23.10 2014 - Fimmtudagur

Svo kom vetur

Vopnfirðingar líkt og aðrir íbúar Norður- og Austurlands nutu líklega besta vors/sumars/hausts um langt árabil á umliðnum mánuðum; sumir miðaldra menn með sérlega gott veðurminni ganga svo langt að staðhæfa að þeir myndu ekki betri tíð en þessa. Hvort það er rétt eður ei er hægt að fullyrða að tíðin var góð, annað sumarið í röð var veður lengstum blítt eftir nokkur sumur harla léleg á undan við ríkjandi norðanátt og hita undir meðallagi. Svo líður þetta ár og þeir sem minnst muna rifja upp tíðina síðustu daga og vikur og halda því blákalt fram að sumarið 2014 hafi boðið upp á fáeina daga þar sem hægt var að flatmaga í geislum sólar. Og við því er ekkert að gera. Svo kom vetur jafn skyndilega og sumarið nokkrum mánuðum fyrr. Og þjóðin var slegin furðu – enn einu sinni. 

23.10 2014 - Fimmtudagur

Selárlaug lokuð í dag, fimmtudag

Frá Selárlaug:

Selárlaug verður lokuð í dag, fimmtudaginn 23. október, allan daginn en opin eftir það samkvæmt auglýstri opnun; virka daga milli kl. 10:00-12:00 og um helgar milli kl. 12:00-16:00.

Er fólk beðið að virða þessa opnun - og lokun.

21.10 2014 - Þriðjudagur

Lokahóf yngri flokka Einherja

Sumarið er að baki fyrir nokkru en tími uppgjörs yngri flokkastarfs Ungmennafélagsins Einherja var haldið síðastliðinn föstudag í félagsheimilinu Miklagarði, að viðstöddu fjölmenni. Auðvitað eiga ekki allir heimangengt og sumir farnir í skóla en þeir sem sáu sér fært um að mæta áttu þar góða stund; móttóku viðurkenningar með þökk fyrir sumarið, tilheyrandi myndatöku og frambornar veitingar í formi pítsu Hótels Tanga með frönskum – og fengu börn jafnt sem fullorðnir.

20.10 2014 - Mánudagur

RKÍ eldaði fyrir Ísland

Rauði krossinn á Íslandi stóð fyrir landsæfingu í gær, sunnudaginn 19. október, milli klukkan 11-15, og bauð að því tilefni þjóðinni jafnframt í mat. Alls voru 48 fjöldahjálparstöðvar opnar um allt land þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins stóðu vaktina, rétt eins og um alvöru neyðarástand væri að ræða. Klúbbur matreiðslumeistara lagði Rauða krossinum lið á landsæfingunni með því að reiða fram þjóðarréttinn, íslenska kjötsúpu. Íslendingar hafa um langt árabil skilið gildi þess að styðja svo sem kostur er við starfsemi RKÍ og í Vopnafjarðarskóla mætti fólk til að sýna hug sinn til stofnunarinnar og að sjálfsögðu til að bragða á þjóðarréttinum góða sem aldrei svíkur bragðlaukana.

Veðrið núna

Alskýjað

Skjaldþingsstaðir

kl. 21:00
Hitastig:
0,2 °C
Vindur:
2 m/s
Vindátt:
SSVTungumál


Skipta um leturstærð


Leitvopnafjörður.is
Velkomin á opinberan vef Vopnafjarðar.
Komdu við og kynnstu fjölbreyttri náttúru og lifandi sögu.

Flýtileiðir