02.10 2014 - Fimmtudagur

Austurbrú hélt aðalfund sinn í vikunni

Austurfrétt greindi frá því í fyrradag, þriðjudaginn 30asta september, að Austurbrú hafi haldið alafund sinn þann dag. Í framhaldi af fundinum hafi ný stjórn Austurbrúar skipt með sér verkum og er Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, nýr formaður stjórnar stofnunarinnar. Kom stjórnin saman í kjölfar aðalfundar og var fyrsta verk stjórnarinnar var að ráða Jónu Árnýju Þórðardóttur áfram sem framkvæmdastjóra til áramóta. Ekki var það nú langur tími þegar þess er gætt að 3 mánuðir standa eftir af árinu. Saga framkvæmdastjóra Austurbrúar er nokkuð merkileg, þ. e. forrennara Jónu Árnýjar, en verður ekki sögð hér.

01.10 2014 - Miðvikudagur

Messað með þátttöku starfsmanna Vopnafjarðarskóla

Síðastliðinn sunnudag fór fram guðsþjónusta með þátttöku starfsmanna grunnskólans en þann 25. mars 2012 var messað fyrsta sinni með þessu formi á Vopnafirði. Alla vega svo lengi sem tíðindamaður man þau 12.5 ár sem hann hefur átt búsetu á þessum stað. Fékk séra Stefán Már þessa bráðsnjöllu hugmynd, að virkja til frekari þátttöku hinn almenna íbúa sveitarfélagsins í messugjörðunni. Hefur tekist vel til, snjallt að brjóta upp formið með þessum hætti. Voru það starfsmenn sveitarfélagsins sem riðu á vaðið á sínum tíma en til þeirra heyra m. a. sveitarstjórnarmenn og komu þeir nokkrir að messugjörðinni fyrstu. Nú var sum sé röðin komin að starfsmönnum Vopnafjarðarskóla og ekki einungis tóku starfsmennirnir þátt í sjálfri messunni heldur höfðu veg og vanda að léttum hádegisverði sem samanstóð af ilmandi súpu og brauði – og féll gestum vel í geð og maga.

30.09 2014 - Þriðjudagur

Sundlaugin opin áfram og viðlagatrygging

Samkvæmt ákvörðun hreppsnefndar Vopnafjarðar verður Selárlaug opin áfram um óákveðinn tíma með sama sniði og verið hefur síðan sumri lauk, virka daga milli kl. 10:00-12:00 og um helgar milli kl. 12:00-16:00. Líkt og greint var frá þann 01. september sl. er Ólafur Björgvin sundlaugarvörður og þótt engin sé girðingin umhverfis laugarsvæðið verður lauginni eigi haldið opinni án gæslu, í laugina á enginn að fara. Þetta á ávallt við en staðan verður önnur þegar hægt er að skella í lás með sýnilegri lokun með mannheldri girðingu. Þrátt fyrir langa hefð þar sem Vopnfirðingar sem aðrir sem í sveitarfélagið komu gátu og leyfðu sér að fara í laugina eftir lokun er ekki heimilt að fara í Selárlaug á eigin ábyrgð og er vísað til reglugerðar 814 frá 2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

29.09 2014 - Mánudagur

Varða Vopnfirðinga sögu sótt heim

Minnisvarðinn, helgaður Vopnfirðinga sögu og stendur við Hof, lætur ekki mikið yfir sér og sjálfsagt eru þeir margir sem fara um Hofsárdalinn án þess að veita þessum lágstemmda minnisvarða sérstaka athygli. Hálfum kílómetra neðan þjóðvegar verður varðan tæplegan greind en hún nýtur þess eflaust að Hof heimsækja býsna margir enda er bæjarstæðið fagurt og kirkjubyggingar, smáar og stórar, laða að. Varðan, eins og minnisvarðinn hefur frá öndverðu verið nefndur, var afhjúpuð með viðhöfn fimmta júlí á sl. ári og kom í hlut Ásu Sigurðardóttur að gera það. Hafði Ása leitt samlestur nemanda í menningartengdri ferðaþjónustu veturinn 2009-10 er Þórunn Egilsdóttir, þáverandi starfsmaður Þekkingarnets Austurlands, stýrði. Á námskeiðinu fæddist hugmyndin að vörðunni í huga skapara verksins, Magnúsar Más, en sú gerjun sem átti sér stað innan hópsins var mikil og margt af því ógert af því sem áhugasamur hópurinn setti á blað.

Veðrið núna

Skjaldþingsstaðir

kl. 15:00
Hitastig:
8,8 °C
Vindur:
3 m/s
Vindátt:
VSVTungumál


Skipta um leturstærð


Leitvopnafjörður.is
Velkomin á opinberan vef Vopnafjarðar.
Komdu við og kynnstu fjölbreyttri náttúru og lifandi sögu.

Flýtileiðir