Gönguleiðir


Um Vopnafjörð liggja víða gönguleiðir, margar merktar. Flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, hvort sem er krefjandi fjallgöngu, ævintýralega tjaldferð, daglanga náttúruskoðun eða friðsæla kvöldgöngu.

Yfirlitskort um nokkrar helstu gönguleiðir er til sölu í upplýsingamiðstöðinni Kaupvangskaffi.


Nokkrar gönguleiðir á Vopnafirði


Um Hraunin ofan kauptúnsins liggja göngustígar sem ættu að vera við flestra hæfi. Leiðin er vinsæl meðal hlaupara og tilvalin til eftirmiðdagsgöngu með útsýni yfir kauptúnið og fjörðinn.

Ofar í Hraununum er fell sem kallað er Sjónvarpshæð; þar er útsendingarmastur Ríkisútvarpsins. Gönguleiðin liggur um vegslóða sem hefst við gamla veginn inn í Vesturárdal, skammt innan við spennustöð Rarik á Búðaröxl.

Sandvík er mikil og svört sandströnd innst í firðinum. Þar strandaði flutningaskipið Mávurinn 2. október 1981. Mannbjörg varð en enn má sjá glitta í skipsflakið. Gönguleiðin hefst við vegslóða sem liggur niður að víkinni innan við golfvöllinn.

Enginn ætti að láta náttúruperluna Tangasporð fram hjá sér fara. Á leiðinni um þennan ysta og óbyggða hluta Kolbeinstanga eru margar sérkennilegar klettamyndanir, rómantískar smávíkur og hvítar skeljasandsfjörur. Þrjú fell einkenna Tangasporð: Fagrafjall rétt utan Vopnafjarðarkauptúns, Miðfell utar og Taflan yst. Suðurleiðin um Tangasporð hefst við veghlið ofan bæjarins Leiðarhafnar undir Fagrafjalli. Norðurleiðin hefst á göngustíg yst í kauptúninu við enda Lónabrautar.

Enginn fjallgöngumaður getur sleppt því að klífa Krossavíkurfjall, tæplega 1100 metra hátt. Í björtu veðri er útsýni þaðan til Langaness, Dyrfjalla, Herðurbreiðar og inn á hálendið.

Meðal annarra göngustaða eru Svínabakkafjall, Hvammsá í Selárdal, Drangsnes, Gljúfursárdalur, Fuglabjarganes, Skjólfjörur, Böðvarsdalur, Torfastaðanúpur í Vesturárdal, Vindfell, Lambadalur, Arnarvatn, Foss í Hofsárdal, leiðin frá Ytra-Nýpi að sundlauginni í Selárdal, Skipshólmi og Nýpslón.

Sums staðar þarf að sýna sérstaka aðgát. Leitið leiðsagnar á upplýsingamiðstöðinni Kaupvangskaffi.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir