29.07 2014 - Þriðjudagur

Frábær Hafdís Huld!

Hún lætur ekki mikið yfir sér, Hafdís Huld Þrastardóttir, nett til vaxtarins, ljúf og lágstemd framkoman. Þegar Hafdís Huld er komin bak við hljóðnemann er sem unga konan vaxi á alla lund, ómþýð röddin og ukelele í höndunum grípur hún athygli allra og svei mér þá, hún er einn alskemmtilegasti tónlistarmaður sem tíðindamaður hefur notið á sl. árum. Með einlægt skopskyn fyrir sjálfri sér segir hún af sér sögur sem hrífur fólk. Söngurinn og hljóðfæraleikur Alisdair Wright er síðan fyrsta flokks, frábær. Nutu tónleikagestir Kaupvangskaffis í gærkvöldi stundarinnar, sem leið hratt því þannig er það þegar gaman er.

 

28.07 2014 - Mánudagur

Hafdís Huld á ferð - á Vopnafirði

Tónlistarkonan Hafdís Huld er á ferðalagi um landið til þess að fagna útgáfu sinnar þriðju sólóplötu Home. Er komið að Vopnfirðingum að njóta tónlistar Hafdísar Huldar því í kvöld, 28. júlí, kl. 20:00 – sem er ágisk – eru tónleikar í Kaupvangskaffi. Áðurnefnd plata Hafdísar Huldar kom út í Bandaríkjunum og Evrópu nú í vor og hefur fengið frábæra dóma. Með Hafdísi Huld á ferðalaginu er gítarleikarinn Alisdair Wright, maður hennar, en saman hafa þau komið fram á mörgum af stærstu tónlistarhátíðum heims. Raunar er dóttir þeirra, Arabella, einnig með í för en kemur ekki fram á tónleikum.

 

28.07 2014 - Mánudagur

Piltar og stúlkur í baráttu

Í síðastliðinni viku léku á Nývangi … nýja leikvangi sveitarfélagsins, lið 3. flokks drengja og Einherjastúlkur en myndarlegur hópur hefur æft í sumar undir stjórn Sigurðar Donys án þess að eiga fyrir höndum nokkurt verkefni. Drengjanna beið á hinn bóginn verðug verkefni því síðar í vikunni skyldi haldið suður til höfuðborgar lýðveldisins á Rey Cup knattspyrnumótið. Var leikurinn kærkomin æfing fyrir ungu mennina sem áður höfðu att kappi við kempurnar úr s. k. bumbubolta en sumir hverjir úr þeim hópi eru langt frá því að bera stóran kvið í anda nafngiftar! Veðrið var eins og best verður á kosið að kveldi á eyjunni kenndri við ís, sunnanþeyr og hátt í 20°C – yndislegt.

25.07 2014 - Föstudagur

Leikhópurinn Lotta sýndi Hróa hött

Leikhópurinn Lotta var í heimsókn á Vopnafirði enn á ný í vikunni, sl. þriðjudag nánar tiltekið, en heimsókn leikhópsins að sumri er fyrir margt löngu orðin að föstum lið í menningarlífi Vopnfirðinga. Leikverkin eru þess eðlis að þau höfðu fremur til yngri áhorfenda en þeim sem auðnast að vernda barnið í sjálfum sér hafa ekki síður ánægju af. Að þessu sinni var komið að Hróa hetti, íbúa Skírisskógar, Sherwood Forest upp á enskuna,  vinum hans, óvinum og öðrum þekktum persónum úr ævintýrunum að heilsa upp á okkur. Mikið gekk á og þótti sumum úr hópi allra yngstu að atgangurinn væri fullmikill, einkum þegar Jóhann landlausi tók að brugga launráð.

Veðrið núna

Lítils háttar súld

Skjaldþingsstaðir

kl. 18:00
Hitastig:
11,0 °C
Vindur:
5 m/s
Vindátt:
NNATungumál


Skipta um leturstærð


Leitvopnafjörður.is
Velkomin á opinberan vef Vopnafjarðar.
Komdu við og kynnstu fjölbreyttri náttúru og lifandi sögu.

Flýtileiðir