Menningarmálanefnd 15.02.02006

15.02 2006 - Miðvikudagur

Fundur menningarmála- og bókasafnsnefndar
Vopnafjarðarhrepps
-15. febrúar 2006


Miðvikudaginn 15. febrúar 2006 kl. 16.00 kom menningarmála- og bókasafnsnefnd saman til fundar í félagsheimilinu Miklagarði. Lágu fyrir fundi nokkur mál er Magnús Már lagði fyrir fundinn:

1. Kristín Mjöll Jakobsdóttir – tónleikar á vegum FÍT/FÍH
Lagt fram erindi frá Kristínu Mjöll, f. h. félaganna, varðandi tónleika listafólks en velja má milli 9 tónleika – frá einleikstónleikum upp í sextett. Kostnaður frá 35.000 upp í 80.000 kr. fyrir einleiks- og sextetttónleika – ferða- og uppihaldskostnaður greiðist af samstarfsaðila FÍT/FÍH, þ. e. sveitarfélaginu. Styrkja er leitað í menningarsjóð félagsheimila varðandi ferðakostnaðinn.

Að lokinni umræðu var ákveðið að starfsmaður skoði 2 möguleika: Dúótónleika Örnu Kr. Einarsdóttur, þverflauta, og Elísabetar Waage, harpa annarsvegar, kvintetttónleika með m. a. Tómasi R. Einarssyni bassaleikara hinsvegar.

2. Albert Eiríksson – tónleikar með 4 listamönnum.
Lagt fram erindi frá Albert Eiríkssyni viðvíkjandi tónleika með Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur, Bergþóri Pálssyni, Sigrúnu Eðvaldsdóttur og Kjartani Valdimarssyni. Meðal efnis eru lög Edith Piaf og Vopnfirðingsins Björgvins Guðmundssonar.

Vel í erindi Alberts tekið og lagt til að Magnús ræði nánar við Albert um að fá skemmtunina hingað með þeim fyrirvara að styrkir fáist til framkvæmdarinnar. Miðað við upplegg Alberts myndi skemmtunin geta fallið ágætlega að dagskrá Vopnafjarðardaga, fim.dag. 27. júlí er tillaga Alberts.

3. Hallveig Thorlacius – Egla í nýjum spegli
Stefnt er að komu Hallveigar með Sögusvuntuna í viku 10., 09. eða 10. mars, sbr. samtal M. Más og Hallveigar þann 02. feb. sl. Hallveig er að ferðast um landið og sýnir í tengslum við grunnskólana, elstu krakkar leikskólans geta notið sýningarinnar. Ákveðið að Magnús vinni að málinu og þá í samvinnu við skólann.

4. Baggalútur
Magnús hefur átt samskipti við félaga í hópi Baggalúts, þeir vilja gjarnan koma hingað og skemmta en sem kunnugt er hafa þessir sprelligosar upp á margt að bjóða.

Vel var í hugmyndina tekið, spurning í hvaða mynd þeir myndu koma og hvar hægt er að staðsetja þá á almanaksárinu.. Verði þeir á Vopnafjarðardögum skemmta þeir á föstudags- eða laugardagskvöld – fjölskyldutónleikar. Samþykkt að skoða nánar en hafa verður í huga hvað annað er verið að bjóða upp á þá daga sem bæjarhátíðin stendur yfir. Málið heldur ekki einfalt fyrir meðlimi Baggalúts þar sem liðsmenn hans koma við sögu í mýmörgum sveitum eins og Pöpum og Hjálmum.

5. Signý Ormarsdóttir menningarflltr. ¼-ungsins
Minnt á viðveru menningarfulltrúa á Vopnafirði þriðjudaginn 21. febrúar n. k. milli kl. 14.00-17.00 á hreppsskrifstofu. Þar gefst þeim Vopnfirðingum sem kunna að hafa hugmyndir, sem erindi eiga fyrir stjórn Menningarráðs Austurlands, að ræða við Signý. Umsóknarfrestur rennur út þann 28. febrúar n. k.

Nokkur umræða átti sér stað um möguleg verkefni hér að lútandi og var samþykkt að Magnús og Sigríður Dóra setjist yfir málin. Ólafur vakti athygli á verkefni sem Vesturfarinn hafi hafnað að taka að sér, merking á söguminjum í sveitarfélaginu. Í umræðu hér að lútandi taldi formaður hættu á að ef sótt yrði um kynni það að skaða umsóknir menningarmálanefndar eins og verið hefur í tengslum við umsóknir sv.fél. varðandi fél.heim. Miklagarð.

Skv. 3. grein, 3. tl., í úthlutunarreglum MA segir m. a.: Menningartengd ferðaþjónusta, m. a. verða veittir allt að þrír styrkir til merkinga á menningarminjum. Með framangreint í huga á umsókn hér að lútandi engin áhrif að hafa á umsóknir menningarmálanefndar, með eða án þátttöku hennar. Ákveðið að Ólafur, f. h. Ferðamálafélags Vopnafjarðar, skoði nánar og geri það í samvinnu við Magnús.

MA hefur smám saman verið að breyta úthlutunarreglum sínum þannig að bæjarhátíðir fá ekki styrki lengur en svo virðist sem ekkert hindri að dagskrárliðir sem staðsettir eru á þeim geti fengið styrk, enda standi þeir einir og sér. Meira er lagt upp úr samvinnu milli staða og að sýnt sé fram á aðra fjárhagslega bakhjarla en MA. Ennfremur ber aðilum að senda inn lokaskýrslu um framkvæmd styrkhæfra verkefna fyrra árs, það hefur menn.m.n. Vfjhr. gert sl. ár.

6. Verkefnahugmyndir.
Sigríður Dóra kynnti hugmynd er kalla má “Leikhússport” þar sem 3-4 valdir hópar keppa á sviði frammi fyrir dómnefnd fyrirfram ákveðið leikrit, annað hvort hið sama eða valið í samvinnu við dómnefnd. Verkefnið er heppilegt í samstarfi við aðra, sérverkefni og ekki bundið bæjarhátíð. Féll hugmyndin nefndarfólki vel í geð en þó hún sé allflólkin í framkvæmd vel þess virði að skoðast nánar. Vel framsett umsókn, eins og þær hafa verið frá hendi nefndarinnar sl. ár, ætti að skila fjármunum til þessarar.

Önnur frá formanni er í anda “Orð skulu standa” Karls Th. Birgissonar á Rás eitt og notið vinsælda þeirra er hlýða á menningarrásina. Hugmyndin gengur út á keppni meðal 10. bekkinga í grunnskólum fjórðungsins. Gengur nefndur þáttur Karls út á að hann leggur fram ýmis orð og orðtök sem þátttakendum er gert að skýra; í okkar tilfelli myndi Karl setja saman spurningar er byggja á námsefni krakkanna og myndu 2 skólar hverju sinni etja kappi - útsláttarform eins og í “Gettu betur” o. fl. Leitað verður samstarfs við alla grunnskólana, RÚV, menntamálaráðuneytið og eins MS viðvíkjandi einkunnarorðið “Íslenskan er okkar mál”.

Nefndarfólk jákvætt til hugmyndarinnar og stefnt að því að vinna áfram að hugmyndinni, Sigríður Dóra og Magnús.

Þriðja framkomna hugmyndin er leiklestur Vopnfirðingasögu, miðað við júní eins og á sl. ári en þá tókst einstaklega vel til sem kunnugt er. Vinna þarf handrit upp úr sögunni en sagan er t. t. l. stutt og þannig meðfærileg til þess arna. Magnús minnir á að Jón Múla og Jónasi megi aldrei gleyma og verður unnið að því að finna þeim andans bræðrum vettvang þetta sumar – á ekkert ár að líða án þess að þeir komi við sögu.

Ýmislegt fleira rætt en ákveðið að Magnús og Sigríður Dóra vinni úr nefndum hugmyndum og nýjum fæðist þær áður en umsóknarfrestur til MA rennur út.

7. Önnur mál.
Sigríður Dóra kvaðst hafa verið í henni Reykjavík í sl. viku og átt þar m. a. fund með Eggerti forstjóra HB Granda. Hafi markmið fundarsetunnar verið að fá hærri upphæð frá hendi fyrirtækisins til menningarmála. Það hefur um tíma verið á dagskrá sveitarfélagsins að æskja fundar með fyrirmönnum fyrirtækisins í þessum tilgangi sem og varðandi Ungm.fél. Einherja. Hvað um það þá fór Sigríður fram á að HB Grandi legði menningarmálunum til 500 þúsund/ár og er svars að vænta á næstu vikum.

Norðurljós til umræðu en Magnús lýsti því yfir að hann hefði af því áhyggjur að Vopnafjörður glataði tækifæri sínu sem fullgildur þátttakandi í verkefninu verði ekkert aðhafst á staðnum. Hann einn eða sveitarfélagið geta ekki sett upp pakkatilboð eins og allir aðrir staðir hafa gert og tími til athafna enginn að verða.

Ákveðið að Ferðamálafélagið komi að málinu en á sínum tíma lagði félagið fram hugmyndir í tengslum við samstarf Markaðsstofunnar við ferðaskrifstofu í Englandi. Ágústa Þorkelsdóttir hefur lýst yfir vilja til þátttöku en hún hefur í smáum stíl boðið fólki heim og lýsir verkefninu á þennan hátt:

Tveggja tíma heimsókn á bændaheimili: Gengið um gripahús og nánasta nágrenni. Kynnst störfum bændafjölskyldu og þegnar veitingar hjá húsmóður. Heimilishald ber svip nýliðinnar aldar með tengslum við 4 kynslóðir þó. Að loknum kvöldverði, kyrrðarganga og sundlaugarferð við luktarljós (ekki rafmagn), árnið og vonandi ljósagang á himni – svo tengslum við Selárlaug verði viðhaldið.Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 17.45.

Mætt til fundar: G. Inga Geirsdóttir, Ólafur B. Valgeirsson, Guðrún Anna Guðnadóttir og Sigríður Dóra Sverrisdóttir, er tók ofangreint saman.Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir