Fundargerð menningarmálanefndar 26. júlí 2008

26.07 2008 - Laugardagur

Fundur menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps
-26. júlí 2008

Laugardaginn 26. júlí 2008 kl. 09:00 kom menningarmálanefnd saman til fundar á skrifstofu Vopnafjarðarhrepps.

Nefndarfólk mætti til fundar í glöðu skapi enda gærkvöldið eitt hið eftirminnilegasta um árabil. Farið í gegnum dagskrá gærdagsins. Ekkert varð af fjórhjólakeppninni þar eð þátttakan var því sem næst engin – og sjálfgert að hætta við. Að öðru leyti gekk allt að óskum og breytti engu þó veðrið léki ekki við okkur, er á daginn leið kólnaði verulega og í röku loftinu var kalt. Breytti vissulega einhverju en með framlagi Halla og Góa var Sandvíkurdagurinn einn sá albesti frá öndverðu, þetta eru náttúrulega snillingar! Halli hélt um flautuna meðan Gói lýsti því sem fram fór og slógu í gegn. Dæmdu þeir auk heldur listaveerkin ásamt Magnúsi.

Fjölskylduskemmtunin tókst framar björtustu vonum má staðhæfa, hreint magnað kvöld með glæstri framgöngu okkar fólks, troðfullt var út úr dyrum. Það sem boðið var upp á kl. 23, Leikhúsbandið með þá Halla og Góa í fararbroddi tekur velflestu fram sem hingað til hefur verið boðið upp á, verður erfitt að toppa snilldina hvorki meira né minna. Nefndarmenn greindi á um fyrirkomulagið að heimila unghjörtum að vera með fram að miðnætti en engin vandkvæði áttu sér stað og sá sem þetta ritar sér ekkert því til fyrirstöðu að verði heimilað áfram.

Magnús greindi frá vandræðagangi á Siggu Beinteins og hljómsveit viðvíkjandi kerfi og hljóðfæri en leyst í gegnum hljóðkerfisleiguna og með láni á hljóðfærum hjá góðu fólki. Greint frá samtali við Ingvar Jóel varðandi framkvæmd kraftakeppni hans í dag.

Vikið að framkvæmdinni í dag, sviðsvagninn settur upp neðra og sviðið notað undir gesti. Hoppkastalar fara niður eftir að fundi loknum og verða blásnir upp ½ tíma fyrir skemmtunina, ekki fyrr vegna mögulegrar bleytu.

Magnús varð síðan að rjúka af fundi þar sem hans biðu verkefni ásamt Hilmari bæjarverkstjóra en framundan er uppsetning sviðs með tilheyrandi vinnu við það, s. s. vörubretti v/aðkomu, uppsetning loftkastala, aðstoð við flutning hljóðkerfis o. fl. Í nógu að snúast að vanda.

Síðan voru málin rædd um þessa hátíð og ýmislegt annað sem ekki var fært til bókar – Magnús hleður inn fréttir og myndir frá viðburðum nánast um leið og þeir gerast sem fyrr!

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 10:15.

Mætt til fundar: Sigríður Dóra Sverrisdóttir, Hrafnhildur Helgadóttir, G. Inga Geirsdóttir, Dagný S. Sigurjónsdóttir og Magnús Már Þorvaldsson, er tók ofangreint saman.Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir