Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 19. desember 2018

11.01 2019 - Föstudagur

Fundur skipulags- og umhverfisnefndar Vopnafjarðarhrepps 19. desember 2018, haldinn í Miklagarði kl. 12:00

 

Mætt til fundar: Borghildur Sverrisdóttir, Höskuldur Haraldsson, Lárus Ármannsson, Ingólfur Bragi Arason, Sveinn Daníel Sigurðsson og Jón Ragnar Helgason.

 

Einnig sat fundinn Magnús Már Þorvaldsson er ritaði fundargerð.

 

Við upphaf fundar óskaði formaður heimildar að taka inn tvö mál með afbrigðum til meðferðar; annars vegar umsagnir stofnana vegna deiliskipulags hafnarsvæðis á vinnslustigi sem 6. mál, hins vegar landamerkjamál Leiðarhafnar sem 7. mál. Samhljóða samþykkt að taka málin inn á dagskrá sem 6. og 7. mál.

 

Dagskrá:

 

1. mál: Aðalskipulag Vopnafjarðar - deiliskipulag hafnarsvæðis, tillaga á vinnslustigi – Hjálögð er umsögn Samgöngustofu, dags. 06. desember 2018, skv. ósk Vopnafjarðarhrepps í tölvupósti 21. nóvember sl. Lagt fram til afgreiðslu en frestur til að skila inn umsögnum rann út 10. desember sl. Samgöngustofa gerir ekki athugasemdir við tillöguna en vekur athygli á nokkrum atriðum sem hafa ber í huga við fyrirhugaða framkvæmd og vísar nefndin til bréfs stofnunarinnar þar að lútandi.

 

2. mál: Selhóll sumarbústaður – Eigandi sumarbústaðirns Selhóls í landi N-Skálaness, sem samþykktur var og byggður árið 1997, óskar eftir að sveitarfélagið stofnsetji hnitamerkta lóð undir bústaðinn og næsta nágrenni hans, sbr. bréf dags. 13. desember sl. Meðfylgjandi eru uppdrættir húss og tvær afstöðumyndir.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða að vísa erindinu áfram til skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins varðandi stofnun lóðar undir sumarbústaðinn skv. ósk eiganda um 5000 m2 lóð. Verkið vinnist hið fyrsta og skipulagsnefndin verði upplýst um framgang þess.

 

3. mál: Refsstaður ehf. – reiðskemma. Refsstaður ehf. æskir heimildar til að byggja reiðskemmu við hesthús, áður loðdýrahús, skv. bréfi dags. 12. nóvember 2018. Meðfylgjandi er afstöðumynd með byggingarlýsingu og bygginganefndarteikningar og skráningartafla. Ennfremur skýringarmynd kraftsperru og bréf Berglindar Sigurðardóttur til sveitarstjórnar, ódags, lagt fram til kynningar. Áður tekið fyrir í skipulagsnefnd 13. nóvember sl.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti að heimila bygginguna og vísar áfram til byggingafulltrúa.

 

4. mál: Bustarfell – stofnun lóðar. Umsókn um stofnun nýrrar lóðar í landi Bustarfells undir heitinu Bustarfell III, skv. hjálagðri umsókn dags.27.11.2018. Er óskað eftir samþykkt landeiganda, þ.e. Vopnafjarðarhrepps, hér að lútandi.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti að heimila stofnun lóðar fyrir landeignina Bustarfell III og vísar áfram til sveitarstjórnar.

 

5. mál: Skógar I – sumarbústaður. Eigendur sumarbústaðarins Laxalóns í landi Skóga I hafa fengið heimild fyrir skika skv. hnitasettri mynd Ómars Þrastar Björgólfssonar og er meðfylgjandi. Ennfremur hjálagt bréf Jósefs S. Jónssonar, dags. 11. desember sl., þar sem heimildin er staðfest en um eignalóð er að ræða. Lagt fram til kynningar.

 

6. mál: Aðalskipulag Vopnafjarðar - deiliskipulag hafnarsvæðis, tillaga á vinnslustigi – Hjálagðar er umsagnir HAUST í tölvupósti, dags. 22. nóvember 2018; tölvupóstssamskipti Yrkis og Vegagerðar 22. og 23. október sl. vegna veghelgunarsvæðis á hafnarsvæði; umsögn Vegagerðar, dags. 11. desember sl., er varðar veghelgunarsvæði þjóðvega; umsögn Minjastofnunar, dags. 17. desember sl., og uppdráttur Yrkis arkitekta af hafnarsvæði, dags. 04. desember 2018. Lagt fram til afgreiðslu.

 

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum við deiliskipulagstillöguna rann út 10. demsember sl. Í tölvupósti HAUST til skipulagsfulltrúa, dags. 22. nóvember sl., eru engar athugasemdir gerðar við skipulagstillöguna enda hafi verið tekið tillit til athugasemda stofnunarinnar á fyrri stigum. Vegagerðin vísar til eldri umsagnar í bréfi dags. 11. desember sl. en minnir á að veghelgunarsvæði þjóðvega skal sýnt á uppdráttum og er skv. vegalögum 60 metra breitt (30+30) ef um stofnveg er að ræða eða 30 m. breitt (15+15) er aðra vegi varðar. Í tölvupósti Yrkis arkitekta til Vegagerðar dags. 23. október sl. er málið reifað og uppdráttur Yrkis, dags. 04. desember sl., sýnir með skýrum hætti veghelgun annars vegar Hafnarbyggðar (60 m) og götu neðan Sjóbúðar (15 m). Í bréfi Minjastofnunar, dags. 17. desember sl., skal skv. 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 skráning fornleifa, húsa og mannvirkja fara fram áður en gengið er frá aðal- eða deiliskipulagi. Þessari vinnu er ólokið þar eð lokaskýrsla hefur ekki verið staðfest af Minjastofnun og lýkur vinnu ekki fyrr en með staðfestingu stofnunarinnar. Fram kemur í bréfi Minjastofnunar að henni hafi hvorki borist uppmælingargögn né skráning fornleifa, húsa og mannvirkja fyrir norðurhluta deiliskipulagssvæðisins. Ennfremur er á það bent að ef skörun er á fyrirhugðu verndarsvæði og skipulaginu þarf að huga að því skv. 9. gr. laga um verndarsvæði í byggð að sveitarstjórn skal tryggja að ákvörðun ráðherra um verndarsvæði í byggð endurspeglist í skipulagsáætlunum, öðrum áætlunum og leyfisveitingum sveitarfélagsins. Felur skipulags- og umhverfisnefnd skipulagsfulltrúa að taka tillit til framkominna athugasemda og umsagna og lagfæra gögnin í samræmi við þær áður en skipulagið er auglýst. Samhljóða samþykkt.

 

7. mál: Leiðarhöfn – landamerki. Nýir eigendur Leiðarhafnar hyggja að skógrækt á tilteknum hluta landareignar, sbr. hjálagða loftmynd/uppdrátt Lárusar Heiðarssonar Skógræktinni, móttekinn 19. desember sl. Um er að ræða samningstillögu eigenda og varðar syðsta hluta Leiðarhafnarjarðar. Lagt fram til umsagnar.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur tekið málið fyrir. Fagnar nefndin vilja landeigenda Leiðarhafnar til lausnar á skilum jarða. Ennfremur fagnar nefndin hugmyndum um skógrækt en það er mat hennar að málið sé þess eðlis að verði leyst á borði sveitarstjórnar. Samhljóða samþykkt. Ingólfur Bragi æskir heimildar til að taka frí frá fundum frá og með nk. áramótum til 01. júlí 2019. Sæti hans tekur varamaður og verður boðaður til næsta fundar nefndarinnar. Samþykkt samhljóða.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerðin lesin upp og samhljóða samþykkt – fundi slitið kl. 12:56.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir