Fundur atvinnumálanefndar 06.12.2013

08.12 2013 - Sunnudagur

Fundur atvinnumálanefndar Vopnafjarðar haldinn föstudaginn 6. des. 2013 í félagsheimilinu Miklagarði kl. 12.00.

Á fundinn voru mætt:   Björn Halldórsson, Guðmundur Wiium, Guðrún Stefánsdóttir, Emil Erlingsson og Jón Sigurðsson

 

Dagskrá:

 

1)      Fundargerð atvinnumálanefndar frá 29. nóv. sl.

Lögð fram fundargerð atvinnumálanefndar frá 29. nóv. sl.

Fundargerðin síðan samþykkt samhljóða.

 

2)      Byggðakvóti 2013/2014

 Um málið var áður fjallað á fundi nefndarinnar 29. nóv. sl.   Lagt fram minnisblað nokkurra aðila, varðandi hugmyndir um stofnun fiskvinnslu á Vopnafirði.   Jafnframt lagt fram yfirlit yfir raunverulega úthlutun byggðakvóta 2012/2013.  Ennfremur lagt fram yfirlit yfir hugsanlega úthlutun á báta kvótaárið 2013/2014.

 

Á fundinn mætti Finnbogi Vikar og gerði grein fyrir hugmyndum um stofnun fiskvinnslu á Vopnafirði.  Hvernig hugmyndin væri að standa að þessum málum og hverjir væru þar á bakvið.   Fundarmenn fengu síðan tækifæri til þess að spyrja Finnboga nánar um áform þessara aðila og hvernig þeir hyggðust standa að málum.  Svaraði hann síðan fyrirspurnum fundarmanna.     Að því loknu var Finnboga þakkað fyrir yfirferð hans um þessi mál og vék hann því næst  af fundi.

 

Að því búnu fóru nefndarmenn yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru varðandi úthlutun byggðakvóta kvótaársins 2013/2014.

Töldu fundarmenn mjög æskilegt að unnið yrði að því að setja upp fiskvinnslu á Vopnafirði, ef nokkur möguleiki er á því.   Á grundvelli þess að slík fiskvinnsla er ekki til staðar sem stendur, enda þótt fyrir liggi áhugi þessara aðila, telur nefndin erfitt að móta reglurnar á þeim forsendum einum að fyrirhugað sé að stofna fiskvinnslu.  

Nefndarmenn vildu þó reyna til þrautar hvort þessi leið væri með einhverju móti fær, enda markmið byggðakvótans að skapa sem mesta vinnu í heimabyggð.   Töldu því nefndarmenn æskilegt að gefa umræddum aðilum áveðinn tíma til þess að koma á stofn fiskvinnslufyrirtæki hér á Vopnafirði. 

Fram kom tillaga um að þeim yrði gefinn tími fram til 20. janúar nk. til þess að stofna þetta fyrirtæki og fá tilskilin leyfi.   Í framhaldi af því yrði tekin endanleg afstaða til mótunar tillagna um úthlutun byggðakvóta Vopnafjarðarhrepps fiskveiðiárið 2013/2014.

Tillaga þessi var samþykkt samhljóða í nefndinni og var sveitarstjóra falið að kanna með heimild Atvinnuvegaráðuneytisins til heimildar til þess að fá frestun á innsendingu tillagna, Vopnafjarðarhrepps, um úthlutun fram yfir þann tíma.

 

Almennt voru fundarmenn inni á þeirri hugmynd að lagt yrði til að reglur um úthlutun byggðakvóta á Vopnafirði verði eins og þær voru fyrir árið 2012/2013 að öðru leyti en því að fiskiskip skulu landa tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað eins og reglugerðin kveður á um , sem um þessi mál gildir.

 

Afstaða til ákvæðis um vinnsluskyldu í heimabyggð verður síðan tekin á grundvelli þess hvort tekist hefur að stofna fiskvinnslu hér á Vopnafirði til samræmis við tillöguna sem samþykkt var hér fyrr á fundinum.

 

Á fiskveiðiárinu 2013/2014 eru alls til úthlutunar 325 þorskígildistonn.

 

3)      Fjárfestingar- og atvinnueflingarsjóður Vopnafjarðarhrepps.

Á síðasta fundi voru lögð fram drög að samþykktum fyrir fjárfestingar- og atvinnueflingarsjóð Vopnafjarðarhrepps.   Þar var sveitarstjóra ásamt formanni atvinnumálanefndar var falið að vinna áfram að framgangi málsins.

Gerð var nánari grein fyrir málinu og vinnu sem fram hefur farið við útfærslu á stofnun sjóðsins.   Í framramhaldi því var lögð fram svofelld tillaga:

 

„Atvinnumálanefnd leggur til við sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps að fela KPMG, í samráði við sveitarstjóra, að ganga frá stofnun á sérstökum sjálfstæðum B- hluta sjóði í bókhaldi sveitarfélagsins.  Sjóðurinn mun bera nafnið Atvinnueflingarsjóður Vopnafjarðar og verður sjálfstæð rekstrareining, sem rekinn verður á kennitölu sveitarfélagsins.  Við stofnun sjóðsins færast þeir fjármunir sem nú eru færðir sem skuldbinding, vegna atvinnumála í bókhaldi Vopnarfjarðarhrepps til sjóðsins. 

Í framhaldi af þessu verður gengið frá stofnskrá fyrir Atvinnueflingarsjóð Vopnafjarðar, stjórn skipuð og úthlutunarreglur settar.“

 

Nokkrar umræður urðu um fyrirliggjandi tillögu og svaraði sveitarstjóri fyrirspurnum fundarmanna.

 

Fyrirliggjandi tillaga var síðan samþykkt samhljóða.

 

 

4)      Önnur mál.

Engin önnur mál.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13.30
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir