Náttúra


Vopnafjörður er allbreiður flói milli Bakkaflóa og Héraðsflóa. Fyrir miðjum firði er tangi, Kolbeinstangi, þar sem Vopnafjarðarkauptún stendur. Norðan Kolbeinstanga er innfjörðurinn Nýpsfjörður og inn af honum Nýpslón.
Náttúra Vopnafjarðar er einstaklega fjölbreytt og skiptast á mýkt hins gróðursæla undirlendis og klettamyndanir við sjávarsíðuna.

Mikill fjallgarður rís handan fjarðarins frá Tanganum séð. Krossavíkurfjöll eru þar mest áberandi en syðst rísa Smjörfjöll sem eru hæstu fjöll fjarðarins.

Inn af Vopnafirði ganga þrír megindalir og mikið undirlendi. Hofsárdalur er syðstur, næstur er Vesturárdalur og Selárdalur nyrstur. Um dalina renna rómaðar laxveiðiár. Ofan dalanna eru miklar heiðar þar sem víða var búið frá fyrri hluta nítjándu aldar fram á þá tuttugustu.

Strandlengja Vopnafjarðar er áhugaverð þar sem hólmar, sjávarbjörg, drangar og sérkennilegar klettamyndanir eru einkennandi. Innst í firðinum er mikil sandströnd, Sandvík.

Víða í Vopnafirði má sjá hvernig skriðjökullinn sem myndaði fjörðinn hefur sorfið, borið fram og rist rákir í umhverfið á leið sinni til sjávar.

Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir