Fundur bygginganefndar 05.02.2009

05.02 2009 - Fimmtudagur

Fundur bygginganefndar Vopnafjarðarhrepps
05. febrúar 2009, haldinn í Miklagarði kl. 12.00

Mættir til fundar: Eyjólfur Sigurðsson, Bjarki Björgólfsson, Brynjar Joensen, Ari G. Hallgrímsson, Þorsteinn Halldórsson, Jóhann L. Einarsson og Baldur H. Friðriksson.

Einnig mættir: Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri, og Magnús Már Þorvaldsson, er ritaði fundargerð.

1. mál: Fundargerð skipulags- og bygginganefndar frá 15. desember sl. lögð fram.
Samþykkt samhljóða.

2. mál: Deiliskipulag hafnar- og miðsvæðis – Umsögn HAUST, dags. 11. janúar 2009, umsögn Siglingastofnunar, dags. 19. janúar sl., og Umhverfisstofnunar, dags. 29. janúar sl., um deiliskipulag hafnar- og miðsvæðis Vopnafjarðar. Ennfremur bréf sveitarstjóra, dags. 02. febrúar sl., með tillögu hreppsnefndar v/deiliskipulags.

Sveitarstjóri gerði nánar grein fyrir málinu þar sem umsagna HAUST, Umhverfis- og Skipulagsstofnunar var óskað. Las ennfremur samþykkt hreppsnefndar af fundi hennar þann 29. janúar sl. Sú tillaga síðan samhljóða samþykkt.

3. mál: Norðausturvegur til Vopnafjarðar – Ákvörðun Skipulagsstofnunar varðandi breytingu á efnistöku, sbr. bréf dags. 22. desember 2008.

Sveitarstjóri óskaði eftir að fá að gera nánari grein fyrir málinu þar sem hann vísaði í niðurstöðu Skipulagsstofnunar, sem metur fyrirhugaðar breytingar á efnistöku ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun vekur athygli á að hugsanlega þurfi að gera breytingar á aðalskipulagi hér að lútandi.

Að öðru leyti lagt fram til kynningar.

4. mál: Fiskimjölsverksmiðja HB Granda – Bréf Skipulagsstofnunar v/ákvörðunar um matsskyldu, dags. 30. desember 2008, og annað þar sem óskað er umsagnar sveitarstjórnar, dags. 12. janúar sl., um hvort og á hvaða forsendum framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Sveitarstjóri gerði nánari grein fyrir málinu og lagði fram drög að bréfi sínu, f. h. Vopnafjarðarhrepps, til Skipulagsstofnunar er varðar nýja fiskimjölsverksmiðju HB Granda. Framlagt svofellt bréf samþykkt samhljóða:

05.02.09
Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
150 Reykjavík

Efni: Fiskimjölsverksmiðja HB Granda, Vopnafirði - umsögn


Með bréfi Skipulagsstofnunar frá 12. janúar sl. er óskað umsagnar um matsskyldu fiskimjölsverksmiðju, sem HB Grandi hyggst byggja á Vopnafirði samanber tilkynningu fyrirtækisins frá 8. janúar sl.

Umsagnarinnar er óskað á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 að teknu tilliti til 3. viðauka m.s.b. og 11. gr. reglugerðar 1123/2005.

Um framkvæmd þessa hefur verið fjallað í byggingar- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins og einnig í sveitarstjórn. Þá hafa verði haldnir tveir auglýsir borgarafundir, þar sem greint hefur verið frá áformum fyrirtækisins varðandi byggingu nýrrar fiskimjölsverksmiðju og tengdum byggingum.
Jafnframt hefur ítarlega verið fjallað um þessi mál við afgreiðslu deiliskipulags fyrir hafnar- og miðsvæði Vopnafjarðar. Deiliskipulagið hefur verið auglýst og rann athugasemdafrestur út 5. janúar sl. og höfðu þá engar athugasemdir borist.

Ljóst er að framkvæmdir þessar eru við miðbæ þéttbýlisins í Vopnafirði og munu breyta ásýnd bæjarins töluvert m.a. sökum hæðar mannvirkja, auk þess sem mengunar og ónæðis verður meira vart en ella sökum þessarar staðsetningar verksmiðjunnar.

Á grundvelli ákvæða í 3. viðauka laga nr. 106/2000 hafa byggingar- og skipulagsyfirvöld skoðað framkvæmdir þessar.

Um er að ræða nýja verksmiðju með framleiðslugetu 850 tonn/sólahring í stað eldri verksmiðju með framleiðslugetu 650 tonn/sólahring. Með framkvæmdinni verður eldri verksmiðja lögð af. Ný verksmiðja verður byggð með það í huga að öll mengun hvort heldur er í lofti eða affalli verður lágmörkuð. Í þeim efnum verður unnið eftir stöðlum, sem um slík mál gilda. Af þessum sökum er búist við því að mengun vegna þessarar verksmiðju verði mun minni en af þeirri eldri, þrátt fyrir að hún sé dálítið afkastameiri en sú gamla.

Hæð mannvirkisins og tengdra bygginga er mikil og mun því hafa áhrif á ásýnd bæjarins. Þetta útlit hefur verið kynnt mjög vel í sveitarfélaginu bæði í stjórnkerfinu og á opnum borgarafundum, þar sem sýndar hafa verið þrívíddarmyndir af byggingunum frá ýmsum sjónarhornum.

Í nýsamþykktu deiliskipulagi hafnar- og miðsvæðis á Vopnafirði er fjallað ítarlega um umhverfisáhrif framkvæmda á deiliskipulagssvæðinu. Niðurstaða umhverfismatsins er sú að deiliskipulagstillagan hafi óveruleg neikvæð umhverfisáhrif á vissa umhverfisþætti (ásýnd og náttúrufar) en langvarandi jákvæð áhrif á aðra, s.s. heilsufar, atvinnulíf, óþægindi og umferðaröryggi. Þá munu bættar mengunarvarnir í verksmiðjunni hafa langvarandi jákvæð áhrif á náttúrufar.
Niðurstaða:

Að yfirveguðu máli telja yfirvöld á Vopnafirði að ofangreind framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum enda sé hún í fullu samræmi við ákvæði ný samþykkts deiliskipulags hafnar- og miðsvæðis á Vopnafirði og aðalskipulags Vopnafjarðarhrepps.

Þessu er hér með komið á framfæri.

Með bestu kveðjum,

____________________________
Þorsteinn Steinsson,
sveitarstjóri,
VopnafirðiFleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 13.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir