Fundargerð bygginganefndar 22. ágúst 2011

23.08 2011 - Þriðjudagur

Fundur skipulags- og bygginganefndar Vopnafjarðarhrepps

 

Haldinn í félagsheimilinu Miklagarði kl. 12:00 mánudaginn 22. ágúst 2011

 

Mættir til fundar: Ingólfur B. Arason, Jóhann L. Einarsson, Baldur Kjartansson, Hilmar Jósefsson, Þráinn Hjálmarsson, Árni Magnússon og Baldur H. Friðriksson.

 

Einnig mættir til fundar: Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri, og Magnús Már Þorvaldsson, sem ritaði fundargerð.

 

 

Dagskrá:

 

1. mál. Fundargerð byggingar- og skipulagsnefndar frá 11. apríl sl. lögð fram.

 

Samþykkt samhljóða.

 

2. mál. Tillaga að breytingu á aðalskipulagi.- Athugasemdir –

 

Lagt fram bréf Umhverfisstofnunar frá 11. júlí sl., varðandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi Vopnafjarðarhrepps 2006-2026 í tengslum við vegtengingu inn í þéttbýlið. Jafnframt lögð fram athugasemd við breytingartillögu fyrir aðalskipulagið vegna breyttrar legu Norðausturvegar inn í þéttbýlið. Athugasemdirnar eru gerðar af Tryggva Aðalbjörnssyni, Svövu Birnu Stefánsdóttur og Karin Bach, sett fram í fjórum töluliðum.

 

Farið var yfir fyrirliggjandi gögn, þar sem fundarmenn lýstu sjónarmiðum sínum. Farið í gegnum ath.semdirnar lið fyrir lið og lögð í framhaldi fram svofelld tillaga að svari skipulagsnefndar við fyrirliggjandi athugasemdum.

 

„Skipulagsnefnd Vopnafjarðarhrepps fjallaði á fundi sínum 22. ágúst 2011 um athugasemdir vegna auglýstrar tillögu að breytingu á aðalskipulagi Vopnafjarðarhrepps 2006-2026,  Norðausturvegur – breytt lega og ný tenging við þéttbýlið í Vopnafirði, sem auglýst var ásamt umhverfisskýrslu skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með athugasemdafresti frá 27. maí 2011 til 08. júlí 2011.

Ein athugasemd barst frá Tryggva Aðalbjörnssyni, Svövu Birnu Stefánsdóttur og Karin Bach, dags 06. júlí 2011.

 

Athugasemdinni er skipt í fjóra liði.

 

Athugasemd:

1.         Stórum hluta vegarins verður beint inn á votlendi þar sem fyrirfinnst fjölskrúðugt lífríki, þrátt fyrir að mikil þurr svæði sé að finna allt um kring.

 

Skipulagsnefnd gerir sér grein fyrir að votlendi er mikilvægt búsvæði margra dýra- og gróðurtegunda og því skal ekki raska að óþörfu.

Tillaga að legu nýrrar veglínu er vandlega ákvörðuð í nánu samráði við veghönnuði Vegagerðarinnar og stjórnast hún af þáttum á borð við umferðaröryggi og mat og verndun á umhverfisþáttum samanber tilkynning vegna umhverfismats dags. 01.10.2010 og umhverfisskýrslu breytingar þessarar.

Gert er ráð fyrir að það votlendi sem raskast verði endurheimt á aðliggjandi svæðum, gömlu mýrlendi sem hefur verið framræst á fyrri tímum. Skipulagsnefnd telur að þær mótvægisaðgerðir sem aðalskipulagsbreytingin gerir ráð fyrir séu fullnægjandi og bendir í því sambandi á að í umsögn Umhverfisstofnunar við breytingu þessa dags 11.07.2011. Þar kemur fram að UST telji áætlanir skipulagsins um endurheimt votlendis á aðliggjandi svæðum samræmist stefnu stjórnvalda og séu því fullnægjandi.

 

Athugasemd:

2.         Veglína B mun liggja miklu nær íbúðabyggð en núgildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir; með meðfylgjandi ónæði fyrir íbúa í ystu og efstu byggðum kauptúnsins.

 

Skipulagsnefnd þakkar ábendingu um hljóðvist. Skipulagsnefnd bendir á að breytingin er unnin í samráði við og samkvæmt tillögu veghönnunarsérfræðinga Vegagerðarinnar. Nefndin telur ekki að breytingin sé svo umfangsmikil að um verulega aukin neikvæð áhrif verði að ræða en mun fylgja því eftir að við nákvæma útfærslu vegarins verði gætt sérstaklega að hljóðvist m.a. með tilliti til mörkunar umferðarhraða.

Við vinnslu deiliskipulags af framtíðar byggingarlandi Vopnafjarðar verði samhliða unnin hljóðgreining til að lágmarka neikvæð áhrif vegarins á byggð og íbúa.

 

Athugasemd:

3.         Hringtorg við kirkjugarð hefur verið tekið út af skipulagi; því má gera ráð fyrir hraðari umferð framhjá kirkjugarðinum og um leið enn meiri hávaðamengun fyrir íbúa yst á Fagrahjalla og frekara raski á friðhelgi kirkjugarðsins en annars hefði orðið.

 

Skipulagsnefnd bendir á að í skipulagsbreytingunni er gert ráð fyrir hringtorgi við gatnamót Norðausturvegar og að vegurinn þaðan að kirkjugarði er ráðgerður með 50 km hraðatakmörkun. Með þessari aðgerð er talið að neikvæð áhrif vegna umferðarhraða og hávaða verði mun minni en í núverandi skipulagi, við kirkjugarð og á Fagrahjalla. Vegna framangreinds er ekki talin þörf á hringtorgi við kirkjugarðinn. Auk þess leiddi frumhönnun í ljós að vegna væntanlegrar hæðarlegu vegarins og hliðarhalla hans  mun hringtorg verða líklegt til að rýra ásýnd að kirkjugarði og Íshústjörninni sem mun verða endurheimt samhliða framkvæmdum við veginn. Aðkoma og umgjörð hvoru tveggja verði samhliða bætt.

 

Athugasemd:

4.         Ekki er tiltekið í fyrirliggjandi gögnum að gert sér ráð fyrir hraðahindrunum þar sem nýr vegur tengist Hafnarbyggð þó að tillagan geri ráð fyrir brattri og nokkuð beinni aðkomu inn í þéttbýlið; aðkoman verður óöruggari fyrir vikið, bæði fyrir íbúa Hafnarbyggðar og vegfarendur í götunni.

 

Skipulagsnefnd bendir á að í skipulagsbreytingunni er gert ráð fyrir hringtorgi við gatnamót Norðausturvegar og að vegurinn þaðan að Hafnarbyggð er ráðgerður með 50 km hraðatakmörkun. Vegurinn er hannaður samkvæmt stöðlum Vegagerðarinnar sem hámarka langhalla vegar við 8%. Ekki er talin þörf á frekari hraðatakmarkandi útfærslum að mati Vegagerðarinnar.

Skipulagsnefnd er sammála því að komi í ljós þörf fyrir frekari takmörkun umferðarhraða á vegkaflanum verði því mætt með hraðatakmarkandi aðgerðum s.s. umferðareftirliti og/eða hraðahindrun. Rétt kann að vera að hraðahindrun verði sett upp strax og samþykkir nefndin að beina því til Vegagerðarinnar að við endanlega hönnun innkomu í sveitarfélagið verði þetta atriði sérstaklega skoðað.“

 

Eftir umræður um fyrirliggjandi tillögu að svari var hún síðan samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

 

3. mál. Frumhugmyndir að nýju deiliskipulagi á haugasvæði.

 

Lagðar fram frumhugmyndir að deiliskipulagi haugasvæðis. Gerð var nánari grein fyrir helstu hugmyndum í vinnu deiliskipulagsins.

Skipulags- og bygginganefnd mælir með því að áfram verði unnið að deiliskipulaginu svo sem kynnt var.

 

4. mál. Svar við bréfi Umhverfisráðuneytisins frá 22. júní sl., varðandi undanþágu frá gassöfnun.

 

Lagt fram bréf Vopnafjarðarhrepps frá 4. júlí sl., sem er svar við bréfi Umhverfisstofnunar frá 22. júní sl., varðandi gassöfnun á urðunarsvæði Vopnafjarðarhrepps. Lagt fram til kynningar.

 

5. mál. Bréf Umhverfisstofnunar dags. 20. maí sl., varðandi vegslóða í Fossdal.

 

Lagt fram til kynningar og viðkomandi bent á að leggja fram formlega umsókn til skipulags- og bygginganefndar.

 

6. mál. Bréf Sláturfélags Vopnfirðinga h/f frá 17. ágúst sl., varðandi staðsetningu á sviðaaðstöðu fyrirtækisins o.fl.

 

Skipulags- og bygginganefnd gerir ekki athugasemd við staðsetninguna fyrir sitt leyti og samþykkir stöðuleyfi til eins árs enda liggi fyrir samþykki nágranna og tilskilin önnur leyfi. Ítrekað er enn á ný að framtíðarlausn finnist.

 

7. mál. Veiðihús við Selá, breyting.

 

Skipulags- og bygginganefnd samþykkir erindið samhljóða.

 

 

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 13:30.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir