Fundargerð menningarmálanefndar 25. mars 2009

25.03 2009 - Miðvikudagur

Fundur menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps
-25. mars 2009

Miðvikudaginn 25. mars 2009 kl. 16:00 kom menningarmálanefnd saman til fundar í félagsheimilinu Miklagarði. Að ósk Sigríðar Dóru var beðið með að ræða um málefni er varðar bæjarhátíð sveitarfélagsins uns Guðrún Anna kæmist til fundar en hún mætti ½ klst. eftir að fundur hófst.

1. Magnús hafði meðferðis punkta viðvíkjandi vinnu sína að undanförnu, vék í upphafi að Ferðatorginu; sýningin Ferðalög og frístundir verður haldin í Laugardalshöll dagana 08.-10. maí 2009. Ferðatorgið er kjarninn í sýningunni. Þar kynna ferðamálasamtök hvert sinn landshluta og þjónustu sem er í boði. Ferðatorgið er lifandi markaðstorg og því gott tækifæri til að kynna framboð, þjónustu og möguleika í afþreyingu sem bíða ferðamannsins á Austurlandi. Ferðamálasamtök Austurlands verða með bás á sýningunni. Mögulegt að Vopnfirðingar verði með eitthvert atriði í tengslum við Múlastofu.

2. Sigríður tjáði fundargestum að nýir tímar væru upprunnir í samskiptum menn.m.n. við Flugfélag Íslands. Um árabil hefur flugkortið gefið 30% afslátt en héðan af einungis 15% - nema viðskiptin séu upp á 16 milljónir … Rætt um mögulega sparnaðarleið að pantað verði í gegnum Netið og miði verði þá óbreytanlegur.

3. Skv. Sigríði hefur Kvennakór Reykjavíkur sýnt því áhuga að koma hingað í maí, ca. 80 manns, en ekkert frekar heyrst frá kórnum en almennt líst fólki vel á að fá þann ágæta kór.

4. Magnús kynnti hugmynd heimamanna um skemmtun, Vopnafjarðarglens, þann 04. apríl n. k. Fyrir liggur að þátttakan er með ágætum og góður þverskurður af tónlistarlífi sveitarfélagsins.

5. Magnús tilkynnti að fyrir liggja tónleikar Mannakorna þann 30. apríl n. k. en sveitin er að senda frá sér nýjan hljómdisk og mun leika lög af honum auk eldra efnis. Það má kallast hvalreki að fá þessa snillinga hingað en aðkoma menn.m.n. væri á svipuðum nótum og þegar listamenn koma hingað að eigin frumkvæði; viðburðurinn auglýstur, boðið upp á snæðing og húsaleiga niðurfelld. Að ósk Guðrúnar Önnu kannar Magnús hvort hljómsveitin taki að sér spilamennsku að konukvöldi loknu þann 09. maí – verði það niðurstaðan verður ekki af tónleikunum.

6. Sigríður upplýsti um stöðu Þjóðleiks. Að hennar sögn hefur verið strembið að ná krökkunum saman vegna þess líflega félagsstarfs sem þau stunda, s. s. íþróttir, kirkjan og árshátíð. Vonir standa til að allt muni þetta fara vel og okkar krakkar taki þátt í stóru hátíðinni 24.-26. apríl n. k. á Egilsstöðum þegar allir leikhóparnir sýna verkin sín. Hugmynd um að sýna verkið, Ísvélina, á sviði Miklagarðs, þ. e. leikendur og áhorfendur verði staðsett þar. Einfaldleiki einkennir leikverkið, litlir fjármunir í þessu og reynt að stilla öllum kostnaði í hóf.

7. Einu sinni á ágústkvöldi, mögulega Einu sinni á ágústkvöldi … í júlí. Kynnti Magnús hugmynd sína að færa bæjarhátíðina hvergi þrátt fyrir nýtt heiti hennar og færði rök fyrir máli sínu þar sem fram kom m. a. að mati viðmælenda úr hópi ferða- og menningarfólks á Austurlandi, sbr. glöggt er gests augað, felst í því meiriháttar breyting að færa tiltekinn viðburð til. Einkum er horft til þess að farið er aftur fyrir verslunarmannahelgi, sem þýðir að hátíðin komin undir lok sumarleyfatímabilsins og skóli í nánd. Eins eru þeir býsna margir sem miða ferðir sínar við bæjarhátíðina - fluttir Vopnfirðingar, vinir og ættingjar hafa verið helstu gestir Vopnafj.daga - við lokaviku júlímánaðar. Með því að staðsetja hátíðina í „röngum“ mánuði hefur okkur líklega tekist að vekja enn meiri athygli á henni en ellegar væri.

Fram fór lífleg umræða um málið þar sem fram kom að nefndarmenn teldu hugmyndina að færa hátíðina aftur fyrir versl.m.helgi – og er hugmynd Magnúsar – vera allvel kynnta í samfélaginu. Skv. Magnúsi er honum ekki kunnugt um að þetta hafi nokkru staðar verið skráð þó málið vissulega verið rætt. Ákveðið að skoða nánar og taka endanlega ákvörðun um málið þegar vissir þættir í undirbúningi hátíðar liggja fyrir.

8. Bæjarhátíðin til umræðu. Rætt um breytta tilhögun hátíðar í ljósi nafnabreytingar og ekki síður erfiðrar efnahagsstöðu. Smiðjurnar þrjár verða áfram starfræktar og hefur Magnús þegar rætt við listafólkið um stóraukna samvinnu þeirra en afrakstur sl. árs var áberandi mestur úr söngsmiðjunni. Ljóst að þáttur bræðranna verður þar afgerandi. Hugmynd um að sleppa útiskemmtun þó yngstu gestirnir gleymist hvergi, mikið fyrir litlu haft auk þess sem spara má fjármuni með þessu.

Skoðist að sameiginlegt bæjargrill verði haldið á föstudagskvöldinu og skemmtun verði engin í félagsheimilinu. Þó má líta svo á að verði Halli og Gói hér á ný opnist leið að skemmtun þetta kvöld að nýju. Sandvíkurdagur verði áfram hluti af dagskrá enda uppfyllir hann að nokkru vilja menn.m.n. um breiða þátttöku hins almenna gests hátíðar og kostar t. t. l. lítið í framkvæmd. Um kvöldið verði boðið upp á mikla fjölskylduskemmtun með þátttöku okkar fólks úr smiðjuvinnu og dansleikur í kjölfarið. Er það skoðun nefndarfólks að fara eins hagkvæma kostnaðarleið og unnt er að ná. Minnt var á að umsóknarfrestur v/félagsheimilasjóðs sé til 15. maí n. k. og varðar ferðakostnað listafólksins.


Mætt til fundar: Sigríður Dóra Sverrisdóttir, Hrafnhildur Helgadóttir, Ólafur B. Valgeirsson, Guðrún Anna Guðnadóttir og Magnús Már Þorvaldsson, er tók ofangreint saman.Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir