Menningarviðburðir


Menningarmálanefnd Vopnafjarðarhrepps stendur fyrir flestum stærstu menningarviðburðum á Vopnafirði.

Einu sinni á ágústkvöldi
var árviss hátíð í ágúst til heiðurs tón- og leikskáldunum Jóni Múla og Jónasi Árnasyni sem fæddust á Vopnafirði. Ekki haldin sl. ár.

Vopnaskak er hin hefðbundna bæjarhátíð Vopnafjarðar í júlí og hefur verið haldin í mörg ár, á tímabili undir nafninu Vopnafjarðardagar. Árið 2010 skipulögðu einstaklingar hátíðina og hún tókst með ágætum. Komst hefð á og Vopnaskak er bæjarhátíð Vopnfirðinga.

Aðrir fastir viðburðir eru til dæmis Dagar myrkurs í nóvember og bókmenntakynning um mánaðamótin nóvember-desember.

Jóladansleikur fyrir börn er haldinn á milli jóla og nýárs. Á gamlárskvöld er áramótabrenna með flugeldasýningu á Búðaröxl. Á þrettándanum er haldin þrettándabrenna á sama stað.

Þorrablótið er haldið næstsíðustu helgi janúarmánaðar og er ávallt vel sótt. Þar er liðið ár gert upp í spéspegli.

Á öskudaginn ganga börnin um bæinn uppáklædd, kyrja söngva og þiggja góðgæti fyrir.

Árshátíð Vopnafjarðarskóla í mars er einn hápunkta menningarstarfsins - og nær langt út fyrir veggi skólans í öllum skilningi. Allir nemendur skólans taka þátt í að setja upp þrautþjálfuð leikrit og skemmtiatriði. Boðið er upp á tvær sýningar í félagsheimilinu Miklagarði með glæsilegu kaffihlaðborði í hléi.

Á Verkalýðsdaginn fjölmenna Vopnfirðingar í Miklagarð í boði Afls - starfsgreinafélags, hlýða á ræður fulltrúa úr röðum Afls og þiggja kaffiveitingar engu líkar.

Sjómannadagurinn er bundinn Vopnfirsku samfélagi föstum böndum og alltaf er mikið um að vera við höfnina þar sem karlar og konur reyna með sér í hinum ýmsu leikjum. Minningarathöfn er haldin og blómsveigur lagður að minnisvarða um drukknaða sjómenn.

Á Þjóðhátíðardaginn fer saman hátíðleiki og gáski. Að lokinni útidagskrá Ungmennafélagsins Einherja halda Vopnfirðingar í félagsheimilið Miklagarð þar sem kræsingar eru boðnar.
Tungumál


Skipta um leturstærð


LeitFlýtileiðir