Fundargerð sveitarstjórnar 11.desember 2019

11.12 2019 - Miðvikudagur


Fundur nr. 33 kjörtímabilið 2018-2022


Fundur haldinn í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 11.desember 2019 í félagsheimilinu Miklagarði kl 14:00.

Mætt til fundar: Íris Grímsdóttir, Björn Heiðar Sigurbjörnsson, Sigríður Elva Konráðsdóttir, Bárður Jónasson, Teitur Helgason, Þuríður Björg Wiium Árnadóttir og Sigríður Bragadóttir.

Einnig sátu fundinn Sara Elísabet Svansdóttir, Baldur Kjartansson og Þór Steinarsson, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

1. Fundargerðir
a. Hreppsráð 21.11
Lagt fram.
b. Hreppsráð 5.12
Lagt fram.
c. Skipulags- og umhverfisnefnd 4.12
Lagt fram. Liðum 3 og 4 vísað til næsta sveitarstjórnarfundar. Sveitarstjórn tekur undir umsögn nefndarinnar um að lýsingin aðalskipulags verði kláruð á þeim forsendum sem fram koma í drögunum.
d. Fræðslunefnd 5.12
Lagt fram. Sveitarstjórn óskar eftir að skrifstofustjóri hitti formann nefndarinnar og deildarstjóra og leiti samráðs vegna námsstyrkja.
e. 876.fundur sambands íslenskra sveitarfélaga
Lagt fram.
f. Landbúnaðarnefnd 9.12
Lagt fram.
2. Almenn mál
a. Starfsaldursviðurkenningar – verklagsregla.
Sveitastjórn samþykkir framlagðar reglur um starfsaldursviðurkenningar og taka þær gildi frá og með 1. janúar 2020. Samþykkt samhljóða.
b. Lausn frá störfum, Stefán Grímur Rafnsson
Ósk um lausn frá setu í sveitarstjórn og nefndum vegna búferlaflutninga. Sveitarstjórn þakkar Stefáni vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar í störfum sínum á nýjum vettvangi. Varamenn munu taka sæti Stefáns í nefndum og starfshópum á vegum sveitarfélagsins eins og við á og verður þeim tilkynnt um það. Sæti aðalmanns tekur Teitur Helgason og sæti fyrsta varamanns Ð-listans tekur Ragna Lind Guðmundsdóttir.
c. Vindorkumál
Lagt til að sent verði inn erindi til Orkustofnunar vegna fjórða áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar um að sunnanverð Sandvíkurheiði verði tekin til skoðunar sem virkjunarkostur fyrir vindorkuver. Landeigendur sem um ræðir hafa verið upplýstir um fyrirhugaða umsókn. Samþykkt samhljóða.
d. Fjárhagsáætlun 2020 – seinni umræða
Fjárhagsáætlun ársins 2020 og 2021-2023 lögð fram til seinni umræðu. Útsvarshlutfall breytist ekki á milli ára og eru heimildir áfram fullnýttar til að standa undir rekstri og afborgunum lána í A hluta. Álagningarprósenta útsvars á árinu 2020 verður því 14.52%. Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði og bújarðir verður 0,55% af heildarfasteignamati. Fasteignaskattur á sjúkrastofnanir, skóla, leikskóla, íþróttahús og bókasöfn verður 1,32% af heildarfasteignamati. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði og annað húsnæði verður 1,65% af heildarfasteignamati. Vatnsgjald verður áfram 0,3% af fasteignamati húss, holræsagjald 0,32% af heildarfasteignamati. Lóðaleiga verður áfram 2% af fasteignamati allra lóða á Vopnafirði. Afsláttur elli- og örorkulífeyrisþega á fasteignasköttum verður óbreyttur frá árinu 2019. Tekjuviðmið taka ekki breytingum. Sorphirðugjald skv. lögum nr. 81/1988 verður 28.936 kr. sem skiptist í Sorphirðu- og sorpeyðingargjald sem hvort um sig er 14.468 kr. Einnig lagðar fram gjaldskrár Vopnafjarðarhafnar, gatnagerðargjöld og gjaldskrá vegna byggingarmála og skipulagsmála, sorpgjaldskrá, gjaldskrár vatnsveitu, þjónustumiðstöðvar, Vopnafjarðarskóla, tónlistarskóla, Sundlaugarinnar Selárdal, Sundabúð, leikskólann Brekkubæ, íþróttahús, félagsheimilið Mikligarð, bókasafn, fráveitu og gjaldskrá fyrir katta- og hundahald.

Í fjárhagsáætlun 2020 eru áætlaðar heildartekjur 1.130.456.000 kr. Áætluð rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um 6,2 m.kr. og rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta er jákvæð um 32 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 56 m.kr. Gert er ráð fyrir nýrri lántöku á árinu 2020 að fjárhæð 160 m.kr. Í áætlun fyrir árin 2021, 2022 og 2023 er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu A hluta og samstæðu A og B hluta öll árin. Áætluð upphæð til fjárfestingar er 176,1 m.kr. Þar ber helst að nefna að byggðar verða félagslegar íbúðir fyrir 155 mkr. Ráðist verður í byggingu sex félagslegra íbúða í þremur húsum á árinu. Er það m.a. gert með stofnframlagi frá ríkinu upp á 37,5 millj. kr. Eigið framlag sveitarfélagsins, utan niðurfellingar gjalda, eru 18.2 millj. kr. Afgangurinn er fjármagnaður með láni frá Lánasjóði Sveitarfélaga. Í Æskulýðs- og íþróttamálum er Vallarhús við íþróttavöll ennþá stærsti framkvæmdarliðurinn. Einnig er áætlað 4,5 mkr í framkvæmdir við búningsklefa sundlaugar. Einnig er gert ráð fyrir að klára strandblakvöll og frisbígolfvöll á árinu. Tveimur millj. kr. verður ráðstafað í framkvæmdir við fráveitu í Skálanesvík, annar kostnaður vegna verkefnisins, alls 8 millj. kr. féll til á árinu sem er að líða. Loks verður 16 millj. kr. varið í framkvæmdir við íbúðir eldri borgara í Sundabúð.

Samþykkt með atkvæðum meirihluta. Minnihluti situr hjá.

e. Fundardagskrá vorannar 2020

Lagt til að hreppsráð hittist í fyrsta sinn á nýju ári þann 9. janúar og sveitarstjórn þann 23. janúar og á þeim fundi verði lögð fram fundardagskrá fyrir árið.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin og borin upp til samþykktar, hún samhljóða samþykkt og fundi slitið kl.15:10.

Fundargögn
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir