Fundargerð atvinnu- og ferðamálanefndar 12. desember 2014

05.01 2015 - Mánudagur

Fundargerð Atvinnu- og ferðamálanefndar Vopnafjarðar
Fundur á skrifstofu sveitarstjóra, föstudaginn 12.12. 2014 kl. 8.30


Mættir: Ólafur Ármannsson, Steinunn Aðalsteinsdóttir, Sigríður Bragadóttir, Ólafur Valgeirsson, Eyjólfur Sigurðsson, oddviti og Ólafur Áki Ragnarsson sveitarstjóri. Þá sat fundinn sveitarstjórnamaðurinn Stefán Grímur Rafnsson.


Dagskrá:
1)    Staðan vegna úthlutunar á byggðakvóta fiskveiðiárið 2014/2015
2)    Önnur mál.

Formaður setti fund kl. 8.38 og bauð fundarmenn velkomna. Að því loknu var gengið til dagskrár.
1.    Formaður gerði grein fyrir stöðunni. Að hans mati og í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja er fullreynt að ekki muni takast að koma á laggirnar í tæka tíð fiskvinnslu á Vopnafirði sem gæti staðið undir nafni. Þetta er staðan þrátt fyrir mikla vinnu nefndarinnar við að stuðla að því að fá einhverja aðila til að sinna þessu hér. Þetta er alvarlegt mál því vinnsla á staðnum hefur mikið vægi þegar byggðakvóta er útdeilt til sveitarfélaganna og horfir nokkuð þunglega með framtíð byggðakvóta á Vopnafirði ef ekki finnst lausn á þessu máli. Formaður taldi einsýnt að nauðsynlegt væri að leggja til að aflétta vinnsluskyldu svo unnt verði að opna fyrir umsóknir.


Málið var rætt ýtarlega  og var það samdóma niðurstaða nefndarmanna að miðað við stöðu mála væri óhjákvæmilegt að leggja til afnám vinnsluskyldu. Nefndarmenn lögðu þó mikla áherslu á að þó ekki væri vinnsluskylda væri vettvangurinn opin öllum þeim sem vildu vinna fisk hér á staðnum og næðu samningum við útgerðir um hráefnisöflun.


Formaður lagði fram uppkast af tillögu um ráðstöfun byggðakvótans. Eftir allmiklar umræður þar sem komu fram ábendingar um nokkur áhersluatriði og orðalag en vegna tímaskorts og þar sem skjalið þurfti að komast inn á sveitarstjórnarfund kl. 12 á hádegi var sveitarstjóra falið að sníða ályktunina til í samræmi við þær ábendingar sem fram höfðu komið og senda plaggið á nefndarmenn til samþykktar fyrir hádegið.
Samkvæmt þessari afgreiðslu var svo hljóðandi tillaga Atvinnu- og ferðamálanefndar lögð fyrir sveitarstjórnarfund:


Byggðakvóti Vopnafjarðarhrepps fiskveiðiárið 2014/2015
Atvinnu – og ferðamálanefnd fjallaði á fundi sínum þann 12. desember  2014 um úthlutunarreglur á byggðakvóta fiskveiðiárið 2014/2015. Nefndin samþykkti á grundvelli reglugerðar nr. 652 frá 4. júlí 2014 að gera tillögu til sveitarstjórnar  um úthlutun á 300 þorskígildistonna byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2014/2015, auk 250 þorskígildistonnum sem ekki náðist að veiða fiskveiðiárið 2013/2014. Tillögurnar fela í sér  að byggðakvóta til einstakra fiskiskipa fiskveiðiárið 2014-2015 verði úthlutað með eftirfarandi hætti:


•    35% úthlutaðs byggðakvóta  skiptist jafnt milli báta undir 1000 tonnum  með heimilisfestu á Vopnafirði og 65% byggðakvótans er skipt hlutfallslega miðað við allan landaðan bolfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðull  í þorskígildum talið, sem landað var á Vopnafirði á tímabilinu 1. september 2013 til 31. ágúst 2014.


•     Aflinn sem landaður er skal nema í þorsk¬ígildum talið  jafn miklu  magni þess aflamarks sem hlutaðeigandi fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari


•    Atvinnu- og ferðamálanefnd leggur til að sótt verði um undanþágu á vinnsluskyldu byggðakvóta á Vopnafirði á tímabilinu frá 1. september 2014 til 31. ágúst 2015, enda hefur ekki verið sýnt fram á það  með haldbærum rökum að fyrir hendi sé vinnsla á Vopnafirði sem ráði við vinnslu á byggðakvóta Vopnafjarðar kvótaárið 2014/2015.


Atvinnu- og ferðamálanefnd telur mikilvægt að vinnslu á bolfiski verði komið í þann farveg að ekki þurfi að koma til þess á fiskveiðiárinu að fiskur sé  fluttur frá staðnum óunninn. Þrátt fyrir vinnu sem nefndin hefur lagt á sig til að koma slíkri vinnslu í farveg er ekkert í hendi sem tryggir slíkt. Það eru því eindregin tilmæli fulltrúa í Atvinnu- og ferðamálanefnd að hlutaðeigandi aðilar komi af stað fiskverkun sem getur tekið á móti bolfiski til vinnslu á Vopnafirði til næstu framtíðar.

Önnur mál voru engin.  
Fleira ekki og fundi slitið kl. 9:25

Ólafur Valgeirsson, ritari.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir