Menningarmálanefnd 11.04.02006

11.04 2006 - Þriðjudagur

Fundur menningarmála- og bókasafnsnefndar
Vopnafjarðarhrepps
-11. apríl 2006


Þriðjudaginn 11. apríl 2006 kl. 18.00 kom menningarmála- og bókasafnsnefnd saman til fundar á heimili Sigríðar Dóru er bauð upp á eitt og annað til að narta í.

Á öndverðum fundi greindi Magnús Már frá hvernig gengið hefði að leita uppi þá aðila svo sem síðasti fundur ákvarðaði að skyldi gjört. Leikbrúðumeistarinn Bern Ogrodnik hefur lýst yfir vilja sínum að koma að aflokinni ferð til BNA og mun kosta 70 þúsund krónur. Nefndarmenn sammála um að upphæðin væri í hófi þar eð listamaðurinn er einn sá þekktasti í veröldinni – og besti. Erfitt að ná í Pétur pókus, GSM-sími ótengdur og pilturinn fluttur af heiman... Albert Eiríksson hefur ekki svarað fyrirspurn varðandi tónleikana en viðburðurinn fékk mun lægri upphæð frá MA en sótt var um. Sveppi hefur engin svör gefið, athuga nánar.

Guðrún Anna gerði grein fyrir athugun sinni á leiktækjaleigu og kvaðst hafa leitað á netinu. Ýmsir möguleikar eru í stöðunni en skv. einum aðila kostar nýjasta rennibraut hans 30 þúsund per dag auk ½ þeirrar upphæðar í flutningi. Farið er fram á fyrirfram greiðslu í ljósi miður góðrar reynslu af innheimtu eftir á. Ákveðið að halda áfram að skoða þá möguleika sem uppi eru enda vilji til að koma til móts við þau yngstu. Kannað var á sínum tíma með leiktæki frá ÍTR, ekki var vilji til að lána en veittu fúslega upplýsingar og heimild til að mæla tækin og endurgera. Eitthvað mun hafa verið smíðað og ákveðið að leita eftir samstarfi við áhaldahús um að vinnuskólinn vinni að því að lafgæra það sem til er. Leitað verður til ungmenna um að þau vakti leiktækin á Vopnafjarðardögum.

Magnús greindi frá að samið hefði verið við hljómsveitina Í svörtum fötum, einungis væri eftir að skrifa undir samninginn. Hljómsveitin mun kosta 1 mkr. fyrir 2-slags spilamennsku, fjölskyldutónleika og dansleik auk gistingar og aksturs til og frá Egilsstöðum. Magnús gladdi síðan nefndarfólk með því að greina frá því að hingað muni Edda Björgvinsdóttir koma með “Alveg brillíant skilnaður” hingað til Vopnafjarðar þann 06. júní n. k. Þetta leikverk hefur fengið frábæra dóma, leikur Eddu einstakur. “Hattur og Fattur” verða svo hér á ferð á tímabilinu 08.-12. maí n. k., nánar síðar.

Úthlutun Menningarráðs til umfjöllunar að nýju og þá með m. t. t. Miklagarðs en Magnús sagði á hreinu að þeir peningar sem skilgreindir eru til félagsheimilisins hafi ekkert með samninginn sem kynntur var á síðasta fundi né úthlutun til menningarmála annarra að gera. Mikligarður nýtur sérstyrks frá MA í líkingu við menningarmiðstöðvarnar fjórar.

Leitað hefur verið til Baldvins Eyjólfssonar um að hann vinni með ungmennum í sumar og fært að einhverju leyti í hans hendur hvert þemað verður. Nefndin stendur að vanda á bak við viðburðinn og verður sem fyrr til hans vandað. Ítrekað að nota kaffistofuna og barinn undir ball ungmenna í Miklagarði að loknum viðburðinum í stóra salnum þar sem ungmennin skemmta ásamt m. a. Bernd Ogrodnik.

Sigríður Dóra heldur áfram vinnu sinni við hagyrðingamót og mun ásamt Magnúsi leita eftir fundi með skólastjórafélaginu að loknum páskum varðandi Íslenskan er okkar mál. Fundarstaður líklega á Reyðarfirði. Sagði Sigríður leikritið í höndum Jóns Hjartarsonar vera á góðu róli og mynda væri leitað í sýninguna þar sem skjávarpi verður notaður.

Ákveðið að athuga hvaða möguleikar eru hér eystra varðandi austfirska listamenn, unga jafnt sem eldri. Leitað verði eftir hæfum tæknimanni og voru þeir 3 sem við höfum haft aðgang að á sl. árum nefndir til sögunnar, Gunnar Sigurbjörns, Silli og Róbert. Sigríður mun kanna með “ræningjana” í Eyjafirði þar sem verið er að sýna Kardimommubæ Torbjörns Egner. Líklega er Skralli trúður búinn að vera en væri karlinn í lagi myndi hann skemmta meðal fólks og ekki á sviði.


Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 19.00.

Mætt til fundar: Guðrún Anna Guðnadóttir, Sigríður Dóra Sverrisdóttir, Ólafur B. Valgeirsson og Magnús Már Þorvaldsson, er tók ofangreint saman.Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir