Fundargerð sveitarstjórnar 20. júní.2019

20.06 2019 - Fimmtudagur

Fundur nr. 27 kjörtímabilið 2018-2022

Fundur haldinn í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 20. júní 2019 í félagsheimilinu Miklagarði kl 14:00.

Mætt til fundar: Árný Birna Vatnsdal, Bjartur Aðalbjörnsson, Fanney Björk Friðriksdóttir, Stefán Grímur Rafnsson, Axel Örn Sveinbjörnsson, Íris Grímsdóttir og Sigríður Bragadóttir.

Einnig sat fundinn Þór Steinarsson, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Í byrjun fundar var leitað afbrigða vegna kosningar á oddvita og varaoddvita og var samþykkt samhljóða að setja það undir I lið fundardagskráarinnar.

 

1.       Almenn mál

 

a.        Stapi

Vopnafjarðarhreppur greiðir allan höfuðstól vangoldinna lífeyrisgreiðslna til starfsmanna á tímabilinu 2005 til 2016 auk vaxta af ófyrnda tímabilinu frá 2013 – 2016.

Rökstuðningur:

Mál það sem kom upp fyrir nokkrum árum og varðar skuld Vopnafjarðarhrepps við lífeyrissjóðinn Stapa er sérstakt fyrir margra hluta sakir. Eftir ábendingu starfsmanns hreppsins kom í ljós að hlutfall sem miðað var við þegar upphæð lífeyrisgreiðslu var ákvörðuð var of lág og við það safnaðist upp skuld frá árinu 2005 til ársins 2016. Þar með gerðist það að árum saman borgaði sveitarfélagið of lága prósentu án þess að átta sig á því, lífeyrissjóðurinn tók á móti skilagreininni án athugasemda og launafólk tók á móti of lágum lífeyrisgreiðslum án þess að hreyfa mótmælum.

Þessi víðtæku og kerfisbundnu mistök áttu sér stað í ríflega áratug. Nú er svo komið að uppsafnaður höfuðstóll skuldarinnar er rúmlega 40,6 milljónir. Sú ávöxtun sem Stapi hefur kosið að gera hluta af kröfugerð sinni hækkar þá upphæð upp í 72 milljónir. Þau greiðslukjör sem lífeyrissjóðurinn hefur boðið sveitarfélaginu fela í sér fjármagnskostnað sem hækkar upphæðina vel yfir 100 milljónir króna.

Það segir sig sjálft að stór hluti af svo gamalli skuld er fyrndur samkvæmt lögum. Það eru því áhöld um hversu mikið eigi að borga, það liggur heldur ekki fyrir nákvæmlega hver ávöxtun á greiðslunum hefði verið ef upphæðirnar hefðu verið réttar frá upphafi. Þess í stað miðar sjóðurinn við almenna ávöxtunarkröfu sína sem er 3,5%.

Meðalskerðing á lífeyrisréttindum vegna mistakanna er um 2.300 krónur á mánuði fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga. Sú tala miðast við stöðuna áður en sveitarfélagið greiðir sitt framlag sem eru 2/3 af kröfunni. Auk þess mun samspil við almannatryggingar vega upp á móti og væntanlega leiða til þess að skerðingin verður lítil sem engin í flestum tilvikum.

Samkvæmt útreikningum lögfræðinga sveitarfélagsins og tryggingastærðfræðings er ófyrnd upphæð skuldarinnar rúmlega 12 milljónir (ófyrndur höfuðstóll, tímabilið 2013 til 2016, auk vaxta). Til þess að stjórnendum og ábyrgðaraðilum sveitarfélags sé fært að greiða kröfur sem ganga umfram lagalegar skyldur verður að vera fyrir því fjárhagslegt svigrúm og sérstök rök. Það á við í þessu máli eins og öllum öðrum. Það hvíla ríkar skyldur á sveitarstjórnarfólki á að haga sínum fjármálum með ábyrgum hætti. Um það vitna sveitarstjórnarlög, lög um opinber fjármál og reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Auk þess er ljóst að fjármagn sem nýtt er til greiðslu skuldarinnar er þá ekki til reiðu fyrir önnur verkefni sveitarfélagsins og bitnar þannig beint og óbeint á öllum íbúum sveitarfélagsins.

Nú liggur fyrir að rekstur Vopnafjarðarhrepps er langt undir væntingum. Munar þar mest um afskrift skuldar hjúkrunarheimilisins Sundabúðar við A hluta upp á 130 milljónir króna og ofáætlaða rekstrarafkomu ársins 2018 upp á 110 milljónir króna. Það er því ljóst að sú ákvörðun að gangast við skuld höfuðstólsins auk vaxta af ófyrnda tímabilinu verði að teljast sanngjörn, alls 44.183.938 kr. Með því er greitt töluvert umfram lagalega skyldu enda sveitarfélaginu annt um að komið sé til móts við starfsfólk hreppsins eins og hægt er. Þá verður ekki hjá því litið að ábyrgð á mistökum yfir þetta langa tímabil skiptist á fleiri hendur en bara sveitarfélagsins. Verður þar einkum að nefna lífeyrissjóðinn sjálfan sem gerði engar athugasemdir og ber því ríka ábyrgð gagnvart sínum sjóðsfélögum. Sveitarfélagið hefur með greiðslu höfuðstólsins staðið við greiðsluskyldur sínar á hverjum tíma. Lífeyrissjóðurinn verður að gera grein fyrir því hvernig hann vill gangast við sinni ábyrgð og tryggja ávöxtun greiðslnanna fram til ársins 2013.

Minnihlutinn bókar:

Fulltrúar Samfylkingarinnar eru skýrir á sinni afstöðu. Þeir vilja að sveitarfélagið greiði alla skuldina frá 2005-2016 ásamt raunávöxtun. Með því að greiða ekki alla skuld sveitarfélagsins til launþega eru launþegar sveitarfélagsins sviknir um sín lífeyrisréttindi. Ábyrgðin liggur hjá sveitarfélaginu og það er rétt og sanngjarnt að lífeyrisréttindi launþega séu ekki skert vegna mistaka sveitarfélagsins.

 

Meirihlutinn bókar: Meirihlutinn hafnar því alfarið að ábyrgðin liggi eingöngu hjá sveitarfélaginu og ítrekar að það hvíli ríkar skyldur á sveitarstjórnarfólki á að haga sínum fjármálum með ábyrgum hætti. Um það vitna sveitarstjórnarlög, lög um opinber fjármál og reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Auk þess er ljóst að fjármagn sem nýtt er til greiðslu skuldarinnar er þá ekki til reiðu fyrir önnur verkefni sveitarfélagsins og bitnar þannig beint og óbeint á öllum íbúum sveitarfélagsins. Meirihlutinn lítur á það sem skyldu sína að standa vörð um hagsmuni allra Vopnfirðinga.

 

Afgreiðslan er borin upp til samþykktar og samþykkt með atkvæðum meirihlutans. Minnihlutinn greiðir atkvæði á móti.

 

b.       4 mánaða uppgjör

Milliuppgjörið sýnir rekstrarafgang upp á 13,5 mkr. Þar af er rekstur A hluta jákvæður um rúmlega 8 milljónir. Sveitarstjórn fagnar jákvæðri stöð á fyrsta ársþriðjungi og að fram sé komið milliuppgjör sem nýtist við rekstur og áætlanagerð sveitarfélagsins. Milliuppgjörið verður kynnt fyrir stjórnendum sveitarfélagsins. Samþykkt samhljóða.

c.       Umsóknarreglur fyrir leiguíbúðir eldri borgara

Umsóknarreglurnar samþykktar samhljóða.

d.        Kosning í hreppsráð

B – listi Framsóknarflokksins tilnefnir Sigríði Bragadóttur sem aðalmann og Axel Örn Sveinbjörnsson sem varamann í hreppsráð.

Ð – listi Betra Sigtúns tilnefnir Stefán Grím Rafnsson sem aðalmann og Írisi Grímsdóttur sem varamann í hreppsráð.

S – listi Samfylkingarinnar tilnefnir Bjart Aðalbjörnsson sem aðalmann og Björn Heiðar Sigurbjörnsson sem varamann í hreppsráð.

Samþykkt samhljóða

e.        Hluthafasamkomulag FFPA

Hluthafasamkomulag Finnafjarðarhafnar slhf. og Finnafjarðar slhf. samþykkt samhljóða eins og það liggur fyrir fundinum.

f.         Gjaldskrá sundlaugar

Sveitarstjórn þakkar fyrir erindið og undirskriftir íbúa og samþykkir að taka málið til skoðunar og afgreiðslu við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020. Samþykkt samhljóða.

g.        Umsókn um rekstrarleyfi – Bustarfell

Samþykkt samhljóða.

h.       Umsókn um tækifærisleyfi – Hofsball

Samþykkt samhljóða.

i.         Kjör oddvita

Borin upp tillaga að Sigríði Bragadóttir sem oddvita, Stefáni Grími Rafnssyni sem varaoddvita og Bárði Jónassyni sem öðrum varaoddvita. Samþykkt með atkvæðum meirihlutans. Minnihlutinn situr hjá.

 

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin og borin upp til samþykktar, hún samhljóða samþykkt og fundi slitið kl.15:23.

Fundargögn

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir