01.12 2015 - Þriðjudagur

Jólaljósin tendruð

Síðastliðinn sunnudag var fyrsti sunnudagur í aðventu, sem er augljós merki um að jólin eru í nánd og niðurtalningin er hafin. Vopnfirðingar eins og aðrir landsmenn huga að jólum með sínum hætti. Hefð er komin fyrir dagskrá á fyrsta sunnudegi í aðventu, sem byrjar á messu í Vopnafjarðarkirkju, kökubasar í Kaupvangi og nær hámarki með tendrun ljósa jólatrésins með tilheyrandi dagskrá. Það væru ýkjur að halda því fram að ungviðið biði kórsöngs kallanna í karlakórnum en engar að beðið er komu jólasveinanna.

30.11 2015 - Mánudagur

Innanlandsflugið betur komið í Keflavík?

Í sl. viku var frá því greint að þegar á næsta sumri muni vera þörf á fjölgun starfsmanna á Keflavíkurflugvelli um 1.500 manns auk afleiddra starfa. Á sama tíma eru uppi hugmyndir um að byggja upp stóriðju í næsta nágrenni, völlurinn er óneitanlega stórðja, í Helguvík - tvær verksmiðjur fremur en eina. Sú uppbygging sem framundan er á næstu misserum á alþjóðlega flugvellinum á Suðurnesjunum er einungis upphafið af því sem koma skal því ef marka má orð forstjóra Isavia, Björns Óla Haukssonar, mun þróunaráætlun flugvallarins til ársins 2040 gera ráð fyrir að skapist allt að 60 þúsund störf í tengslum við flugvöllinn! Kristján Sigurjónsson, sem heldur úti vefnum www.turisti.is, telur Keflavíkurflugvöll vænlegri kost fyrir innanlandsflug sé horft til erlendra ferðamanna og þá með hliðsjón af Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

27.11 2015 - Föstudagur

Aðventan gengur í garð

Þeirrar stundar er ávallt beðið með eftirvæntingu að jólin gangi í garð. Eitt hinna fyrstu skrefa á þeirri leið er tendrun ljósa jólatrésins við Kaupvang á fyrsta sunnudegi í aðventu. Næstkomandi sunnudag, þann 29. nóvember, er sá dagur upp runninn. Af því tilefni efnir menningarmálanefnd Vopnfjarðar til viðburðar við Kaupvang líkt og verið hefur um árabil og hefst kl. 17:00. Leikur ekki vafi á að einkum ungviðið vilji ekki missa af þessum viðburði en rétt er að hafa í huga að betra er að klæða sig vel.

26.11 2015 - Fimmtudagur

Rithöfundalest(ur) á Austurlandi

Í fréttatilkynningu í tengslum við bókmenntakynningu á Austurlandi segir að skáldin komi helgina 27.-29. nóvember, þ.e. komandi helgi. Stund og staður á Vopnafirði er: Föstudagur 27. nóvember nk. kl. 20:30 í Kaupvangskaffi. Í tilkynningunni segir:

Árviss rithöfundalest fer um Austurland helgina 27. til 29. nóvember. Á ferð verða kunnir höfundar með nýjustu verk sín. Iðunn Steinsdóttir varpar ljósi á langafa sinni í Hrólfs sögu sem Salka gefur út, Jón Gnarr segir frá Útlaganum sem JPV gefur út og Kristín Helga Gunnarsdóttir les um Litlar byltingar sem kemur hjá JPV. Sigurjón Bergþór Daðason kemur með sína fyrstu bók, Hendingskasti, og Austfirðingurinn Smári Geirsson les úr riti sínu sem Sögufélagið gefur út, Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915.

Veðrið núna

Lítils háttar snjókoma

Skjaldþingsstaðir

kl. 18:00
Hitastig:
2,0 °C
Vindur:
4 m/s
Vindátt:
NNATungumál


Skipta um leturstærð


Leitvopnafjörður.is
Velkomin á opinberan vef Vopnafjarðar.
Komdu við og kynnstu fjölbreyttri náttúru og lifandi sögu.

Flýtileiðir