Fundur atvinnumálanefndar 16.12.2009

16.12 2009 - Miðvikudagur

Fundur atvinnumálnefndar Vopnafjarðarhrepps

- fundað með fulltrúum Impru og ÞFA þann 16. desember 2009

 

Miðvikudaginn 16. desember 2009 kl. 17.00 kom atvinnumálanefnd saman til fundar í Miklagarði ásamt fulltrúa Impru, Bjarna Ellert Ísleifssyni, og ÞFA, Hafliða H. Hafliðasyni.  Bauð Þorsteinn sveitarstjóri fundarmenn velkomna til fundar, fór nokkrum orðum um tilurð fundarins og gaf síðan þeim félögum orðið.

 

Kom í hlut Hafliða hefja kynningu á stofnun sinni, Þróunarfélagi Austurlands.  Starfar hann þar sem framkvæmdastjóri, tímabundið a. m. k., eftir fráhvarf Stefáns Stefánssonar.  Sagði Hafliði starf Bjarna hafa tilkomið í gegnum Norðausturnefndina s. k. er forsætisráðuneytið setti á fót á öndverðu árinu 2008 til eflingar atvinnulífi landsbyggðarinnar.  Samstarf stofnanna, ÞFA og Imrpu, væri mikið og vaxandi.

 

Starfsmenn ÞFA eru 5 nú um stundir – voru 6 fyrir brotthvarf frkv.stj. – 4 á Egilsstöðum og einn á Reyðarfirði; vinnur sá að verkefni í samvinnu við Evrópusambandið og varðar rannsóknir á almenningssamgöngum í dreifbýli.  Fór Hafliði yfir starfsemina þar sem kom fram að samstarfið við sveitfarfélögin/SSA væri mikið, má þar nefna Vaxtarsamning Austurlands.

 

Rekstur ÞFA er áætlaður í kringum 60 milljónir á næsta ári og koma tekjur stofunnar í gegnum Byggðastofnun, ca. 1/3 tekna eða 20 mkr., 5 mkr. frá Atvinnuþróunarsjóði, 3.5 mkr. vía félagsgjöld svfél. og 15-20 mkr. vegna sérverkefna, þ. m. t. Evrópuverkefni.  Tók Hafliði dæmi um nokkur verkefni sem væru í gangi, misstór eins og gengur; nefndi sem dæmi skoðun á kapalverksmiðju á Seyðisfirði og vinnu er tæki til Drekasvæðisins. 

 

ÞFA á hefur í gegnum tíðina átt mikil samskipti við frumkvöðla og einstaklinga.  Stofan hefur kappkostað að viðvera starfsmanna sé tryggð sem víðast og er auglýst hverju sinni.  Á tíðum er vinnuframlag þeirra þó illa nýtt og þörf fyrir að koma betra skikki með hag beggja að leiðarljósi.  Fólki hættir til við að misskilja tilgang ÞFA.  Þannig hafa margir haldið að stofan væri frumkvöðull verkefna og þangað mætti sækja víðtæka þjónustu án endurgjalds.  Að sönnu er þjónustusviðið breitt, starfsmenn reiðubúnir að greiða götu þeirra er til stofunnar leita en hún er fyrst og síðast stuðningsaðili – frumkvæðið er þeirra er til hennar leita.

 

Að endingu ítrekaði Hafliði að samstarf ÞFA og Imrpu væri mikið, færi vaxandi og sá kostur er uppi að starfsmenn geta vísað verkefnum á milli allt eftir hvar bestu þekkinguna væri að finna.  Dæmi um skínandi samstarf er skoðun á kapalverksmiðjunni á Seyðisfirði.

 

Bjarni kvað báða aðila, ÞFA og Impru, stefna að sömu markmiðum.  Í hans tilfelli er allt landið undir, starfssvæðið ekki bundið við Austurland þó heimilisfangið væri á Egilsstöðum.  Impra er hluti af starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar ásamt Iðntæknistofnun og Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins.  Stofnunin er vel mönnuð með 100 starfsmenn, þar af 30 á landsbyggðinni – og er kosturinn sá að þeir fari yfir mörk hvers fjórðungs allt eftir þörfum.

 

Nýsköpun ekki bundin við ný fyrirtæki heldur geta gamalgróin fyrirtæki allt eins verið að vinna að henni.  Öll vinna Impru er boðin án endurgjalds en ekki er það margt sem fæst ókeypis í þessum heimi.  Impra vaktar ýmis styrkjakerfi ríkisins eins og Átak til atvinnusköpunar – og er viturlegt að leita til starfsmanna stofnunarinnar áður en sótt er um. 

 

Bjarni lagði á það áherslu með bros á vör að hann væri lítill „skýrslukall“, sem vélfræðingur væri hann meira fyrir áþreifanlega hluti – og er framleiðsla hans sérhæfing.  Ítrekaði hann þá miklu breidd sem Nýsköpunarmiðstöð ræður yfir en henni er einfaldlega ætlað að bæta lífsskilyrði á Íslandi, sem telja verður göfugt markmið.

 

Að lokum vék Bjarni að námskeiði sem færi af stað í janúar á næsta ári, „Orkubóndinn“ nefnist það og varðar beislun orku heima fyrir.  Var Hvammsáin tekin sem dæmi í því sambandi en sitt sýnist hverjum um beislun hennar.

 

Þökkuðum fundarmenn kynningu tvímenninga og beindu til þeirra nokkrum spurningum og fengu svör við.  Ákveðið var að stefna að hugarflugfundi á Vopnafirði fljótlega á næsta ári.  Menn voru sammála um að yfirleitt hafi hugmyndir ekki skort en í flestum tilfellum hafi „dráttarklárinn“ vantað með þeim afleiðingum að hugmynd verður ekki raungerð.  Að lokum var samþykkt að valinn hópur yrði kallaður saman í febrúar 2010 þar sem freistast verður til að koma hugmyndum á blað og ýta þeim síðan áfram.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18:20

 

Mættir:  Árni Magnússon, Helgi Þorsteinsson, Guðmundur W. Stefánsson, Magnús Þór Róbertsson, Guðjón Böðvarsson, Þorsteinn Steinsson og Magnús Már Þorvaldsson, er tók ofangreint saman.Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir