Fundur atvinnumálanefndar 13.03.2009

13.03 2009 - Föstudagur

Fundargerð atvinnu- og ferðamálanefndar 13. mars 2009
Fundur atvinnumálanefndar Vopnafjarðar
haldinn föstudaginn 13. mars. 2009 í félagsheimilinu Miklagarði kl. 12.00

Atvinnumálanefnd Vopnafjarðar kom saman til fundar í kaffistofu Miklagarðs föstudaginn 13. mars kl. 12:00. Á fundinn voru mættir Árni Magnússon, Guðjón Böðvarsson, Guðmundur Wiium, Magnús Róbertsson og Helgi Þorsteinsson. Jafnframt voru mættir Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri og Magnús Már Þorvaldsson, sem ritaði fundargerð.

Setti formaður fund og bauð nefndarmenn velkomna. Bauð síðan sveitarstjóra að gera nánari grein fyrir þeim málum er fyrir fundi lágu.

1) Fundargerð atvinnumálanefndar frá 12. jan sl.
Fundargerðin atvinnumálanefndar frá 12. jan. sl. lögð fram. Fóru fram nokkrar umræður um byggðakvótann og samskiptin við smábátasjómenn á staðnum. Fundargerðin síðan samþykkt.

2) Staðan í fiskvinnslu. Hvað er til ráða?
Lögð fram til kynningar áskorun um loðnuveiðar sem send var sjávarútvegsráðherra.
Farið var yfir stöðu mála varðandi útlit í fiskvinnslumálum á næstu misserum. Greint var frá samtölum við forsvarsmenn HB Granda varðandi sýn þeirra á vinnslu sjáfarfangs á Vopnafirði. Í þeim viðræðum kom fram að útlitið er alls ekki bjart hvað varðar markaðsmál vegna vinnslu á afskurði. Skipin eru nú á kolmunnaveiðum í Írlandshafi og er búist við að meginhluta þess afla verði landað á Akranesi. Í júní er áætlað að hefja vinnslu á norsk-íslensku síldinni.
Af þessu má sjá að mikil óvissa er framundan hjá fiskvinnslufólki á Vopnafirði - við slíkt er illt að una.

Mikil umræða fór fram um málefni fiskvinnslu á Vopnafirði þar sem Magnús Róbertsson upplýsti m. a. um möguleika á vinnslu makríls, sem veiddur er að sumri, en eftirspurn er gríðarmikil. Jafnframt greindi hann frá því að til skoðunar væru fleiri möguleikar á vinnslu sjávarfangs.

Lögð var fram svofelld tillaga:
„Atvinnumálanefnd telur brýnt að leitað verði allra leiða til þess að styrkja stoðir fiskvinnslu á Vopnafirði. Hvetur nefndin til þess að kallað verði eftir formlegum fundi með forsvarsmönnum HB Granda, þar sem ræddar verði leiðir til að tryggja sem best öryggi fiskvinnslufólks.
Jafnframt verði kannað hvort aðrir möguleikar séu í stöðunni varðandi fiskvinnslu“.

Allir fulltrúr í nefndinni töldu nauðsynlegt að leita allra leiða til þess að treysta þessar stoðir atvinnulífsins.

Fyrirliggjandi tillaga var síðan samþykkt.

3) Byggðakvóti. Bréf sjávarútvegsráðuneytis frá 17. feb. sl., ásamt umsókn.
Lagt fram bréf sjávarútvegsráðuneytisins varðandi umsókn um byggðakvóta fyrir kvótaárið 2008/2009, dags. 17. feb. sl. Ennfremur lögð fram umsókn Vopnafjarðarhrepps, dags. 26. feb. sl., varðandi byggðakvóta 2008/2009.
Fundarmenn töldu nauðsynlegt að haldið yrði áfram með skoðun á því hvort unnt væri að stofnsetja bolfiskvinnslu, þar sem væntanlegur kvóti yrði unninn. Reyna þyrfti að finna aðila sem treystu sér til þess verks. Minnt var á að fordæmi séu fyrir sértækum aðgerðum þar sem veiði hefur brugðist, svo sem skelfiskveiði í Breiðafirði.

4) Efling atvinnutækifæra-Ný verkefni og verkefni í vinnslu -staða mála-
-Niðursuðuverkefni-
Gerð var grein fyrir stöðu málsins og hverjir möguleikar væru í stöðunni. Kom fram í máli sveitarstjóra að fyrir lægi stór pöntun frá Kína upp á 7000 dósir en frekara markaðsstarf þarf að vinna á komandi misserum. Framundan væri að kanna hvort mögulegt væri að koma á samstarfi við erlenda aðila á þessu sviði.

-Mennta-menningar – nýsköpunarsetur-
Gerð grein fyrir málinu en sá tími sem liðinn er staðfestir þá þörf sem fyrir var. 8 mkr. fengust á aukafjárlögum vegna þessa og ferða- og menningarmála. Þegar hefur verið ráðið í fullt starf útibús Þekkingarnets Austurlands og einnig hefur verið ráðið í hálft starf ferða- og menningarfulltrúa. Ráðningar þessar eru mikil framför frá því sem verið hefur.

-Ferðaþjónusta-
Gerði Magnús Már grein fyrir málinu. Vopnfirðingar hafa verið að fullu þátttakendur í stefnumótun ferðamála á Austurlandi þar sem flltr. þeirra hefur setið í stýrihópi. Nýtt kjörorð og vörumerki fyrir Austurland hefur verið opinberað; Austurland í alvöru og hreindýrið „Hreinsi“ nýtt vörumerki. Unnið er að nýjum ferðabæklingi fyrir sveitarfélagið. Greint var frá „Einu sinni á ágústkvöldi“, sem kemur í stað Vopnafjarðardaga en verði þrátt fyrir nafnið haldin á sama tíma í júlí – „Einu sinni á ágústkvöldi“ … í júlí. Fram fór nokkur umræða þar sem m. a. var vikið að mikilvægi Vesturfara og benti Magnús á að það verkefni væri komið á góðan rekspöl í gegnum vinnu við heiðarbýlin.

5) Fjarskiptasjóður- útboð á háraðatengingum í dreifbýli
Lögð fram gögn varðandi undirskrift Fjarskiptasjóðs og Símans vegna samninga um háhraðanet til allra landsmanna. Jafnframt lagður fram listi yfir þá bæi í Vopnafirði sem fá slíka tengingu. Áætlað er að verkefninu ljúki á árinu 2010.
Atvinnumálanefnd telur að hér sé um mikið framfaraskref fyrir hinar dreifðari byggðir að ræða og fagnar því að nú hylli undir að allir bæir í dreifbýli verði tengdir hraðaneti.


6) Framkvæmdir á vegum hins opinbera og einkaaðila í Vopnafirði
Gerð var grein fyrir áformum HB Granda varðandi uppbyggingu fiskiðjuvers fyrirtækisins á Vopnafirði. Fyrirtækið hyggst ráðast í miklar framkvæmdir við uppbyggingu á fiskimjölsverksmiðju og mjölgeymslum á árinu.
Jafnframt var gerð grein fyrir útboði á Norðausturvegi niður til Vopnafjarðar en ráðgert er að tilboð verði opnuð 24. mars n. k. Verkið á að vinna á árunum 2009-2012.
Atvinnumálanefnd fagnar því að verkefni þessi séu komin á svona góðan rekspöl.

7) Sumarvinna á vegum sveitarfélagsins.
Fram fór umræða um málið og nefndarmenn sammála um að leita eftir samvinnu við Vinnumálastofnun viðvíkjandi samstarf hér að lútandi. Líklegt er að fleiri ungmenni muni leita heim eins og efnahagsástandið leikur landið. Í þessu sambandi þurfi að kanna hvort heppilegt sé að koma á sérstökum verkefnum, t. d. í skógrækt, göngustígagerð eða öðrum slíkum verkefnum.

8) Önnur mál. Ekkert undir þessum lið.

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 14.10Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir