Fundargerð sveitarstjórnar 17.október 2019

17.10 2019 - Fimmtudagur

Fundur nr. 30 kjörtímabilið 2018-2022

 

  

Fundur haldinn í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 17.október 2019 í félagsheimilinu Miklagarði kl 16:00.

 

Mætt til fundar: Axel Örn Sveinbjörnsson, Björn Heiðar Sigurbjörnsson, Sigríður Elva Konráðsdóttir, Bárður Jónasson, Teitur Helgason, Stefán Grímur Rafnsson og Sigríður Bragadóttir.

 

Einnig sátu fundinn Sara Elísabet Svansdóttir, Baldur Kjartansson og Þór Steinarsson, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Í upphafi var leitað afbrigða um að setja inn mál sem ekki var á dagskrá. Um er að ræða málið „Endurnýjun heimasíðu sveitarfélagsins“ og lagt til að það verði á lið 2.g í dagskránni. Samþykkt samhljóða.

 1. Fundargerðir
  1. fundur Hreppsráðs 26.9

Liður 3.a. Drög að reglum um stuðning við leiðbeinendur sem eru í réttindanámi

Sveitarstjórn óskar eftir að tillagan verði send fræðslunefnd og skólastjórnendum til umsagnar og að sveitarstjóri vinni málið áfram í framhaldi og leggi fyrir hreppráð. Samþykkt samhljóða.

 1. fundur Hreppsráðs 10.10

Lagt fram

Liður 2.a: Innleiðing á Jafnlaunastaðli hjá Vopnafjarðarhreppi

Sara Elísabet Svansdóttir, skrifstofustjóri, segir frá vinnu við jafnlaunastaðal, launastefnu sveitarfélagsins og aðgerðaráætlun jafnréttisáætlunar. Sveitarstjórn samþykkir að hefja vinnuna og óskar eftir því að skrifstofustjóri haldi kynningu á málinu fyrir velferðarnefnd. Óskað er eftir umsögn nefndarinnar. Samþykkt samhljóða.

Liður 2.c: Sex mánaða uppgjör Vopnafjarðarhrepps

Baldur Kjartansson fjármálastjóri fer yfir sex mánaða uppgjör og svarar spurningum sveitarstjórnarfólks. Samkvæmt milliuppgjörinu eru skatttekjur í samræmi við áætlun þar sem þær koma inn með meiri þunga á seinni parti ársins. Rekstrarniðurstaða A og B hluta er neikvæð upp á 16.2 mkr. Munar þar mikið um hallarekstur Sundabúðar upp á 22,6 mkr,  höfnin er með lægri tekjur en á sama tíma og í fyrra og munar þar 8 milljónum. Innri leiga var hækkuð á árinu í samræmi við ábendingar endurskoðenda sem veldur breytingum á tekjum eignarsjóðs frá fyrra ári.

 1. Stjórnarfundur Héraðsskjalasafns Austfirðinga 23.9

Lagt fram

 1. Almenn mál
  1. Fræðslunefnd – skipan á þremur nýjum aðalmönnum

Sveitarstjórn samþykkir að skipa Dórótu J. Burba, Sigurþóru Hauksdóttur og Hjört Davíðsson í fræðslunefnd. Samþykkt samhljóða.

 1. Deiliskipulag miðhluta hafnarsvæðis á Vopnafirði

Sveitarstjórn hefur tekið athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu á sveitarstjórnarfundi og staðfestir deiliskipulag miðhluta hafnarsvæðis með tilliti til minnisblaðs skipulagsráðgjafa dags. 17.10.2019 sem fært er í gerðarbók og koma til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar. Óskað er eftir að tillagan verði auglýst í B deild stjórnartíðinda.  Samþykkt samhljóða.

 1. Frístundastyrkur – útfærð tillaga

Þórhildur Sigurðardóttir, verkefnisstjóri frístunda-, æskulýðs- og fjölmenningarmála, kynnir tillögur að fyrirkomulagi frístundastyrkja til barna  vegna íþrótta- og frístundaiðkunar. Sveitarstjórn samþykkir að veita frístundastyrki til barna á aldrinum 6-18 ára frá og með 1. janúar 2020 að upphæð 20.000 kr á ári á hvert barn sem um það sækir samkvæmt reglum. Sveitarstjóra falið að leggja útfærðar reglur fyrir hreppsráð. Samþykkt samhljóða.

 1. Fundartími sveitarstjórnar

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu um breytingar á fundartíma sveitarstjórnar. Samþykkt með atkvæðum meirihlutans. Minnihlutinn greiðir atkvæði á móti.

 

Minnihluti bókar: Við í minnihlutanum gerum athugasemd við afgreiðslu á máli sem merkt er “fundartími sveitarstjórnar” í fyrirliggjandi dagskrá. Á síðasta fundi sveitarstjórnar þann 19.september lagði Betra Sigtún fyrir sama erindi og var málinu frestað til næsta fundar eftir atkvæðagreiðslu. Ástæða frestunar var að ekki var full samstaða um málið og því mikilvægt að vinna það áfram þannig að allir væru sáttir við niðurstöðuna. Ekkert samráð hefur verið haft við minnihlutann frá síðasta fundi og því sér minnihlutinn sér ekki fært að samþykkja þessa tillögu sem reyndar kemur nú frá sveitarstjóra.

Minnihlutinn skilur fullvel þarfir barnafólks í hópi kjörinna fulltrúa en bendir á í því sambandi að taka megi líka tillit til þarfa annara kjörinna fulltrúa. Einnig vill minnihlutinn benda á að með því að færa fundartímann til kl. 14:00 í stað kl. 16:00 þá er verið að þrengja möguleika íbúa sem vilja sitja fundi sveitarstjórnar, sem eru opnir fundir, með því að færa fundartímann inn á vinnutíma.

 

 1. Framlög til stjórnmálasamtaka 2018

Lagt fram. Sveitarstjóra falið að framfylgja efni bréfi Ríkisendurskoðunar.

 1. Kynning á skógræktarverkefnum Vopnafjarðarhrepps

Else Möller, sem sinnir tímabundnum verkefnum á sviði skógræktar og umhverfismála kynnir yfirstandandi og möguleg skógræktarverkefni Vopnafjarðarhrepps og samstarf þeim tengt.

 1. Endurnýjun heimasíðu sveitarfélagsins.

Sveitarstjóri kynnir niðurstöður verðkannana vegna endurnýjunar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn felur hreppsráði að afla sér frekari upplýsinga og afgreiða málið út frá þeim. Samþykkt samhljóða.

 1. Bréf til sveitarstjórnar
  1. Bréf frá leikskólastjórnendum

Sveitarstjórn þakkar innsent erindi og tekur undir orð bréfritara um mikilvægi leikskólastigsins. Sveitarstjórn hvetur fræðsluyfirvöld á öllum stigum stjórnsýslunnar til að gera leikskólakennurum það kleift að sinna vinnu sinni og reka sína starfsemi svo að sómi sé að. Samþykkt samhljóða.

 1. Bréf frá Skógrækt ríkisins

Lagt fram og vísað til skipulags- og umhverfisnefndar. Sveitarstjóra falið að boða til fundar sveitarstjórnar og nefndarinnar með Skógrækt ríkisins. Samþykkt samhljóða.

 1. Minnisblað sveitarstjóra

Sveitarstjóri fer yfir helstu verkefni sín frá haustbyrjun.

 

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin og borin upp til samþykktar, hún samhljóða samþykkt og fundi slitið kl.19:43.

Fundargögn
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir