Fundargerð menningarmálanefndar 08. júlí 2009

08.07 2009 - Miðvikudagur

Fundur menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps
-08. júlí 2009

Miðvikudaginn 08. júlí 2009 kl. 16:30 kom menningarmálanefnd saman til fundar í Kaupvangskaffi. Fyrir fundi lá endurskoðuð dagskrá Vopnafjarðardaga m. t. t. bæjargrills, endurskoðuð fjárhagsáætlun að nokkru o. fl. Fellur öll dagskrá fundar undir Vopnafjarðardaga.

1. Endurskoðuð dagskrá. Magnús vék að þeim minniháttar breytingum sem upp höfðu komið varðandi dagskrá og fjármál. Kynnti auk þess auglýsingmál hátíðar. Fyrir lá að bæjargrillið yrði tekið af dagskrá vegna óánægju bæjargrillsnefndar, sem taldi þá ákvörðun menningarmálanefndar að stefna fólki inn í Miklagarð kl. 23 á skemmtun Halla og Góa ásamt Leikhúsbandinu, ekki samrýmast hagsmunum grillsins. Málin rædd hvað hægt væri að gera þess í stað en Magnús hafði átt fund með sveitarstjóra og oddvita, sem vildu allt til þess vinna að þoka málunum í þá átt að tónlistarmenn í röðum heimamanna fengju möguleika til þátttöku. Nánar um það mál hér að neðan undir lið 2.

2. Föstudagsskemmtun. Rætt um hvað gera megi í stað bæjargrills. Hljómlist á nýja bæjartorginu góður kostur ásamt snillingunum Halla og Góa. Lýstu þeir sig í vikunni jákvæða til að vera með Ómar Eyjólfsson og félagar – ákveðið að leita til þeirra og fá Ómar til að annast eftirlit með geislaspilara. Krakkar út tónsmiðju með? Auk lifandi tónlistar heimamanna – hverra annarra? – hoppkastalar, dekur í Kaupvangi og vonandi útimarkaður við Kaupvang – Einherji þátttakandi með einhverjum hætti? Boðið verður upp á dekur í Kaupvangi auk miðils, tjáði Ágústa nefndarfólki. Ennfremur hugmyndir um myndasýningu Þórunnar og Halldór Karls.

Fram fór mikil umræða um framgöngu liðsmanna Kleópötru, sem sumir hverjir höfðu farið mikinn á fésbókinni, í stað þess að ræða við nefndarfólk um afstöðu sína til dagskrár og framkvæmd Vopnafjarðardaga. Ljóst að þeir sem tjáðu sig, liðsmenn Kleópötru og vinir, fóru langt út fyrir mörk velsæmis og er það niðurstaða nefndar að við þá sveit verði ekki samið, vegið var að aðkomufólki með ósmekklegum hætti m. a. Magnús athugi með hljóðkerfið hér að lútandi en reiknað er með að tónlist fari að hljóma kl. 15 af hljómdiski.

3. Einblöðungur. Guðrún Anna kynnti hugmynd um að gerður yrði einblöðungur í A5 formi með dagskrá Vopnafjarðardaga og upplýsingum um þjónustuaðila í sveitarfélaginu. Var vel í hugmyndina tekið og ákveðið að vinna henni brautargengi.

4. Upptökuvél – kaup. Magnús kynnti hugmynd sína um kaup á vandaðri upptökuvél v/Múlastofu, þ. e. til að mynda viðburði á vegum Múlastofu. Raunar myndi vélin nýtast menningarmálum í heild og jafnvel sveitarfélaginu ef út í það er farið. Hafði áður sett kostnaðarlið í fjárhagsætlun hér að lútandi. Gerði Magnús grein fyrir styrkveitingu Menningarráðs, sem gerir ráð fyrir gerð stuttmyndar um þá bræður og fellur vel að hugmyndinni um myndum viðburða, varðveislu þeirra.

Fram fór nokkur umræða um málið, sem var samþykkt með eftirfarandi bókun:

Menningarmálanefnd samþykkir fjárframlag til kvikmyndagerðar viðburða Múlastofu en fer um leið fram á að staða Múlastofu verði skilgreind nánar og upplýst undir hvaða stjórnvald hún heyrir.

Samþykkt samhljóða.

5. Eitt og annað. Rætt um vinninga í fjársjóðsleit. Nokkrir vinningar þegar komnir, þ. m. t. frá Greifanum, Hótel Tanga og Vífilfelli en leitin er einmitt kennd við vörumerki þeirra, Kók. Óli sagði ekki létt verk þetta árið að leita til símafyrirtækjanna um síma í símaleik; Síminn var búinn að segja nei og Vodafone gerði það einnig. Rætt um vinninga í golfmótið m. t. t. aðalstyrktaraðila en líklega er Iceland Express út úr myndinni en verið að athuga með önnur fyrirtæki. Prenta þarf golfkort og mun Magnús ræða við Hafþór sem og um flygildið. Sami Magnús minni húsvörð Miklagarðs á að ráða starfsfólk í tíma um Vopnafjarðardaga!

Hrafnhildur hefur samband við þjónustuaðila í sveitarfélaginu og kannar hvað þeir hyggjast gera um hátíðina, sem sett verður í einblöðunginn ásamt dagskrá. Lagt til að veðurleik verði viðhaldið, fólk spái fyrir um veðrið á laugardaginn kl. 16 og skili í kassa í Kaupvangi. Magnús beri upp við Hilmar að þrífa ströndina vegna Sandvíkurdags – spurning hvar glensið verður staðsett að þessu sinni m. t. t. aðstæðna á sandinum. Þörf á að setja út öryggislínu, sem fengin yrði að láni hjá höfn?

Guðrún Anna og Magnús funda með sveitarstjóra föstudaginn næsta þar sem farið verður í gegnum fjármálin, stuðning sveitarfélagsins við verkefni menningarmálanefndar. Markmiðið er að fjármálin í heild sinni liggi fyrir áður en bæjarhátíðin gengur í garð.

Dagskrá Vopnafjarðardaga 2009 fylgir fundargerð – með fyrirvara um breytingar.

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 18:30. Stefnt að fundi í næstu viku.

Mætt til fundar: Hrafnhildur Helgadóttir, Ólafur B. Valgeirsson, Guðrún Anna Guðnadóttir og Magnús Már Þorvaldsson, er tók ofangreint saman.Dagskrá Vopnafjarðardaga 2009:

Mánudagur 20. júlí.

• Smiðjur taka til starfa; leik-, dans- og söngsmiðja.
Til athugunar: Námskeiðin fari fram á vinnutíma ungmenna, þau á launum við vinnu sína – sbr. LUnga á Seyðisfirði.
• (Iceland Express Open) golfmótið kl. 19:00. Leikið skv. „Texas Scramble“. Skráning hjá …


Þriðjudagur 21. júlí.

• Vopnfirsk list í safnaðarheimilinu opnar kl. 17:00.
• Vopnafjarðarvöllur: Einherji – Leiknir, Fáskrúðsfirði, kl. 20:00 – Íslandsmótið.


Miðvikudagur 22. júlí.

• Dorgveiði við höfn kl. 16:00 - 2 flokkar, yngri en 9 ára og 9 – 12 ára.
• Gönguför inn Hraunalínu kl. 18:00 undir leiðsögn Jóseps H. Jósepssonar. Þátttökugjald kr. 500,-
• Leikhópurinn Lotta sýnir Rauðhettu á tjaldstæðinu kl. 18:00. Miðaverð kr. 1.500,- og 1.000,-
• Tónleikar Guðrúnar Gunnarsdóttur í Miklagarði kl. 20:30 – flytur lög Cornelis Vreeswijk ásamt sænskri sveit. Miðaverð kr. 1.500,-


Fimmtudagur 23. júlí.

• Jón Múli og Jónas, skáldakvöld í Miklagarði kl. 20:30. Einar Bragi saxafónleikari og Jón Hilmar gítarleikari, leika lög bræðranna og kynna tilurð þeirra. Sagnamaður er Ragnheiður Gyða Jónsdóttir (Múla Árnasonar). Miðaverð kr. 1.500,-


Föstudagur 24. júlí.

• Bæjargrill á skólalóðinni kl. 19:00. Hverfin skipta með sér svæðinu og bjóða upp á e-rt skemmtiefni á palli. Brekkusöngur” á meðan grilli stendur undir stjórn Halla og Góa. Leiktæki fyrir börnin.

• „Leikhúslögin“, Halli og Gói skemmta í Miklagarði kl. 23:00 – í anda sl. árs … Miðaverð kr. 1.500,- fullorðnir, 500,- unglingar/börn. Að skemmtun lokinni fara ungmenni undir 18 ára heim. Dans með leikhúsbandinu ef fólk vill!


Sandvíkurdagur, laugardaginn 25. júlí.

• Boðhlaup ýmiskonar kl. 14:00 – með þátttöku sprellaranna Halla og Góa. Skráning hjá … - kannski óþörf?
• Sandlistaverkakeppni kl. 14:30 – með þátttöku Halla og Góa, kunna þeir nokkuð? Keppt í fullorðins-/fjölskyldu- og unglingaflokki. Frumlegasta verkið tekur til beggja flokka. Vistvænt skreytiefni heimilt að nota. Tímamörk eru 1.5 klst.
• Fjársjóðsleit kl. 16:00. 30 vinningar í (kók)flöskum. Ræst að lokinni sandlistaverkakeppni. Tímamörk ½ klst.
• Berbakreið í boði hestamannafélagsins Glófaxa allan tímann

Athuga: Aðstæður í Sandvíkinni kunna að vera viðsjárverðar á vissum stöðum, foreldrar fylgist með börnum sínum

• Fjölskylduskemmtun! Fjölskylduskemmtun með tónlistarfólkinu Kristjönu Stefánsdóttur, Agnari Má Magnússyni, Benedikt Brynleifssyni, Róberti Þórhallssyni og Baldvini Eyjólfssyni – og umfram allt Vopnfirskum ungmennum/og eldri úr öllum smiðjunum kl. 20:30. Þema: Söngleikir Jóns Múla og Jónasar Árnasona – úr smiðjunum þremur.
• Stórdansleikur í Miklagarði kl. 24:00 með hljómsveit Kristjönu Stefánsdóttur eða bara úrvalslið smiðjanna – þ. e. Halli og Gói auk ofangreindra! *Aðgangur kr. 2.700,- Aldurstakmark 18 ár og miðast við fæðingardag.


Sunnudagur 26. júlí.

• Vopnafjarðarkirkja kl. 14:00, léttmessa með þátttöku Kristjönu Stefánsdóttur og Agnars Más Magnússonar. Af þessari messu (sr. Stefáns Más) geturðu einfaldlega ekki misst!

Kaupvangskaffi opið vikuna alla fram á kvöld.Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir