Fundargerð atvinnu- og ferðamálanefndar 15. mars 2016

13.04 2016 - Miðvikudagur

Fundargerð Atvinnu- og ferðamálanefndar Vopnafjarðar


Fundur í Miklagarði, fimmtudaginn 15.3. 2016 kl. 12.00


Mættir: Ólafur Ármannsson, Steinunn Aðalsteinsdóttir, Sigríður Bragadóttir, Ólafur Valgeirsson og Ólafur Áki Ragnarsson sveitarstjóri.


Dagskrá:
1)    Bolfiskvinnsla á Vopnafirði
2)    Erindi frá sveitarstjórn varðandi „Hreindýraeldi og ferðamennsku“
3)    Bréf frá Vopnfiski ehf. um afnot af reykofni í eigu sveitarfélagsins
4)    Stefnumótun Vopnafjarðarhrepps í ferðamálum
5)    Finnafjarðarverkefnið
6)    Lýsisverksmiðja
7)    Virkir íbúar á Vopnafirði
8)    Önnur mál.


Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Að því loknu var gengið til dagskrár.


1.    Sveitarstjóri gerði grein fyrir samskiptum sínum og oddvita við HB Granda hf. um fyrirhugaða bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Vopnafirði. Verið er að vinna að málinu og má gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist innan skamms eða um leið og tekin hefur verið ákvörðun um hvort breyta eigi núverandi húsnæði eða byggja nýtt. Var að heyra að framkvæmdastjóri HB Granda væri mjög áfram um að verkið gengi hratt og vel fyrir sig.


2.    Tekið var fyrir erindi sveitarstjórnar um verkefni sem lúta að hreindýraeldi og ferðaþjónustu. Hugmyndin gengur út á að stofna til hreindýrabúskapar í Vopnafirði og þróa ferðaþjónustu í tengslum við hann. Nefndarmönnum leist vel á hugmyndina og fagna því að fram komi hugmyndir sem geta orðið til að auka aðdráttarafl byggðarlagsins fyrir ferðafólk. Nefndin lýsir jákvæðu viðhorfi til málsins enda sé ljóst að starfsemin verði alfarið í Vopnafirði.


3.    Nefndin fagnar framkomnum hugmyndum um nýtingu á reykofni sem er í eigu sveitarfélagsins. Þar er um vandað og fjölhæft tæki sem stendur ónotað á Akranesi og bíður síns tíma. Fundarmenn töldu einsýnt að ef ofninn fengi hlutverk á staðnum stæði eigandinn straum að flutningi hans. Það er þó ljóst að starfseminni fylgir lyktarmengun og því er útilokað að rekstrarleyfi verði veitt í núverandi húsnæði Vopnfisks. Þá vantar allar upplýsingar um fyrirhugaðan rekstur, svo sem rekstrar- og fjármögnunaráætlanir. Sveitarstjóra var falið að svara bréfinu í samræmi við umræðuna.


4.    Lögð voru fram til kynningar drög að ferðamálastefnu Vopnafjarðar. Málið er nú í höndum starfshóps sveitarstjórnar sem fer yfir drögin og að því loknu koma þau til umsagnar á ný áður en þau fara til endanlegrar afgreiðslu.


5.    Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðu mála hvað varðar Finnafjarðarverkefnið. Eitthvað hefur hægt á þýskum en þó er gangur í því. Sveitarstjóri lýsti því áliti sínu að verkefnið væri það stórt í sniðum að erfitt væri fyrir fámenn sveitarfélög að standa þar ein að verki enda væri málið hagsmunamál landsins alls. Því væri nauðsynlegt að hið opinbera kæmi að uppbyggingu innviða á svæðinu ef yrði af fyrirhuguðum framkvæmdum.  Sveitarstjóri greindi einnig frá nýgerðu samkomulagi milli sveitarfélaganna Vopnafjarðarhrepps og Langanesbyggðar um verklag í samskiptum og ákvarðanatöku er verkefnið varða.


6.    Sveitarstjóri kynnti áhuga Marorku á staðsetningu verksmiðju á Vopnafirði til að vinna lýsi úr uppsjávarfiski. Marorkumenn telja Vopnafjörð hentuga staðsetningu vegna mikilla gæða á því uppsjávarlýsi sem hér er framleitt. Nefndin fagnar sem fyrr öllum þeim hugmyndum sem horfa til atvinnuuppbyggingar á staðnum.


7.     Kynnt var fyrirhugað íbúaþing sem á að halda á Vopnafirði dagana 23. og 24. apríl nk.. Verkefnið er að hluta fjármagnað af Byggðastofnun. Nefndin bindur vonir við jákvæða útkomu fyrir byggðarlagið.


8.    Önnur mál. Undir þessum lið lagði formaður nefndarinnar fram tillögu að bókun um móttöku flóttafólks á Vopnafirði. Studdi þessa tillögu með rökum um íbúaþróun á staðnum enda horfði til stórfækkunar barna í leikskóla og skóla. Við þessu mætti bregðast með því að taka á móti fjölskyldufólki út hópi kvótaflóttamanna. Slík aðgerð myndi styrkja svæðið og grunn þeirrar grunnþjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu. Einnig yki þetta mannauð og fjölbreytni samfélagsins. Urðu talsverðar umræður um málið en að henni lokinni var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:


Atvinnu- og ferðamálanefnd Vopnafjarðarhrepps skorar á sveitarstjórn  að hefja nú þegar viðræður við stjórnvöld um að Vopnafjörður taki á móti flóttafólki.

Ekki verður  annað  séð en að Vopnafjörður og Vopnfirðingar séu vel í stakk búnir til að taka við flóttafólki með börn á skóla og leikskólaaldri, með aðstoð ríkisins.

Þetta kæmi samfélaginu til góða þar sem fækkun nemenda er fyrirséð  í leik- og grunnskóla sem leiðir til fækkunar starfa við skólana og e.t.v.  til brottflutnings fólks af staðnum. Ekkert er heldur í kortunum sem segir að fólk flytji hingað til búsetu að einhverju ráði, að óbreyttu,  miðað við þróunina undanfarin ár.

Þá telur nefndin að það myndi styrkja og auka samstöðu í  okkar litla samfélagi  að takast á við verkefnið, að taka á móti flóttafólki. Hjálpa því að aðlagast okkar samfélagi, með atvinnu, húsnæði og öðru sem því fylgir.

Fleira ekki.

Fundi slitið kl. 13.40

Ólafur Valgeirsson, ritari
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir