21.07 2016 - Fimmtudagur

Flugþróunarsjóður settur á laggirnar

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í mars síðastliðinn að veita 170 milljónir í Flugþróunarsjóð á þessu ári. Nú liggur fyrir að upphæðin er 300 milljónir. Flugþróunarsjóðnum er beinlínis ætlað að styrkja millilandaflug um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Málefni ferðamála hafa oftsinnis verið til umræðu á heimasíðu Vopnafjarðar enda varðar málið okkur á allan hátt. Legu Vopnafjarðar verður ekki breytt og munum, sama hvað gerist í viðleitni ríkisvaldsins að styrkja millilandaflug um Egilsstaðflugvöll, þurfa að hafa fyrir því að fá ferðafólk til taka á sig krókinn sem 53 km. óneitanlega eru af þjóðbraut 1. Clive Stacey hjá Discover the World, sem heldur uppi flugi milli Englands og Egilsstaða í sumar, segir massatúrisma af verstu gerð vera stundaðan á höfuðborgarsvæðinu. Heyrt eitthvað svipað áður?

19.07 2016 - Þriðjudagur

Rólegt yfir makrílveiðunum

Makrílveiðarnar, sem hófust með löndun Hugins VE um miðjan júnímánuð, hafa gengið heldur brösulega en það mun vera löngu kunn staðreynd að aldrei er á vísan að róa – stundum veiðist vel, stundum illa. Júníafli íslenskra skipa var t.a.m. í umliðnum júní 42 þúsund tonn, sem er 43% minni afli en í júní í fyrra. Samkvæmt Fiskifréttum var stóð botnfiskaflinn í stað í 35 þúsund tonnum en uppsjávarafli var aðeins rúm tvö þúsund tonn samanborið við 34 þúsund tonn. Mest munar um það að enginn kolmunnaafli var í júní núna en 28.000 tonn í sama mánuði í fyrra. Þá nam makrílaflinn 2.300 tonnum í júní í ár samanborið við 5.100 tonn í fyrra.

18.07 2016 - Mánudagur

Sumarlokun hreppsskrifstofunnar

Athygli er vakin á sumarlokun skrifstofu Vopnafjarðarhrepps.

Verður skrifstofan lokuð í viku 30 og 31, þ.e. dagana 25. júlí til og með 05. ágúst. Opnar skrifstofan að nýju mánudaginn 08. ágúst kl. 10:00 og er opin þann dag eins og alla virka daga milli kl. 10:00 - 15:00.

-Sveitarstjóri

14.07 2016 - Fimmtudagur

Mikið um að vera í fótboltanum á Vopnafirði

Á hásumri rúllar boltinn sem aldrei fyrr, á Vopnafirði sem annars staðar á Íslandi. Óháð vindáttum og hitastigi er leikin knattspyrna og næstu 3 daga stendur hún til boða fyrir áhugasama heimamenn og gesti. Í kvöld kl. 20:00 taka Einherjastúlkur í meistaraflokki kvenna á móti sameiginlegu liði af Austurlandi, Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir er nafn þess og má búast við hörkuviðureign. Mættust liðin í fyrstu umferð Íslandsmótsins 18. maí sl. og lauk með 1:1 í miklum baráttuleik. Er Einherji í 2. sæti á þessari stundu og austanstúlkur í 3. Á morgun, frá og með kl. 16:00, er 3ja liðamót 7 manna liða í 4. flokki drengja af Norður- og Austurlandi - og á laugardag kl. 14:00 mætir meistaraflokkur karla Dalvík/Reyni.

Veðrið núna

Skjaldþingsstaðir

kl. 06:00
Hitastig:
9,8 °C
Vindur:
3 m/s
Vindátt:
ANA
Veljum VopnafjörðTungumál


Skipta um leturstærð


Leitvopnafjörður.is
Velkomin á opinberan vef Vopnafjarðar.
Komdu við og kynnstu fjölbreyttri náttúru og lifandi sögu.

Flýtileiðir