31.08 2016 - Miðvikudagur

Múlastofa lokar í vetur – opnuð á ný í vor

Framhaldsdeildin sem starfa mun á Vopnafirði í vetur og þann næsta hið skemmsta hefur fengið aðsetur í Kaupvangi – í húsnæði Múlastofu á 1. hæð hússins. Mun deildin nýta fremri hluta þess rýmis sem sýningin hefur en ýmsum möguleikum var velt upp og þessi kostur þótti vænlegastur með hliðsjón af húseignum sveitarfélagsins. Verður Múlastofu lokað frá og með 01. september nk. uns setrið opnar að nýju þann 01. júní 2017. Er um bráðabirgðalausn að ræða en það kom í hlut sveitarfélagsins að tryggja deildinni húsnæði.

29.08 2016 - Mánudagur

Vel gengur í makrílvinnslunni – söluhorfur batna

Mikil makrílgengd hefur verið við Íslandsstrendur og gengur veiðin í ljósi þess vel. Raunar er svo mikill makríll við Ísland að bátar á Suðurnesjum fara vart út fyrir höfnina í Keflavík til veiða. Bátarnir hafa náð fullfermi á nokkrum klukkustundum og landað 2-3 sinnum á dag. HB Grandi á Vopnafirði þarf ekki að kvarta því vel gengur í vinnslunni, hefur einkum og sér í lagi gengið vel eftir því sem á vertíðina hefur liðið. Sölumál hafa glæðst en við lokun Rússlandsmarkaðar missti Ísland sinn mikilvægasta viðskiptavin. Lönd í Vestur-Afríku hafa verið stór markaður fyrir makríl í ár en einnig Evrópulönd og Japan.

26.08 2016 - Föstudagur

Skólasetning Framhaldsskólans á Laugum sunnudaginn 28. ágúst kl. 18

Sem kunnugt er verður í vetur starfrækt framhaldsdeild á Vopnafirði með aðsetur í Kaupvangi. Er deildin undir handarjaðri Framhaldsskólans á Laugum og er tilkomin í samvinnu við Austurbrú og sveitarfélagið. Það eru því tímamót fyrir vopnfirskt samfélag þegar Framhaldsskólinn á Laugum verður settur sunnudaginn 28. ágúst nk. kl. 18.00. Við þá athöfn munum Vopnfirðingar sem stunda munu námið heima vera viðstaddir rétt eins og aðrir nemendur framhaldsskólans sem og verkefnastjóri á Vopnafirði, Bjarney Guðrún Jónsdóttir.

24.08 2016 - Miðvikudagur

Skólasetning Vopnafjarðarskóla

Sumarið líður undurskjótt. Íslenska sumarið er stutt og þar sem að tíðin er stundum góð og lengstum björt elskum við það. Sem hendi sé veifað er komið að blessuðum skólanum, skólasetning er staðfesting þess að sumarið er á enda. Var Vopnafjarðarskóli settur sl. mánudag, þann 22. ágúst og framundan vetrarstarfið með öllu því sem það inniber. Venju samkvæmt kom í hlut skólastjóra að setja skólann og eftir hnitmiðaða tölu héldu nemendur með umsjónarkennurum sínum í kennslustofurnar þar sem stundatöflur voru afhentar og rætt um fyrstu skóladagana. 

Veðrið núna

Skjaldþingsstaðir

kl. 00:00
Hitastig:
5,3 °C
Vindur:
1 m/s
Vindátt:
NA
Veljum VopnafjörðTungumál


Skipta um leturstærð


Leitvopnafjörður.is
Velkomin á opinberan vef Vopnafjarðar.
Komdu við og kynnstu fjölbreyttri náttúru og lifandi sögu.

Flýtileiðir