Fundargerð menningarmálanefndar 09. október 2008

09.10 2008 - Fimmtudagur

Fundur menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps
-09. október 2008

Fimmtudaginn 09. september 2008 kl. 18:30 kom menningarmálanefnd saman til fundar á Hótel Tanga en nefndin hafði, líkt og sl. ár, tekið hvíld frá fundum um liðlega 2ja mánaða skeið að afloknum Vfjdögum. Fundurinn var merkilegur fyrir þær sakir að hann var síðasti fundur G. Ingu Geirsdóttur, sem innan skamms flytur frá Vopnafirði. Var Inga sérstaklega boðin velkomin til fundar.

Dagskrá fundar:

1. Þjóðleikur. Formaður kynnti þetta merkilega verkefni, sem Menningarráð Austurlands leiðir í samvinnu við Þjóðleikhúsið en 20 krakkar héðan hafa sýnt því áhuga að taka þátt. Í stuttu máli snýst Þjóðleikur um þátttöku ungmenna af Austurlandi öllu í leikverkum sem beinlínis hafa verið skrifuð í þessum tilgangi. Hver hópur ræður til sín leikstjóra og vinnur úr efniviðnum á eigin forsendum og það er einmitt svo spennandi við afurðina að þegar komið verður saman á Egilsstöðum á nýári sýna hóparnir verk sín, túlkað hvert með sínum hætti. Fer verkefnið af stað í nóvember um Austurlandið allt, Reynir Gunnarsson hefur þekkst boð að vera með í verkefninu og Ása Sigurðardóttir hefur aukinheldur sýnt því áhuga eftir því sem tími hennar leyfir. Afar spennandi verkefni, Þjóðleikur.

2. Þorsteinskvöld Valdimarssonar. Hinn 31. október n. k. er 90asta árstíð Þorsteins og er vilji til að minnast hans með menningarkvöldi á tímamótum. Dagur hefur verið valinn, 30. okt., og liggur fyrir hugmynd að dagskrá, gróflega. Þorsteinn Bergsson mun ásamt Ágústu móður sinni leggja kvöldinu til efnivið; mun Þorsteinn túlka ljóð nafna síns í söng og lestri, lesa upp úr eigin ljóðabók en þau mæðginin munu saman halda utan um fyrri hluta dagskrár. Menningarmálanefndarfólk mun koma að seinni hlutanum þar sem skáldið er nánar kynnt, lesin sendibréf og farið með limrur en ÞV var sá sem kynnti þær fyrir íslenskri þjóð. Flltr. í menn.m.n. út og suður þennan mánuðinn en munu vanda til verks og gera kvöldið eftirminnilegt. Magnús annast undirbúning.

3. Tenórinn. Guðmundur Ólafsson er hingað mættur með meistarastykki sitt, Tenórinn, ásamt Sigursveini píanóleikara/leikara. Samþykkt að bjóða þeim upp á súpu og fisk á Hótel Tanga fyrir tónleika en Magnús hefur að venju sent út dreifibréf en um er að ræða viðburð sem telja verður með þeim athyglisverðari sem Vopnfirðingum býðst. Athuga að lagfæra þarf dreifibréf er fór út í morgun og varðar þátttöku Vopnafjarðardeild RKÍ í miðaverði.

4. Tónlistarsjóður. Umsóknarfrestur til 03. nóvember, höfum við eitthvað fram að leggja? Magnús hefur áður reynt að sækja um í sjóðinn varðandi tónsmiðjuna en það má reyna aftur og á m. t. t. þessa verkefnis.

5. Bókmenntakynning. Halldóra á Skriðuklaustri hefur haft samband viðvíkjandi bókmennta-kynningu fyrir jólin líkt og tíðkast hefur um árabil, með samvinnu við Klaustur o. fl. Miðað við stöðu fjármála menningarmála verður ekki af kynningu nema forlögin sjálf leggi út fyrir kostnaðinum, ekki verjandi að fara út í frekari útgjöld eins og árferðið er.

6. Viðburðadagatal. Sr. Stefán Már vill að skoðað verði með gerð viðburðadagatals svo komist verði hjá árekstrum, sem ætti að vera fremur einfalt mál því árið er langt og viðburðir t. t. l. fáir. Engu að síður hefur slíkt hent sig, viðburðir hafa rekist á, og sjálfsagt að skoða en Markaðsstofa Austurlands hefur um árabil gefið út slíka skrá á fjórðungsvísu. Mun hafa verið til umræðu í íþrótta- og æskulýðsnefnd og sjálfsagt að hún fylgi málinu eftir – og ljúki því.

7. Fjármál menningarmála. Inga, fráfarandi gjaldkeri nefndarinnar, lagði fram gögn um stöðu fjármála en framundan eru breyttir tímar þar sem minna verður úr að moða - verður menningarmálanefndin að vinna skv. því. Styrkir á árinu hljóða 4.320 þús., innkoma viðburða skilaði 989 þús. og skv. gjaldkera á nefndin enn inni fjármuni hjá svfél. en á móti kemur að í gegnum hefti svfél. hafa verið greiddar upphæðir sem nefndin hefur stofnað til. Nefndarmenn eru sammála að brýnt sé að keypt verði fullkomið hljóðkerfi fyrir Miklagarð en leiga á slíku kostar nefndina/svfél. hundruð þúsunda ár hvert og kerfið myndi borga sig upp á u. þ. b. 3 árum. Velt upp hvort nýta megi hluta 800 þús. framlags Menningarráðs - síðasta greiðsla vegna íslenskuverkefnis – í Þorteinskvöld Valdimarssonar, sem sannarlega tekur til hinnar íslensku tungu. Magnús ræði við Signý sem og skilagrein v/menningarverkefna ársins.

8. Inga kvödd. Fulltrúar í menningarmálanefnd þökkuðu Ingu samfylgdina sl. ár og framúrskarandi vinnu hennar í þágu menningarmála samfélagsins Vopnfirska. Að fundi loknum var snæddur kvöldverður að hætti Borghildar og mæltist sérlega vel fyrir.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:30.

Mætt til fundar: Sigríður Dóra Sverrisdóttir, Hrafnhildur Helgadóttir, G. Inga Geirsdóttir, Guðrún Anna Guðnadóttir, Ólafur B. Valgeirsson og Magnús Már Þorvaldsson, er tók ofangreint saman.Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir