Fundargerð ferlinefndar 12. apríl 2011

15.04 2011 - Föstudagur

Fundur ferlinefndar Vopnafjarðarhrepps

12. apríl 2011 í Kaupvangi kl. 12

Mætt til fundar: Marie Therese Robin, Ingólfur Sveinsson og Hrund Snorradóttir er ritaði fundargerð.

1. mál:            Skábraut við Hafnarbyggð 4. Samkvæmt teikningu á breytingum við Hafnarbyggð 4 vegna uppsetningar á Vínbúð í austasta hluta hússins er skábraut meðfram húsveggnum sem liggur meðfram bílastæðum verslunarinnar.

Ferlinefnd ályktar að betri kostur sé að nota þá skábraut sem fyrir er við suðvesturhlið Hafnarbyggðar 4 og byggja hallalausa göngustétt frá núverandi stétt við inngang í Verslunina Kauptún og að Vínbúð. Myndi sú tilhögun auðvelda til muna aðgengi þeirra einstaklinga sem nýta sömu ferð til að versla bæði í Kauptúni og Vínbúð, sem gera má ráð fyrir að margir geri, auk þess sem bílastæði sem frátekið er fyrir fatlaða er við fyrrnefnda skábraut.

Ferlinefnd lýsir ánægju sinni með sjálfvirka rennihurð í Vínbúðinni og hvetur til þess að sjálfvirkur búnaður sé einnig settur við inngang í verslunina Kauptún og þröskuldar við inngang lækkaðir til að bæta aðgengi að versluninni.

 

2. mál:            Aðgengi í veiðihóteli í Selárdal. Sú jákvæða þróun hefur átt sér stað að sífellt fleiri fatlaðir og einstaklingar með skerta hreyfigetu láta þær hamlanir ekki stoppa sig í að njóta útivistar og fara til dæmis í veiði, og má þá til dæmis benda á 1.tbl. Sportveiðiblaðsins árg.2010. Ferlinefnd óskar eftir að framkvæmdaraðilar við veiðihótel í Selárdal geri grein fyrir hvort gert hafi verið ráð fyrir aðgengi fyrir fatlaða á veiðihótelinu, svo sem aðkomu, aðstæður í almennu rými og hvort eitthvert herbergjanna og baðherbergja verði sérútbúið fyrir fatlaða.

 

3. mál:            Gangstéttir á Vopnafirði. Ferlinefnd hvetur til að gangstéttir Vopnafjarðarhrepps verði lagfærðar með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða. Meðfylgjandi fundargerð þessari eru tvær ljósmyndir af vel gerðum fláum og lækkunum á gangstéttum sem nota má sem fyrirmynd af þeim lagfæringum sem um ræðir. Einnig er meðfylgjandi kort af sveitarfélaginu þar sem merkt er inná hvar lagfæringa er þörf:

Laga enda á gangstéttum:

Við enda Lónabrautar á snúningsplani

Við Austurborg

Við Miklagarð, við aðkomu að og frá bílastæði

Við aðkomu að plani Ollans á Kolbeinsgötu

Við gatnamót Steinholts og Búðaraxlar

Milli Háholts og Þverholts

Við Steinholt 12.

 

Lækka gangstétt við gatnamót til að eðlilegt flæði verði á gönguleið:

Gatnamót Lónabrautar og brekku niður að Fagrahjalla

Gatnamót Fagrahjalla og brekku upp að Lónabraut

Gatnamót Fagrahjalla og Hafnarbyggðar

Gatnamót Miðbrautar/Lónabrautar og Hamrahlíðar

Gatnamót Hamrahlíðar og Holtsgötu

Gatnamót milli Þverholts og Háholts

Tatnamót Kolbeinsgötu og Skálanesgötu.

 

Merkja gangbrautir og lækka gangstéttir sitt hvorum megin við gangbrautir:

Á Lónabraut milli Íþróttahúss og Lónabrautar 21

Á Hafnarbyggð til móts við  Kauptún Hafnarbyggð 4

Á Kolbeinsgötu milli Kolbeinsgötu 6 og Kolbeinsgötu3

Á Holtsgötu milli Kolbeinsgötu 6 og Miklagarðs

Á Hamrahlíð milli Holtsgötu 1 og Hamrahlíðar 30.

 

Lagfæringa er þörf á eftirfarandi gangstéttum:

Niður “Kaupfélagshallann” frá Kolbeinsgötu til Hafnarbyggðar, báðum megin akbrautar

Við gatnamót Hamrahlíðar og Miðbrautar/Lónabrautar

Við Leikskólann Brekkubæ á Lónabraut.

 

Ferlinefnd telur eðlilegast miðað við aðstæður að leggja áherslu á að bæta aðgengi fyrir fatlaða milli Hamrahlíðar og Vopnafjarðarskóla á Lónabraut við og að sú leið verði sett í forgang hjá áhaldahúsi Vopnafjarðar.

Einnig bendir Ferlinefnd sérstaklega á að bæta bílastæði við Jónsver og við bakdyr að Miklagarði, en gert er ráð fyrir aðgengi fyrir fatlaða að Miklagarði um þær bakdyr.

 

4. mál:            Aðgengi að verslunar og þjónustustöðum í eigu einkaaðila. Ferlinefnd ákvað að senda bréf til eigenda verslunarhúsnæðis á Vopnafirði þar sem bæta þarf aðgengi fyrir fatlaða og hvetja til þeirra framkvæmda. Um er að ræða skábraut og lægri þröskuld við verslunina Anný á Miðbraut og handrið á skábraut við Ollann á Kolbeinsgötu.

 Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 12:50
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir