Fundargerð menningarmálanefndar 02. júní 2008

02.06 2008 - Mánudagur

Fundargerð
menningarmálanefndar Vopnafjarðar haldinn á heimaslóðum formanns kl. 8:00 miðvikudaginn 2. júlí. Mættir: Sigríður Dóra, Inga, Hrafnhildur, Guðrún Anna og Óli sem ritaði fundargerð.
1. Rædd var fyrirspurn frá framkvæmdastjóra Frú Normu um hvort hægt væri að smeygja línudanshópi inn í dagskrá í Miklagarði föstudaginn á Vopnfjarðardaga. Ekki yrði af þessu annar kostnaður en að gefa hópnum að borða eina máltíð. Nefndin samþykkti að taka á móti þessu góða fólki. Hópurinn frá Frú Normu kemur til starfa á Vopnafirði þriðjudaginn 22. Júlí og verður dagskráin með líkum hætti og í fyrra. Þá eru þau með sýningu um Soffíu Mús og virðist hentugast að setja hana á kl. 11 á laugardagsmorgun.
2. Rætt var bréf frá Geirharði Þorsteinssyni en hann er forvígismaður hljómsveitarinnar Slux sem mun taka þátt í Eistnaflugi á Norðfirði og vilja fá að spila hérna hjá okkur í „forbifarten“. Vantar aðstöðu og einhver hljóðfæri. Þá verður hljómsveitin Mammoth í för með þeim og vill fá að spila líka. Samþykkt var að leggja þeim til húsnæði, redda hljóðfærum og fæða þau og hýsa. Hér er tónlistarfólk framtíðarinnar á ferðinni og ekkert nema gott um það að segja að stiðja við það. Mikligarður er laus á hentugum tíma. Ákveðið var að leita leiða til að fjármagna dæmið með aðkomu sem flestra þeirra aðila sem sinna ungu fólki á staðnum
3. Tekið fyrir erindi frá Lísu Páls en hún er í forsvari fyrir leikhóp sem hefur verið að sýna á veitingahúsum á Reykjavíkursvæðinu. Hér um að ræða 13 manna hóp með sýningu sem heitir Skeifa Ingibjargar og fjallar um eiginkonu Jóns Sigurðssonar. Samþykkt að leggja þeim eitthvert lið með næringu en bent á að koma mætti þeim í samband við hótelið sem ætti að geta gert sér mat úr slíkri uppákomu.
4. Rætt var um styrki ársins, upphæðir, hverjir væru búnir að borga og hverjir væru eftir.
5. Rætt var um leiktæki á væntanlegum Vopnafjarðardögum og ítrekað að það mál væri á könnu Guðrúnar Önnu.
6. Búið er að ganga frá því að til reiðu verður flutningavagn til að nota sem svið við Miklagarð og munu Bílar og vélar sem umboðsmenn flutningafyrirtækja á svæðinu annast að útvega hann.
7. Staðfest var að enn eitt árið fáum við sama fjölda flugmiða frá FÍ þrátt fyrir niðurskurð félagsins á slíkum styrkjum til annarra aðila. Sama gildir um Iceland Express.
8. Rætt var um hvað væri til af fánum þeirra fyrirtækja sem óska þess að þau verði höfð uppi um Vopnafjarðardaga. Virðist svo að þeir séu innan seilingar.
9. Þar sem Síminn hefur lokað verslun sinni á Egilsstöðum er dálítið óljóst með símaleikinn þetta árið en formanni falið að leita að nýjum tengli innan fyrirtækisins svo halda megi áfram þessum vinsæla lið á hátíðinni.
10. Rætt var vítt og breitt um annan undirbúning, aulýsingar og þvíumlíkt. Þá var rætt um fyrirkomulag á veðurleiknum sem lukkaðist afar vel á síðasta ári.
Önnur mál:
Guðrún Anna kom á framfæri erindi frá handverksshópnum Nema Hvað. Ætlunin er að hópurinn haldi úti kaffihúsi um Vopnafjarðardaga og fer þess á leit að fá að vera með í auglýsingum á vegum menningarmálnefndar. Þessu erindi var vel tekið og samþykkt að verða við þessari bón.

Fleira var ekki tekið fyrir, næsti fundur ákveðinn miðvikudaginn 09. júlí n. k. kl. 08:00, sleit formaður fundi kl. 9:25



Tungumál


Skipta um leturstærð


Leit



Flýtileiðir