Fundur atvinnumálanefndar 28.10.2010

31.10 2010 - Sunnudagur

Fundur atvinnumálanefndar Vopnafjarðarhrepps

28. október 2010, haldinn í Miklagarði kl. 12.00

 

Fundur atvinnumálanefndar Vopnafjarðarhrepps haldinn fimmtudaginn 28. október 2010 í félagsheimilinu Miklagarði og hófst kl. 12:00.

 

Mætt: Björn Halldórsson, Guðmundur Wiium, Helgi Þorsteinsson, Guðrún Stefánsdóttir og B. Fanney Hauksdóttir.

 

Á fundinn mættu auk heldur: Ólafur Ármannsson og Magnús Már Þorvaldsson, er ritaði fundargerð.

 

Formaður, opnaði fund og bauð fundarmenn velkomna til fundar. Einkum var gestur fundarins, Ólafur Ármannsson, boðinn velkominn og af tillitssemi við gestinn var 4. mál á dagskrá tekið fyrir sem 2. mál, með samþykki fundarins. Síðan var gengið til dagskrár.

 

 

Dagskrá:

 

  1. mál: Fundargerð atvinnumálanefndar frá 09. september sl.

Fundargerðin samhljóða samþykkt.

 

  1. mál: Loðnuverkefnið  - staða þess og næstu skref. Ólafur Ármannsson situr fundinn og ræðir loðnuverkefnið.

 

Formaður sagði verkefnið hafa verið í svefnfasa um tíma, að Ólafur væri annan tveggja sem best þekkir til þess og bað hann um að gera grein fyrir stöðu mála.

 

Ólafur þakkaði traustið frá hendi atv.m.n. með því að leita til sín viðvíkjandi málefni loðnuniðursuðu. Sagði Ólafur verkefnið hafa farið vel af stað, næstum einum of því minna fékkst af styrkjum fyrir vikið, svo merkilega sem það hljómar. Frá öndverðu var svf. í samvinnu við Einar Víglundsson, Jón Kr. Kristjánsson og Tríton á Akranesi – og síðar danann Kristian …, er hingað kom. Mikill áhugi var að fá HB Granda h..f. að verkefninu, sem lykilaðili m. t. t. hráefnisframlegðar. Fundað var syðra án þátttöku flltr. svf. og gekk illa en þrýst var á húsnæði fyrirtækisins undir vinnsluna. Með höfnun HB Granda þvarr þróttur Tríton og áhugi þess ekki endurvakinn. Breytir ekki því að prufur hafa verið sendar utan, m. a. 25 þúsund dósir til Tævan og áætlað að senda aðra sendingu á næstunni, yfir 20 þús. dósir.

 

Atv.m.n. fyrir hönd svf. rekur ekki málið áfram heldur þarf hagsmunaaðili að koma að verkefninu en tiltrú Ólafs á því er hin sama. Kveðst vita að innan tíðar tilkynni Skinney-Þinganes að niðursuða verði sett upp á Höfn í samvinnu við pólverja.

 

Fanney óttast að málið sé of stórt í umfangi fyrir lítið samfélag og vill að fyrst í stað verði horft til smærri framleiðslu, reykofn sá sem verkefnið á verði hingað fenginn og unnin loðna í tengslum við Matargatið. Sköpuð verði sérstaða í gegnum þá framleiðslu.

 

Resktrarlega hefur Ólafur ekki trú á þessari hugmynd, ofninn er stór og þarf mikið magn til að ná fram hagkvæmni.

 

Umræða fór fram um málið þar sem fundarmenn tjáðu sig, þar sem fram kom í máli Magnúsar að upphaflega hugmyndin hafi verið framleiðsla á ódýrri vöru fyrir þurfandi fólk fátækra landa, ódýr innihaldsrík vara, sem unnin yrði í samvinnu við hjálparstofnanir. Þróuð síðan áfram með breyttum forsendum.

 

Í ljósi kostnaðar við verksmiðjuuppbyggingu velti Guðmundur upp þeirri hugmynd, að eftir sem áður yrði framleitt fyrir vopnfirðinga þar sem tæki eru til staðar meðan verið væri að treysta framleiðsluna. Helgi sagði öllu skipta að frumkvöðull verði fundinn, sá sem hefði beinan hag af verkefninu. Kvaðst sannfærður um að hefði framleiðslan verið hér á heima væri verkefnið komið mun lengra á veg. Ólafur sagði margt hefði verið reynt, sá danski ætti vélar, byggi yfir þekkingu og kynni á markaðinn – sá aðili gæti verið lykillinn að verkefninu en er hann til staðar enn? Talað var um eignarhald þess danska uppá 50%.

 

Sbr. umræðuna sagði Björn ljóst að svf. reisti ekki verksmiðju en gæti gert margt til að greiða götu verkefnisins. Og hefði unnið ötullega að því á tímabili. Nefndi hann stofnanir hér á landi sem beinlínis  kæmu með fjármagn inní vænleg verkefni, s. s. Íslandsstofu, og þrátt fyrir hægagang nú væri búið að svara býsna mörgum spurningum.

 

Ólafur sagði alls ekki fullreynt um samstarf við HB Granda en tekur undir þá gagnrýni að vilja hafi skort til að ýta verkefninu áfram. Tillaga hans er að fulltrúar svf. æski fundar með HB Granda og leiti samstarfs svo sem ítrekað hefur verið rætt um. Hugmynd verður ekki seld án afurðar. Finna þarf erlendan samstarfsaðila, aðila sem hefur markaðsaðgang og leggur til að margnefndur Dani verði fyrsti kostur í stöðunni. Að svo búnu vék Ólafur af fundi.

 

Niðurstaða/álit nefndarmanna:

Guðmundur hefur eftir sem áður fulla trú á verkefninu en vill skoða þann kost að bíða með verksmiðjubyggingu en leita leiða til að treysta framleiðsluna í sessi með vandaðri markaðssetningu.

Fanney er talsmaður þess að byrja smátt og vinna okkur þannig áfram án skuldsetningar.

Guðrún kvaðst vilja halda áfram á markaðri braut og leita uppi fjármagn í samstarfi við HB Granda.

Helgi sagði það engu skipta hvort verkefnið væri stórt eða smátt, allt þarf að vera rekstrarhæft. Ítrekar þá skoðun sína að staðan væri önnur og betri hefði tilraunaframleiðslan farið fram hér.

Björn sagði af og frá að hætta verkefninu nú, alltof mikil vinna væri þegar unnin. Finna þarf áhugasaman, trúverðugan, aðila sem er reiðubúinn að koma með fjármuni í verkefnið. Samstarf við HB Granda væri mikilvægt m. t. t. hráefnis – og athuga strax hvort sá danski sé aðgengilegur eftir sem áður. Leita eftir samstarfi við Íslandsstofu auk ráðgjafar erlendis, einn slíkan þekkir Björn í Kaupmannahöfn.

Allir sammála um mikilvægi þess að eiga ávallt vörur/prufur á lager, ca. 10 þúsund dósir.

Litið svo á að pólarnir séu tveir sem stendur, loðnuverkefnið og ferðamálin.

 

  1. mál: Yfirlit yfir helstu verkefni – framhald frá síðasta fundi. Magnús Már fór yfir þau mál sem útaf stóðu. Gerði að sérstöku umtalsefni málefni Múlastofu, þykir honum sem nokkuð hafi skort upp á áhuga vopnfirðinga – og hvernig má vinna að því að auka vöxt og viðgang setursins. Setrið skapar sveitarfélaginu sérstöðu og að víða um land skuli vera haldin kvöld í nafni bræðranna sýnir með óyggjandi hætti hug landsmanna til þeirra. Það eiga vopnfirðingar að nýta sér.

 

  1. mál: Umræður um ferðamál – staða ferðamála, framtíðarhorfur.

 

Í upphafi umræðunnar gerði formaður að umtalsefni þörfina á samantekt verkefna í ferðaþjónustunni á Vopnafirði. Lagði til að Helgi og Fanney, í samstarfi við Magnús Má, ynnu þá vinnu. Draga skal saman stöðuna og setja t. a. m. fram 3ja ára áætlun um markaðssetningu.

 

Rædd var sú þörf að ferðaþjónustuaðilar stæðu saman, hvar kostir okkar liggja og hvernig best væri að koma þeim á framfæri. Þættir eins og náttúra, saga og menning voru nefndir í þessu samhengi. Þessu tengdu heiðarbýlin, Vopnfirðinga saga og vesturfarar – hér eiga margir útlendingar rætur.

 

5.      mál: Önnur mál. Helgi greindi frá fundi með Guðjóni Þorkelssyni frá Matís og Þórarni Agli Sveinssyni frá Matarsmiðjunni vegna Matargatsins, sem notið hefur styrkja frá Norðursprotum og VAXA, samtals 1.400 þús. Þeir ráðlögðu vopnfirðingum að takamarka sig við fáa framleiðsluþætti fyrst um sinn. Aðstaða væri til staðar á Egilsstöðum meðan aðilar eru að fóta sig. Kynningarfundur verður þann 04. nóvember n. k. og námskeið í framhaldi af honum. Málflutningur þeirra Guðjóns og Þórarins Egils þótti Helga athyglisverður.

 

Greint frá viðhorfskönnun Ólafs Valgeirssonar, sem hann vann á umliðnu sumri og hefur skrifað greinargerð þar að lútandi. Hún kemur sér án efa vel þegar horft er til framtíðar og var löngu þarft að vinna.

 

Hótel Tangi til umræðu, þ. e. velt var upp spurningunni um hvert sveitarfélagið, sem eigandi hótelsins, vill sjá þróun þess á komandi misserum. Talað var um að almennt skorti frumkvæði meðal rekstraraðila gistingar í þéttbýlinu.

 

Greint var frá að minjasafnið Bustarfelli hafi laðað til sín 2.500-2.800 gesti á liðnu sumri meðan Glaumbær í Skagafirði hafi fengið um 21 þúsund. Verk að vinna á þessu sviði sem öðrum. Ekki má gleyma að Glaumbær liggur betur við ferðamanninum en Bustarfell.

 

Hugmyndin um stóra minkabúið (10 þús. lífdýr) að ganga í endurnýjun lífdaga? Björn greindi frá að tveir erlendir aðilar væru reiðubúnir að leggja fjármuni í samstarfi við aðra í slíkt verkefni. Hafa gefið sig fram þó enn sé umræðan á byrjunarstigi, óformlegar þreifingar.

 

Þrátt fyrir ofangreinda umræðu eru nefndarmenn á því að takmarka verkefnin hverju sinni og svo sem áður greinir er einkum horft til ferðamála og loðnuverkefnisins.

 

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 13:50.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir