Fundargerð menningarmálanefndar 01. júlí 2009

01.07 2009 - Miðvikudagur

Fundur menningarmálanefndar Vopnafjarðarhrepps
-01. júlí 2009

Miðvikudaginn 01. júlí 2009 kl. 16:15 kom menningarmálanefnd saman til fundar í félagsheimilinu Miklagarði, hafði menningarfulltrúi boðað til fundarins. Fyrir fundi lá fjárhagsáætlun Vopnafjarðardaga sem Magnús hafði unnið og skyldi yfirfarin á fundi nefndarinnar en erfitt árferðið kallar á breyttar áherslur og leiðir. Að afloknu stuttu spjalli var gengið til dagskrár.

1. Vopnafjarðardagar 2009. Lögð fram fjárhagsáætlun bæjarhátíðar miðað við þá dagskrá sem nefndin hafði áður samþykkt. Farið var í gegnum alla þætti hátíðar en greiðsla fyrir framlag listafólks er einungis hluti kostnaðar, huga þarf að ferðakostnaði, gistingu og uppihaldi. Miðaða við fjárhagsáætlun er niðurskurður á milli ára um 1.5 mkr. en áætlunin er upp á 3.3 mkr. Dagskráin er eftir sem áður glæsileg og fjölbreytt en vopnfirðingar líkt og aðrir utan höfuðborgarsvæðisins, sem nýtt hafa sér Menningarsjóð félagsheimila v/ferðakostnaðar listafólks, geta ekki vænst krónu úr honum í ár.

Vegna niðurskurðar fær sjóðurinn ekkert framlag en á sl. ári naut menningarmálanefnd kostanna með 300 þúsund króna framlagi. Án þess að greint sé frá öllum kostnaðarliðum í fundargerð að þessu sinni vill sá hana ritar greina frá samþykkt nefndarinnar um kostnaðarlið upp á 250 þús. kr., sem varðar kvikmyndun viðburða v/Múlastofu; afraksturinn fer í gagnabanka setursins og verður gestum til sýnis til framtíðar – og verði því við komið gert ár hvert. Þess ber að geta að styrkir hafa skilað sér með ágætum þrátt fyrir erfiða tíma og ber að þakka það.

2. Fundað með Signý Ormarsdóttur menningarfulltrúa. Magnús greindi frá fundi sínum með menningarfulltrúa Austurlands föstudaginn 26. júní sl. Slíkir fundir verða ekki ofmetnir enda Signý afburðahæf í starfi. Var gengið frá undirritun samninga milli Menningarráðs og Vopnafjarðar, annars vegar samningur varðandi samþykkta styrki sem sótt var um í vetur, hins vegar samningur til 3ja ára um menningarmál milli MA og Vopnafjarðarhrepps.

Fram kom í máli Signýjar að kröfur Menningarráðs viðvíkjandi skil á uppgjöri menningarviðburða, skil á reikningum og staðfesting á í hvað fjármunir fara hafa stóraukist – og að styrktarþegar sýni fram á hvaðan aðrir fjármunir komi í tiltekna viðburði. Í menningarsamningnum, sem dæmi, kemur ljóslega fram að þar komi króna á móti krónu, þ. e. frá sveitarfélaginu.

3. Fjárlaganefnd Alþingis. Magnús greindi frá umsókn sveitarfélagsins til fjárlaganefndar vegna Múlastofu til næsta árs en á sl. ári fékk setrið 3 mkr. á fjárlögum. Nú eru breyttir tímar og þó fjárþörfin sé hin sama er hætt við að til skiptanna sé einungis brot þeirra fjármuna sem buðust áður. Vönduð umsókn fór alltént frá vopnfirðingum og getum ekki gert annað en að vona það besta.

4. Velferðarsjóður barna. Umsókn menningarmálanefndar í sjóðinn skilaði árangri; hefur starfsmaður hans, Sölvi Tryggvason lýst yfir áhuga á að kynna sér starfsemi smiðjanna á Vopnafjarðardögum en styrkurinn er eyrnamerktur þeim. Hefur Sölvi átt samskipti við Sigríði Dóru hér að lútandi og komi hann mun hann vinna mynd um starfsemi smiðjanna. Guðrún Anna greindi frá. Minnti ennfremur á að í ágúst verði tveir viðburðir með þátttöku menningarmálanefndar, djasstónleikar og Rússibanar.

5. Eitt og annað. Óli tekur að sér að athuga með 2 síma í símaleik, Síminn hefur gefið leikinn frá sér. Magnús tók að sér að athuga með smávinninga í fjársjóðsleit víða og aðrir í hópnum hafi augu og eyru opin hér að lútandi.

Guðrún Anna og Magnús funda með sveitarstjóra föstudaginn næsta þar sem farið verður í gegnum fjármálin, stuðning sveitarfélagsins við verkefni menningarmálanefndar. Markmiðið er að fjármálin í heild sinni liggi fyrir áður en bæjarhátíðin gengur í garð.

Dagskrá Vopnafjarðardaga 2009 fylgir fundargerð – með fyrirvara um breytingar.

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 18:30. Stefnt að fundi í næstu viku.

Mætt til fundar: Hrafnhildur Helgadóttir, Ólafur B. Valgeirsson, Guðrún Anna Guðnadóttir og Magnús Már Þorvaldsson, er tók ofangreint saman.Dagskrá Vopnafjarðardaga 2009:

Mánudagur 20. júlí.

• Smiðjur taka til starfa; leik-, dans- og söngsmiðja.
Til athugunar: Námskeiðin fari fram á vinnutíma ungmenna, þau á launum við vinnu sína – sbr. LUnga á Seyðisfirði.
• (Iceland Express Open) golfmótið kl. 19:00. Leikið skv. „Texas Scramble“. Skráning hjá …


Þriðjudagur 21. júlí.

• Vopnfirsk list í safnaðarheimilinu opnar kl. 17:00.
• Vopnafjarðarvöllur: Einherji – Leiknir, Fáskrúðsfirði, kl. 20:00 – Íslandsmótið.


Miðvikudagur 22. júlí.

• Dorgveiði við höfn kl. 16:00 - 2 flokkar, yngri en 9 ára og 9 – 12 ára.
• Gönguför inn Hraunalínu kl. 18:00 undir leiðsögn Jóseps H. Jósepssonar. Þátttökugjald kr. 500,-
• Leikhópurinn Lotta sýnir Rauðhettu á tjaldstæðinu kl. 18:00. Miðaverð kr. 1.500,- og 1.000,-
• Tónleikar Guðrúnar Gunnarsdóttur í Miklagarði kl. 20:30 – flytur lög Cornelis Vreeswijk ásamt sænskri sveit. Miðaverð kr. 1.500,-


Fimmtudagur 23. júlí.

• Jón Múli og Jónas, skáldakvöld í Miklagarði kl. 20:30. Einar Bragi saxafónleikari og Jón Hilmar gítarleikari, leika lög bræðranna og kynna tilurð þeirra. Sagnamaður er Ragnheiður Gyða Jónsdóttir (Múla Árnasonar). Miðaverð kr. 1.500,-


Föstudagur 24. júlí.

• Bæjargrill á skólalóðinni kl. 19:00. Hverfin skipta með sér svæðinu og bjóða upp á e-rt skemmtiefni á palli. Brekkusöngur” á meðan grilli stendur undir stjórn Halla og Góa. Leiktæki fyrir börnin.

• „Leikhúslögin“, Halli og Gói skemmta í Miklagarði kl. 23:00 – í anda sl. árs … Miðaverð kr. 1.500,- fullorðnir, 500,- unglingar/börn. Að skemmtun lokinni fara ungmenni undir 18 ára heim. Dans með leikhúsbandinu ef fólk vill!


Sandvíkurdagur, laugardaginn 25. júlí.

• Boðhlaup ýmiskonar kl. 14:00 – með þátttöku sprellaranna Halla og Góa. Skráning hjá … - kannski óþörf?
• Sandlistaverkakeppni kl. 14:30 – með þátttöku Halla og Góa, kunna þeir nokkuð? Keppt í fullorðins-/fjölskyldu- og unglingaflokki. Frumlegasta verkið tekur til beggja flokka. Vistvænt skreytiefni heimilt að nota. Tímamörk eru 1.5 klst.
• Fjársjóðsleit kl. 16:00. 30 vinningar í (kók)flöskum. Ræst að lokinni sandlistaverkakeppni. Tímamörk ½ klst.
• Berbakreið í boði hestamannafélagsins Glófaxa allan tímann

Athuga: Aðstæður í Sandvíkinni kunna að vera viðsjárverðar á vissum stöðum, foreldrar fylgist með börnum sínum

• Fjölskylduskemmtun! Fjölskylduskemmtun með tónlistarfólkinu Kristjönu Stefánsdóttur, Agnari Má Magnússyni, Benedikt Brynleifssyni, Róberti Þórhallssyni og Baldvini Eyjólfssyni – og umfram allt Vopnfirskum ungmennum/og eldri úr öllum smiðjunum kl. 20:30. Þema: Söngleikir Jóns Múla og Jónasar Árnasona – úr smiðjunum þremur.
• Stórdansleikur í Miklagarði kl. 24:00 með hljómsveit Kristjönu Stefánsdóttur eða bara úrvalslið smiðjanna – þ. e. Halli og Gói auk ofangreindra! *Aðgangur kr. 2.700,- Aldurstakmark 18 ár og miðast við fæðingardag.


Sunnudagur 26. júlí.

• Vopnafjarðarkirkja kl. 14:00, léttmessa með þátttöku Kristjönu Stefánsdóttur og Agnars Más Magnússonar. Af þessari messu (sr. Stefáns Más) geturðu einfaldlega ekki misst!

Kaupvangskaffi opið vikuna alla fram á kvöld.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir