Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 12. október 2015

25.11 2015 - Miðvikudagur

Fundur skipulags- og umhverfisnefndar Vopnafjarðarhrepps
12. október 2015, haldinn í Miklagarði kl. 12:00

Mætt til fundar: Björn Heiðar Sigurbjörnsson, Borghildur Sverrisdóttir, Baldur Kjartansson, Heiðbjört Antonsdóttir, Jakobína Ósk Sveinsdóttir og Baldur H. Friðriksson.

Einnig mættur Magnús Már Þorvaldsson, sem ritaði fundargerð.

Dagskrá:

1.    mál: Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 26. ágúst sl. lögð fram.
Fundargerðin síðan samþykkt.

2.    mál: Grund/Hafnarbyggð 61, bílskúr – Fyrirspurn eigenda, dags. 15. september 2015, um heimild til að byggja bílskúr við íbúðarhúsið að Grund/Hafnarbyggð 61. Er þess óskað að lóðarmörk verði færð til samræmis við hjálagðan uppdrátt. Einnig meðfylgjandi loftmynd.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrirspurnina með þeim fyrirvara að lóðarmál verði kláruð og felur byggingafulltrúa að ljúka málinu.

3.    mál: Engihlíð, heimild til jarðræktar – Félagsbúið Engihlíð óskar heimildar til framræslu lands í framhaldi af áður samþykktum skurðgreftri í sama landi. Meðfylgjandi er loftmynd af aðstæðum ásamt erindi, dags. 29. september sl., sem inniheldur greinargerð.

Málinu frestað til næsta fundar, það unnið áfram í samvinnu við landeigendur og þá er málið kann að varða.

4.    mál: N1, uppgröftur eldsneytisgeyma – Óskað er heimildar til að grafa upp 2 gamla eldsneytisgeyma á lóð sláturhúss, sbr. bréf N1 dags. 15.09.2015. Gert er ráð fyrir að verkið verði unnið í lok október nk.

Skipulags- og umhverfisnefnd veitir heimild til að fjarlægja geymana en óskar jafnframt eftir að haft verði samband við Vinnueftirlitið og HAUST og þeir kallaðir til úttektar áður en gengið verður frá. Samhljóða samþykkt.

5.    mál: Vopnafjarðarhreppur, strandblakvöllur við Lónabraut 4  – Samþykkt var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 28. ágúst sl. að heimila framkvæmdina. Athugasemdir voru gerðar við hana og málið nánar kynnt fyrir íbúum, sbr. hjálagt bréf starfsmanns byggingafulltrúa dags. 06. október sl. Einnig samantekt á samskiptum við íbúa að kynningu lokinni.

Skipulags- og umhverfisnefnd þykir miður sú staða sem upp er komin við gerð strandblakvallar. Nefndin telur nauðsynlegt að tekið verði tillit til þeirra athugasemda sem hafa borist frá nágrönnum og vísar þessu máli ásamt meðfylgjandi gögnum til sveitarstjórnar til umfjöllunar. Hafa skal í huga að skrifleg kynning á verkefninu var send í sex nágrannahús eftir að skrifleg athugasemd barst byggingarfulltrúa frá einum íbúa í næsta nágrenni vallarins.

Meðfylgjandi er samantekt sem starfsmaður skipulagsnefndar tók saman.

6.    mál: Leikskólinn Brekkubær – Uppdráttur Dagnýjar Bjarnadóttur, FÍLA, af lóð Brekkubæjar. Lagt fram til kynningar.

Nefndin vekur athygli á að fyrirhugaðar lóðarframkvæmdir hafa ekki verið lagðar fyrir skipulags- og umhverfisnefnd til umsagnar og afgreiðslu.

7.    Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis – Óskað er umsagnar um tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015-2026, 101. mál. Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/145/s/0101.html

Lagt fram til kynningar.


Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 13:35.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir