo miklu leyti sem sveitarstjórn lætur þau til sín taka og eftir því sem kveðið er á um í samþykktum þessum.

2. grein

Atvinnu- og ferðamálanefnd er skipuð fimm fulltrúum og fimm til vara, kosnum af sveitarstjórn.  Nefndin skiptir sjálf með sér verkum.

3. grein

Helstu verkefni atvinnu- og ferðamálanefndar eru:

A.    Að stuðla að því að aðstæður til reksturs fyrirtækja á Vopnafirði séu eins og best gerist á hverjum tíma.

B.    Að hafa yfirsýn yfir atvinnulíf á Vopnafirði, fylgjast með þróun, stöðu og horfum í atvinnumálum sveitarfélagsins og taka þátt í umræðu um atvinnumál að hálfu þess.

C.    Að greina leiðir til að efla atvinnulíf á Vopnafirði og auka samkeppnishæfni þess.  Í þessu skyni hefur atvinnumálanefnd á hendi mótun stefnu í atvinnumálum fyrir sveitarfélagið og forgangsröðun þeirra aðgerða sem nefndin telur brýnust á hverjum tíma.  Nefndin hefur umsjón með framkvæmd stefnu og verkefnum stefnumótunar í atvinnumálum, svo sem Vaxtarsamningur Austurlands o. fl.

D.    Nefndin hefur hlutverki að gegna varðandi mótun stuðningsumhverfis atvinnulífs á Vopnafirði.  Í þessu skyni hefur nefndin virkt samstarf við Þróunarfélag Austurlands, aðra stuðningsaðila atvinnulífsins, svo og mennta- og rannsóknarstofnanir.

E.    Að stuðla að samstarfi fyrirtækja á Vopnafirði og samvinnu atvinnulífs og opinberra aðila með virkum samskiptum og upplýsingamiðlun.  Samráðsfundir með fulltrúum atvinnulífsins og samstarf um árlegt endurmat stefnu í atvinnumálum miða einnig að þessu marki.

F.    Stuðla að nýsköpun og aukinni fjölbreytni í atvinnulífi sveitarfélagsins.

G.    Að hvetja fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri, t. d. með veitingu viðurkenningar, sem nefndin metur hverju sinni.

H.    Önnur þau verkefni sem nefndin telur að efli atvinnulíf á Vopnafirði.

I.    Nefndin vinnur að eflingu ferðamannaþjónustu og annast kynningu á Vopnafjarðarhreppi sem ferðamannastað.

J.    Leitar samráðs við aðila innan sveitarfélagsins í ferðamálum og utan þess.

4. grein

Sérstakur starfsmaður ráðinn af sveitarstjórn vinnur með atvinnumálanefnd og heldur utan um fundagerðir og ákvarðanir nefndarinnar.  Að öðru leyti kunna að vera ráðnir starfsmenn og/eða verktakar eftir því sem þörf er á skv. ákvörðun sveitarstjórnar.


Samþykkt í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 2014.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir