Fundargerð atvinnu- og ferðamálanefndar 18. nóvember 2014

01.12 2014 - Mánudagur

Fundargerð Atvinnu- og ferðamálanefndar Vopnafjarðar


Fundur á skrifstofu sveitarstjóra, þriðjudaginn 18.11. 2014 kl. 12.00


Mættir: Ólafur Ármannsson, Steinunn Aðalsteinsdóttir, Örn Björnsson, Sigríður Bragadóttir, Ólafur Valgeirsson, Eyjólfur Sigurðsson, oddviti og Ólafur Áki Ragnarsson sveitarstjóri.


Dagskrá:
1)    Drög að samþykktum fyrir atvinnu- og ferðamálanefnd
2)    Fundur um atvinnumál með íbúum sveitarfélagsins
3)    Bréf frá ferðamálasamtökum Vopnafjarðar
4)    Byggðakvóti, „kynning á stöðu mála“
5)    Önnur mál.

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Að því loknu var gengið til dagskrár.
1.    Fyrsta mál á dagskrá var umræða um starfsreglur nefndarinnar en gerðar voru ýmsar smálagfæringar á þeim eins og fram kom á fundi nefndarinnar 13.8. sl. Við lúsarleit fannst eitt atriði sem þarf breytinga við en í D lið er talaðu um „Þróunarfélag Austurlands“ en þarf að breyta í „Austurbrú“ til samræmis við núverandi fyrirkomulag. Var það samdóma álit að reglurnar væru, að þessum breytingum orðnum í ágætu horfi og voru þær samþykktar.

2.    og
3.    Formaður óskaði eftir að taka dagskrárliði númer 2 og 3 til umræðu saman þar sem málin eru náskyld. Fundurinn heimilaði það og reifaði formaður málið. Ætlun nefndarinnar hefur verið að halda íbúafund um atvinnumál og erindi Ferðamálasamtakanna snérist um að fá Hansínu Einarsdóttur til að halda erindi um stöðu ferðamála í Vopnafirði. Telur stjórn Ferðamálasamtakanna að slíkt gæti vakið mönnum eldmóð og kveikt hugmyndir. Nefndarmenn ræddu þetta mál nokkuð ítarlega frá ýmsum sjónarhornum og varð niðurstaðan sú að athuga fyrst kosti þess að nota þekkingu og reynslu starfsfólks Austurbrúar til að flota hugmyndum um nýbreytni í atvinnumálum. Var í því sambandi nefndur ágætur árangur með slík verkefni á Breiðdalsvík auk þess sem þetta mætti gera án þess að til komi kostnaður þar sem sveitarfélagið á rétt á ákveðinni þjónustu frá stofnuninni. Var sveitarstjóra falið að leita til Austurbrúar með ákveðnar hugmyndir og óska eftir tillögum um útfærslu þeirra. Niðurstöður verði síðan ræddar í nefndinni og ákvörðun tekin um fyrirkomulag í framhaldinu. Nefndin telur að vel fari á að tímasetja fyrsta fund um þessi mál 15. janúar.

4.     Formaður nefndarinnar gerði grein fyrir stöðu mála varðandi byggðakvóta. Fram kom að ekki væri búið að semja reglur um útdeilingu byggðakvótans. Slíkar reglur þurfa staðfestingu sjávarútvegsráðuneytis og hefur sveitarstjórn fengið frest til að skila þeim en skilafrestur rann út 1. nóvember. Þá kynnti formaður tillögur 10 smábátasjómanna á Vopnafirði um með hvaða hætti skuli staðið að skiptingu byggðakvóta til einstakra fiskiskipa fiskveiðiárið 2014-2015. Urðu miklar umræður um úthlutun byggðakvótans og vænlegar leiðir til þess. Vöknuðu fjölmargar spurningar um þessi mál. Sumu var hægt að svara en annað bíður fundar með Hinrik Greipssyni sem verður á morgun, 19. nóvember. Þar er á ferð helsti sérfræðingur ráðuneytisins um þessi mál. Í framhaldinu verður unnið frekar með málið og vonir standa til að unnt verði að afgreiða það innan skamms.

5.    Önnur mál. Borist hefur erindi frá Icelandic quality seafood ehf. þar sem lýst er hugmyndum fyrirtækisins um þau tækifæri sem felast kunni í vinnslu sjávarafurða á Vopnafirði. Fyrirtækið telur vænlega horfa hvað þetta varðar að uppfylltum fimm skilyrðum sem listuð eru upp í bréfinu og óskar eftir viðbrögðum sveitarstjórnar og atvinnumálanefndar. Nefndin er jákvæð gagnvart öllum hugmyndum um uppbygginu atvinnutækifæra í byggðarlaginu. Sveitarstjóra var falið að svara erindinu fyrir hönd nefndarinnar.


Fleira ekki og fundi slitið kl. 13:40

Ólafur Valgeirsson, ritari.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir