Fundargerð skipulags-og umhverfisnefndar 12. júní 2018

21.06 2018 - Fimmtudagur

Fundur skipulags- og umhverfisnefndar Vopnafjarðarhrepps

12. júní 2018, haldinn í Miklagarði kl. 12:00

 

Mætt til fundar: Borghildur Sverrisdóttir, Baldur Kjartansson, Heiðbjört Antonsdóttir, Höskuldur Haraldsson og Axel Örn Sveinbjörnsson.

 

Einnig sat fundinn Magnús Már Þorvaldsson er ritaði fundargerð.

 

Við upphaf fundar leitaði formaður heimildar til að taka fyrir á fundi erindi Hafrannsóknarstofnunar varðandi tækjagám við Vesturdalsá sem 8. mál á dagskrá. Samhljóða samþykkt.

 

Dagskrá:

 

1. mál: Ljósaland – Eigendur Ljósalands, Hágangur ehf., sækir um heimild til viðbyggingar við núverandi hús á Ljósalandi fyrir aðstöðu dýralæknis. Um er að ræða samtals 66,7 m2 viðbyggingu sem samanstendur af dýralæknisaðstöðu og tengibyggingu. Áður tekið fyrir á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 07.05. sl. Meðfylgjandi eru viðbótargögn, þ.á.m. staðfesting Baldurs Pálssonar slökkviðsstjóra.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða að heimila bygginguna fyrir sitt leyti.

 

2. mál: Aðalskipulag Vopnafjarðar – deiliskipulag hafnarsvæðis – Verkefnalýsing fyrir deiliskipulag á hafnarsvæði sem unnin er af Yrki arkitektum lögð fram í skipulags- og umhverfisnefnd til samþykktar. Meðfylgjandi einnig samskiptapóstar er málið varðar.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða fyrirliggjandi verkefnislýsingu deiliskipulags hafnarsvæðis. Samþykkir nefndin ennfremur að leggja til við hreppsnefnd að verkefnislýsingin verði auglýst og kynnt.

 

3. mál: Aðalskipulag Vopnafjarðar – deiliskipulag íþróttasvæðis tillaga á vinnslustigi.  Umsagnir bárust frá Skipulagsstofnun, dags. 15.05. sl., HAUST, dags. 16.05. sl. og Nátturufræðistofnun Íslands, dags. 24.05 sl. Skv. Skipulagsstofnun er tillagan ekki háð lögum um umhverfismat. Nefndin vekur athygli á athugasemdum stofnunarinnar er varðar helgunarsvæði fjölnota íþróttahúss, þar liggja skilmálar ekki fyrir. Eins telur stofnunin að æskilegt sé gerð grein fyrir svæðum til sérstakra nota. Ennfremur að upplýsingar um málsmeðferð séu skýrar. Ekki hefur verið gert ráð fyrir flóðlýsingu á svæðinu. HAUST gerir engar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna og hið sama gildir um Náttúrufræðistofu. 

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða að leggja til við hreppsnefnd að deiliskipulagstillagan með þeim breytingum sem nefndin samþykkti að láta gera á tillögunni til að koma til móts við ábendingar og athugasemdir, sbr. hér að ofan, verði auglýst.

 

4. mál: Aðalskipulag Vopnafjarðar, breyting – Umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 30.05.18, Umhverfisstofnunar, dags. 28.05.18, Vegagerðar, dags. 31.05.18., Samgöngustofu, dags. 07.05.18, Norðurþings, dags. 11.05.18 og ábending frá áhugahópi um gönguleiðir.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir ábendingar Skipulagsstofnunar í bréfi þess dags. 30.05.18 þar sem hugtakið efnistökusvæði, sbr. efnistöku- og efnislosunarsvæði, verði notað fremur en námur. Eins er nefndin sammála þeirri ábendingu að hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu njóti samráðs í upphafi skipulagsferilsins. Nefndin er því sammála að greina þarf fjölda og tegunda gististaða og annað er málið kann að varða og er bent á í bréfi Skipulagsstofnunar. Vísað er til matslýsingar um vægi áhrifa flokkað í 4 flokka. Kallar stofnunin eftir nánari skýringum á hvað liggur að baki flokkuninni. Það er skoðun nefndarinnar að 2-3 frístundahús á lögbýli skuli leyfð án deiliskipulags s.s. fram kemur í bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 28.05.18 og er í gildandi aðalskipulagi. Ennfremur að brýnt sé að allir umsagnaraðilar verði vel upplýstir um gerð skipulagsins á öllum vinnslustigum. Nefndin er sammála Umhverfisstofnun að námur/efnistökusvæði sem ekki stendur til að nýta eigi ekki að vera á lista yfir slíkar. Það er rétt ábending að hvergi er að finna stærð fuglaskoðunarhúsa sem fyrirhuguð eru en skiptir augljóslega máli stærð þeirra og form. Vegagerðin gerir ekki athugasemd við lýsinguna en kallar eftir samráði vegna náma/efnistökusvæða og annarra atriða sem upp kunna að koma og varða málefni Vegagerðarinnar. Samgöngustofa gerir ekki athugasemdir við lýsinguna og hið sama gildir um Norðurþing. Móttekin er tillaga áhugahóps er varðar lagningu göngustígs meðfram Skógarlóni og er það álit nefndarinnar að málið sé vel þess virði að vera skoðað við gerð aðalskipulagsins.

 

Samhljóða samþykkt.

 

5. mál: Sjóbúð 1/Gamli og strákarnir – Sótt er um byggingarleyfi fyrir frystigám við norðausturgafl húss, sbr. meðfylgjandi uppdrættir og umsókn móttekin 04.06.18. Ennfremur meðf. grenndarkynning, lóðarblað, eignaskipting (skráning í fasteignaskrá) og samskiptapóstar.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í erindið og tekur fyrir að nýju þegar fullnaðaruppdrættir liggja fyrir. Samhljóða samþykkt.

 

6. mál: Fremri-Nýpur – Beiðni um friðlýsingu æðarvarps, sbr. reglugerð nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda. Í beiðninni er svæðið tilgreint og í ath.s. segir að um lítið varp sé að ræða sem á að auka. Meðf. loftmynd, gps-punktar og samskiptapóstar.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við friðlýsingu æðarvarps á hinu tilgreinda svæði og vísar málinu til frekari úrvinnslu.

 

7. mál: Skilti vegna ferðamanna – Skv. tölvubréfi dags. 04. júní sl. og liggur fyrir fundi óskar Else Möller eftir að sveitarfélagið taki til skoðunar möguleikann á uppsetningu skilta er miði að því að draga úr gistingu ferðamanna á óhefðbundnum stöðum svo sem segir í bréfinu.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur tekið málið til umfjöllunar. Er það álit nefndarinnar að málið þarfnist frekari skoðunar, ekki liggur fyrir hver þörfin er, hvers er að ákvarða né hvar staðsetja skuli slík skilti.

 

8. mál: Hafrannsóknarstofnun – Umsókn stofnunarinnar um heimild fyrir gámi í landi Ljótsstaða 2, sbr. byggingaleyfisumsókn dags. 08.06.18. Meðfylgjandi afstöðumynd, grunnmynd og ásýndir gáms ásamt tölvubréf Ásrúnar Jörgensdóttur, dags. 03.06. sl., með staðfestri heimild fyrir gáminn í landi Ljótsstaða 2 f.h. landeigenda.

 

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða fyrir sitt leyti að heimila staðsetningu tækjahússins skv. hjálögðum gögnum.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerðin lesin upp og samhljóða samþykkt – fundi slitið kl. 13:05.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir