02.07 2015 - Fimmtudagur

Vopnaskak hafið

Í gær, miðvikudaginn fyrsta júlí, hófst bæjarhátíðin Vopnaskak með nokkrum viðburðum sem voru vel sóttir. Á slaginu kl. 17:00 setti Berghildur Fanney menningarmálafulltrúi hátíðina um leið og hún opnaði ljósmyndasýningu Árna Róbertssonar og Ólafs Áka Ragnarssonar á efri hæð Sundabúðar, syðsta hús. Dúddarnir voru mættir með hljóðfærin sín og skemmtu gestum. Kl. 17:30 setti Bjarney Guðrún ratleik af stað í þéttbýli Vopnafjarðar og voru þátttakendur á öllum aldri en af þeim ágæta viðburði á tíðindamaður ekki mynd. Veit þó að mikil ánægja var meðal þátttakenda. Leikið var í sk. Launaaflsbikar, utandeildarkeppni UÍA, hvar Einherji lék gegn Val frá Reyðarfirði og hafði 5:1 sigur. Loks kl.20:30 stóð Einherji að barsvari, Pub Quiz, í félagsheimilinu Miklagarði og tókst með ágætum en svarinu stýrði Snorri Eldjárn og gerði vel.

01.07 2015 - Miðvikudagur

Makrílvertíð er hafin

Tíðindamaður setti sig í samband við Magnús Þór Róbertsson, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, og spurði fregna af makrílveiði. Skömmu fyrir mánaðarmótin síðustu bárust fregnir af að makríll hafi veiðst við Vestmannaeyjar. Sagði Magnús Þór vinnu þegar hafna í uppsjávarfrystihúsinu við lokaþrif fyrir komu fyrstu innlagnar en þess er vænst að Faxi RE komi til hafnar um miðnæturbil þessa dags. Er skipið með um 220 tonn makríls í lestinni sem veiddust suður af landinu, út af Vík og norður með Austurlandi. Markar koma Faxa upphaf makrílvertíðar á Vopnafirði og er þess vænst að Lundey NS haldi til veiðar frá Reykjavík í kvöld.

29.06 2015 - Mánudagur

Myndarleg dagskrá Vopnaskaks 2015

Vikan markar tímamót því hún inniheldur fjölskylduhátíðina Vopnaskak sem hefst miðvikudaginn 01. júlí nk. Er dagskráin hin myndarlegasta, margskonar viðburðir eru í boði og margbreytileikinn trygging þess að hver og einn finnur sitthvað við hæfi. Í síðastliðinni viku fór flygildi í hvert hús sveitarfélagsins og sjálfsagt er margur þegar búinn að haka við þá viðburði sem þeir hyggjast sækja og/eða taka þátt í. Eru íbúar hvattir til að skreyta hús sín í þeim litum sem hverfi þeirra hefur verið úthlutað, blátt, appelsínugult o. s. frv. Nú er vika Vopnaskaks gengin í garð og íbúar jafnt sem gestir gleðjast yfir tilbreytninni. Frekar verður greint frá hátíðinni á þessum vettvangi þegar hún þokast af stað. Hér að neðan er dagskrá Vopnaskaks 2015 að finna með myndum frá fyrri hátíðum.

26.06 2015 - Föstudagur

Rögnunefndin vill aðallandsbyggðaflugvöllinn í Hafnarfjörð

Rögnunefndin svokallaða, sem nefnd er eftir Rögnu Árnadóttur formanni nefndarinnar, hefur nú skilað skýrslu sinni og niðurstöðum, en um er að ræða stýrihóp um sameiginlega athugun ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group á flugvallarkostum á höfuðborgarsvæðinu. Um málefni Reykjavíkurflugvallar hefur verið fjallað á heimasíðu Vopnafjarðar og fyrir því færð rök að flugvöllurinn er mikilvægasti flugvöllur landsbyggðanna, alþjóðlegur flugvöllur er í nokkurra tug kílómertra fjarlægð. Á því leikur enginn vafi að íbúar landsbyggðanna sem sækja þurfa höfuðborgina heim njóta staðsetningar flugvallarins, sem er steinsnar frá miðborginni.

Veðrið núna

Alskýjað

Skjaldþingsstaðir

kl. 15:00
Hitastig:
10,6 °C
Vindur:
3 m/s
Vindátt:
NTungumál


Skipta um leturstærð


Leitvopnafjörður.is
Velkomin á opinberan vef Vopnafjarðar.
Komdu við og kynnstu fjölbreyttri náttúru og lifandi sögu.

Flýtileiðir