Elstu hús Vopnafjarðar


IMG_9871.JPGÍ miðju kauptúni Vopnafjarðar, rétt fyrir ofan verslunina, standa elstu hús þorpsins, Guðjohnssenshús (Jaðar, 1880), Baldursheimur (Einarshús, 1883-4) og Kaupvangur hinum megin plansins (1884).  Á margan hátt og ekki hvað síst í byggingarsögulegu tilliti eru hús þessi mikilsverð.  Byggingarmeistari þeirra var Frederic Bald, sá hinn sami og hafði yfirumsjón með byggingu Alþingishúss Íslendinga og Hegningarhússins í Reykjavík.


Glæsibær var byggður 1910 af Olgeiri Friðgeirssyni þáverandi  verslunarstjóra Örum og Wulff. Íbúð var þá á neðri hæð  hússins og verslun á efri hæð. Glæsibær er timburhús, klætt með járni og sennilega verið málað rautt. Núverandi eigandi leiðir að því  líkum að frá skærum lit þess upphaflega komi nafnið Glæsibær. 

IMG_9873.JPGMilli Glæsibæjar og Baldursheims stóð áður hús sem kallað var Bakaríið en það hefur nú verið rifið. Pétur Guðjohnssen lét byggja Guðjohnssenshús (Jaðar) og bróðir hans, Einar Guðjohnssen læknir, átti og bjó í Baldursheimi. Pétur var verslunarstjóri verslunarinnar Örum og Wulff 1875-1883. Einar lést af slysförum langt fyrir aldur fram eftir 3 ára starf sem héraðslæknir á Vopnafirði.


Þeir bræður voru vel liðnir og tóku virkan þátt í samfélaginu. Í minningargrein um Pétur segir: „...var riðinn við flestar framkvæmdir í framfara áttina, sem áttu sér stað í þessu byggðarlagi, í þau meir en 25 ár, sem hann lifði hér.“


Frá árinu 1906 var símstöð í Guðjohnssenshúsi og póstþjónusta í Baldursheimi, en símstöðin fluttist einnig yfir í Baldursheim árið 1922 og var hvort tveggja starfrækt þar fram á miðja tuttugustu öldina.


Inni í Kaupvangi er líkan eftir Jón Pétur Einarsson af plássinu, miðbæ Vopnafjarðar, eins og það leit út um aldamótin 1900. Ykkur er velkomið að skoða það.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir