Fundargerð menningarmálanefndar 26. maí 2009

26.05 2009 - Þriðjudagur

Fundur menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps
-26. maí 2009

Þriðjudaginn 26. maí 2009 kl. 15:30 kom menningarmálanefnd saman til fundar í félagsheimilinu Miklagarði. Að ósk Sigríðar Dóru skyldi tekið fyrir sem síðasta mál á dagskrá samskipti hennar og menningarmálafulltrúa, Magnúsar Más. Gerði hann athugsemd við og spurði hvort það hefði ekki verið afgreitt á fundi nefndarinnar þann 28. mars 2007 – raunar á fundi fyrir þann á skrifstofu sveitarfélagsins. Var þeirri athugasemd vísað á bug með þeim orðum að mál þetta yrði að ræða þar eð það varðar menningarmál. Var síðan gengið til dagskrár.

1. Velferðarsjóður barna. Sigríður Dóra kvaðst hafa átt samskipti við Þórey Eddu, starfsmann sjóðsins en f. h. menningarmálanefndar sótti Magnús Már í hann. Hafði Þórey Edda farið fram á nánari upplýsingar og áttu þær samskipti þar að lútandi – vonir bundnar við að þarna kunni fjármuni vera að finna en smiðjurnar þrjár liggja til grundvallar umsókn menn.m.n.

2. Haukur Ágústsson. Sigríður Dóra kynnti málið en Magnús Már tók síðan við og sagði málið þegar afgreitt. Hann ásamt Ólafi Valgeirssyni - Haukur óskar eftir að fá að vera með tónleika sína í kirkjunni - hafa komist að samkomulagi við Hauk um að vera hér í júníbyrjun leyfi aðstæður undirleikarans það. Í öllu falli mun Haukur skemmta vopnfirðingum í sumar.

3. Menningarsjóður félagsheimila. Svo bregðast krosstré sem önnur, Magnúsi Má láðist að sækja um í sjóðinn er tekur til ferðakostnaðar listafólks m. m. en mun gera það eftir á í ágúst og telur það í sjálfu sér engu skipta þar eð upphæðir liggja þá fyrir.

4. Vopnafjarðardagar 2009. Magnús Már lagði fram drög að dagskrá hátíðar er lá síðan til grundvallar umræðu nefndarinnar. Dagskráin er að vanda nokkur að vöxtum þó niðurskurðarhnífurinn hafi verið reiddur á loft hér og hvar. Eftir stendur að mati nefndarfólks álitleg dagskrá en sannarlega tekið mið af efnahagsástandinu – voru drögin að langmestu leyti samþykkt en fram fór góð umræða og ábendingar skiluðu bættri dagskrá.

5. Andrés Þór, djassari og áður meðlimur í Sixties. Hefur hug á að sækja Vopnafjörð heim ásamt bandi sínu og þá miðvikudaginn 12. ágúst n. k. Samþykkt að þeir fái aðgangseyri, gistingu og 30 þúsund króna tryggingu – myndi hið sama gilda um heimsókn Hauks Á.

6. Frú Norma. Félagar í leikhúsinu höfðu samband við Sigríði Dóru en þau hafa verið með okkur á bæjarhátíðinni undanfarin ár. En ekki að þessu sinni og fengu að vita það. Óska eftir að fá að sýna hér barnasýningu á lau.morgninum 25. og senda tilboð þar að lútandi.

7. Samskiptamál. Hafði Sigríður Dóra frumkvæði að málinu, sbr. inngang fundargerðar, þar sem hún vildi ræða samskipti sín við menningarmálafulltrúa. Fór fram umræða þar sem nefndarmenn lýstu sjónarmiðum sínum. Sú síðbúna gagnrýni sem fram kom viðvíkjandi Múlastofu er vísað til fundagerða menningarmálanefndar á tímabilinu en þar eru engar athugasemdir til bókar færðar.

Undir þessum lið tilkynnti Sigríður að hún segði af sér formennsku, hún kysi þó að vinna áfram með nefndinni fram yfir Vopnafjarðardaga án þess að sitja fundi hennar. Tók hún fram að menningarmálin hvíldu þungt á henni en orsakir væru fleiri er stuðluðu að þessari ákvörðun. Þótti fundarmönnum miður að heyra af ákvörðun Sigríðar, luku upp lofsorði um framgöngu hennar í menningarmálum sveitarfélagsins og óskuðu henni alls hins besta.


Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 17:15.

Mætt til fundar: Sigríður Dóra Sverrisdóttir, Hrafnhildur Helgadóttir, Ólafur B. Valgeirsson, Guðrún Anna Guðnadóttir og Magnús Már Þorvaldsson, er tók ofangreint saman.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir