Félagastarfsemi


Félag eldri borgara

Formaður: Hólmfríður Kristmannsdóttir


Handverkshópurinn Nema hvað!

Handverkshópurinn Nema hvað! hefur um árabil rekið verslun við Hafnarbyggð árið um kring með lengri opnun að sumri. Félagar í handverkshópnum leggja fram vinnu sína sem seld er í versluninni auk þess sem boðið er uppá kaffisopa fyrir gesti en verslunin virkar sem sýningarsalur um leið og þar er hægt að kaupa verk meðlima hópsins.


Kiwanisklúbburinn Askja

Um Kiwanis hreyfinguna segir:  Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna, sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið, og láta gott af sér leiða. Í samstarfi fá þessir aðilar áorkað því sem einstaklingar geta ekki einir. Frjálst samstarf gerir þeim kleift að vinna að alþjóðlegum verkefnum innan hinnar alþjóðlegu hreyfingar. Þeir vinna einnig að umbótum á landsvísu. Ekki síst vinna þeir að mannúðar og framfaramálum sem horfa til heilla fyrir bæjarfélag þeirra, sem opinberir aðilar annað hvort vilja ekki eða geta ekki sinnt. Þannig verða þeir leiðandi aðilar í sínu byggðarlagi.

Vopnfirskir Kiwanismenn hafa fylgt hugmyndum alþjóðahreyfingarinnar í gegnum árin og lagt mýmörgum góðum málefnum lið.  Koma þeir saman 2var í mánuði á Hótel Tanga og eiga með sér gæðastund og ræða góða málefni. Forseti félagsins er Ingólfur B. Arason.


Kvenfélagið Lindin

Formaður: Karen Hlín Halldórsdóttir

Kvenfélagið hefur starfað allt frá 1921.  Aðalstarfsvæðið var lengst af sveitin, en nú starfar konur úr öllu byggðarlaginu í félaginu.  Allt frá upphafi hefur verið markmið félagsins að styðja þá sem minna mega sín og leggja góðum málum í samfélaginu lið.  Konur í kvenfélaginu hafa unnið þrotlaust að ýmsum velferðarmálum. Í seinni tíð ber hæst byggingu Sundabúða, aðstoð við kaup á búnaði til grunnskólans, endurbygging Staðarholts sem nú er félagsheimili kvenfélagsins og stofnun Menntasjóðs Lindarinnar sem stutt hefur konur til framhaldsnáms síðan 1997.  Lindarkonur styðja við Minjasafnið á Bustarfelli með sjálfboðavinnu við hreinsun bæjarins og á safnadaginn.


Golfklúbbur Vopnafjarðar

Golfklúbbur Vopnafjarðar var stofnaður þann 18. september 2008.  Eðlilega var aðdragandi okkur en þegar hreyft var við hugmyndinni meðal golfara reyndist almennur áhugi fyrir stofnun golfklúbbs á Vopnafirði með formlegum hætti - og ekki var litið um öxl fyrr en því verki var lokið. Þess má geta að  stofnaður var golfklúbbur á Vopnafirði árið 1984. Var sá allvirkur um stund en áhuginn tók að dvína og einungis 8 árum síðar var saga hans öll. Menn gáfu þó drauminn aldrei upp á bátinn, menn og konur héldu áfram að arka um hlíðarnar ofan Skála í endalausri baráttu við hvítu kúluna á velli sem þjónustumiðstöð sveitarfélagsins hefur þjónað eftir bestu getu.

Golfvöllur Vopnafjarðar er 9 holu völlur innan þéttbýlisins í landi Skála. Þykir völlurinn þrátt fyrir smæð sína einkar áhugaverður við að eiga fyrir golfarann, brautir eru stuttar en mjög krefjandi. Mikil vinna hefur verið lögð í að endurbæta völlinn á síðustu árum og búið er að byggja glæsilegan golfskála. Formaður Golfklúbbs Vopnafjarðar er Steindór Sveinsson, s.: 894 4521

Golfvellinum hefur verið lýst svo:
Golfvöllurinn á Vopnafirði er 9 holu völlur, sem legu sinnar vegna hefur ákveðna sérstöðu meðal golfvalla á Íslandi. Hæðótt landslagið, í tilfellum skásneitt, getur verið gestinum ögrandi viðureignar og þrátt fyrir smæð sína skortir fjölbreytnina ekki. Fagurt umhverfið með myndarleg Krossavíkurfjöll handa fjarðar, eykur enn á ánægjuna. Njótið leiksins – verið velkomin á Skálavöll.

Golfklúbbur Vopnafjarðar


Hestamannafélagið Glófaxi

Formaður: Halldór G. Jónasson

Hestamannafélagið Glófaxi hefur aðsetur sitt í hesthúsahverfinu í Vesturárdal, í landi Norður-Skálaness skammt frá þéttbýli Vopnafjarðar.  Hefur starfið vaxið fiskur um hrygg með nýju áhugasömu fólki en hestagerði félagsins hefur dregið að sér fjölda fólks þegar boðið hefur verið uppá viðburði tengdu starfi þess.  Úr hópi félagsmanna hafa menn sótt námskeið í hestamennsku og geta þannig fært þekkingu sína áfram til áhugasamra íbúa sveitarfélagsins.  Í ljósi þessa hefur Glófaxi boðið uppá reiðnámskeið sl. sumur sem vel hafa verið sótt.

 
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir