21.08 2014 - Fimmtudagur

Vopnafjarðarskóli settur

Í dag, fimmtudaginn 21. ágúst, var Vopnafjarðarskóli settur í sal skólans að viðstöddu fjölmenni. Að vanda kom í hlut skólastjórans Aðalbjörns Björnssonar að ávarpa gesti og fór í suttu máli yfir starfið í vetur, þakkaði þeim tveimur kennurum sem hverfa af vettvangi samfylgdina, Bjarney Guðrúnu Jónsdóttur og Arnari Ingólfssyni, Bjarney er hætt kennslu en Arnar í ársleyfi. Kynntur var til sögunnar nýr leiðbeinandi íþrótta, Bjartur Aðalbjörnsson, en ítrekaðar auglýsingar eftir íþróttakennara skiluðu engum árangri. Undanþágunefnd samþykkir lausn sem þessa en ekki hvað varðar sundkennslu og er enn óleyst mál en verður allra leiða leitað til lausnar. Er ungum leiðbeinandanum færðar árnaðaróskir.

20.08 2014 - Miðvikudagur

Makrílveiði hefur gengið vel

Mikil umsvif hafa verið í vinnslusölum HB Granda hf. á makrílvertíð og allt útlit fyrir að vertíðin verði með ágætum. „Makríll veiðist og hann góður“, sagði Magnús Þór Róbertsson, vinnslustjóri, „allt á pari má segja, vel veiðist og vinnslan gengur vel“. Sagði Magnús Þór makrílinn svipaðan og í fyrra, væri þó stærri en alls hefði félagið tekið á móti 15 þúsund tonna afla í heild og hefðu liðlega 9 þúsund verið frystar, allt er nýtt og annað farið í gegnum fiskimjölsverksmiðjuna. Nú heyrist að síld sé tekin að veiðast. „ Í raun eru engin skil á milli makríls- og síldarvertíðar, síld er tekin að veiðast en er engin óskastaða því auðvitað vildum við ná að ljúka vinnslu á makrílnum áður en við snúum okkur að síldinni. Þetta gerist hins vegar ár eftir ár og við kunnum að bregðast við því“.

19.08 2014 - Þriðjudagur

Hrinan í Bárðarbungu gæti haft miklar afleiðingar

Samkvæmt mati sérfræðinga er full ástæða til að gera ráð fyrir eldgosi í Bárðarbungu, eldgosi sem gæti haft miklar afleiðingar í för með sér. Nú þegar hefur viðvörun gagnvart alþjóðaflugi verið sett á næstefsta stig og á jörðu niðri gæti svo farið að brýr myndu skolast burt og stærsta vatnsfall Evrópu, Dettifoss, muni breyta um ásýnd svo um munar - hann myndi jafnvel sverfast niður. Það eitt út af fyrir sig væru meiriháttar hamfarir því Ísland án Dettifoss í sinni mynd er gjörbreytt land. Herðubreiðarlindir myndu heyra sögunni til. Sópuðust brýrnar burt verður ekki ekið um hálendið um langt skeið því bygging brúar, þó ekki væri nema til bráðabirgða, tekur vikur og mánuði. Færi svo að brýr hyrfu í hamfarahlaupi sætu Austfirðingar í þeirri stöðu að ekki væri lengur fært á Norðurland nema suðurleiðin … og hún er löng!

15.08 2014 - Föstudagur

Þorsteinn kvaddi Vopnafjörð í gær – Ólafur Áki tók við í dag

Þorsteinn Steinsson sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps síðastliðin 16 ár hefur ásamt konu sinni, frú Sigurbjörgu Guðmundsdóttur, kvatt Vopnafjörð. Þorteinn er hættur og farinn. Að afloknum sveitarstjórnarkosningunum 31. maí á umliðnu vori lá ljóst fyrir að Þorsteinn yrði ekki endurráðinn, öll framboðin litu svo á að komið væri að vatnaskilum og rétt að leita eftir nýjum framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Var þó í engu verið að kasta rýrð á störf Þorsteins, sem eins og allir aðrir í sömu stöðu, var ráðinn hverju sinni til 4ra ára og má fremur líta á það sem undantekningu en reglu að hljóta brautargengi fjórum sinnum. Dagurinn 14. ágúst 2014 var síðasti dagur Þorsteins í starfi og hverfur héðan til starfa á Grundarfirði.

Veðrið núna

Skjaldþingsstaðir

kl. 03:00
Hitastig:
6,2 °C
Vindur:
2 m/s
Vindátt:
SVTungumál


Skipta um leturstærð


Leitvopnafjörður.is
Velkomin á opinberan vef Vopnafjarðar.
Komdu við og kynnstu fjölbreyttri náttúru og lifandi sögu.

Flýtileiðir