24.07 2014 - Fimmtudagur

17 vilja stól sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps

Sautján karlmenn sækjast eftir starfi sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps. Ráðgjafafyrirtækið Capacent er sveitarstjórn Vopnafjarðar til ráðgjafar í komandi vinnuferli og má vænta að innan skamms tíma liggi fyrir hver mun taka við af Þorsteini Steinssyni, sem stýrt hefur sveitarfélaginu í 16 ár og hefur verið ráðinn bæjarstjóri Grundarfjarðar.

24.07 2014 - Fimmtudagur

Grísalappalísa og Dj flugvél og geimskip skemmtu Vopnfirðingum

Félagsheimilið Mikligarður var vettvangur tónleika hljómsveitarinnar Grísalappalísu – sem heiðrar verndara sinn Megas með nafngiftinni m. a. – Dj flugvél og geimskip í gærkvöldi en bandið ásamt Steinunni Eldflaug Harðardóttur er á ferð um landið. Hefur Grísalappalísa unnið til ýmiskonar verðlauna en ku vera lítt þekkt meðal almennings enn sem komið er, er skynjun tíðindamanns. Steinunn vakti athygli á liðnum vetri er hún flutti lag (mögulega fleiri en eitt) í þætti Óla Palla, Studio A, á RUV en tónlistin er sannarlega ögrandi og öðru vísi en við eigum að venjast.

23.07 2014 - Miðvikudagur

Kauptún opnaði á ný í gær

Liðlega viku eftir bruna í lagerhúsnæði Kauptúns opnaði verslunin aftur í gær, þriðjudaginn 21. júlí, og má gera ráð fyrir að þeirri opnun hafi almennt verið fagnað meðal íbúa sveitarfélagsins. Með eina matvöruverslun – það er ekki grundvöllur fyrir tvær má líklega staðhæfa – eru Vopnfirðingar háðir versluninni sinni jafnvel þó öðru hverju sé lagt í langför og höndlað í tilteknum stórmarkaði. Langstærsta hluta dagvöru sinnar höndlar Vopnfirðingurinn í Kauptúni, heima í héraði, og svo skjótt sem opnun var auglýst var fólk mætt á vettvang, rölti með innkaupavagninn, kastaði kveðju á samborgara sína eða átti við það tal – allt var sem fyrr.

22.07 2014 - Þriðjudagur

Grísalandstúr og Leikhópurinn Lotta

Leikhópurinn Lotta hefur farið um landið sl. 8 ár og sýnt börnum á öllum aldri skemmtileg leikrit. Til Vopnafjarðar kemur hópurinn ávallt og er að þeirri heimsókn komið í dag, þriðjudaginn 22. júlí – á tjaldstæðinu kl. 18:00. Mun leikhópurinn sýna sjálfan Hróa hött, sem í æsku tíðindamanns var ein stóru hetjunum túlkuð á hvít tjaldinu af sjarmörnum Errol Flynn. Annað kvöld er komið að öðrum menningarviðburði á Vopnafirði er Grísalappalísa ásamt DJ Flugvél og Geimskip leika í félagsheimilinu Miklagarði kl. 21:00. Er fólk að sjálfsögðu hvatt til að fjölmenna á þessa viðburði en miðaverð er annars vegar 1.900 krónur og hins vegar 1.500 kr. nema hvað námsmenn greiða einungis 1.000 kr.

Veðrið núna

Léttskýjað

Skjaldþingsstaðir

kl. 15:00
Hitastig:
17,4 °C
Vindur:
4 m/s
Vindátt:
NNATungumál


Skipta um leturstærð


Leitvopnafjörður.is
Velkomin á opinberan vef Vopnafjarðar.
Komdu við og kynnstu fjölbreyttri náttúru og lifandi sögu.

Flýtileiðir