26.10 2016 - Miðvikudagur

Sumargotssíldin fundin – Víkingur AK í höfn

Leit hefur staðið yfir að íslensku sumargotssíldinni en því fer fjarri að fiskur finnist þótt veiðiheimildir séu til staðar. Engu skiptir hver fiskurinn er við erum alltaf háð duttlungum náttúrunnar og loks eftir leit um nokkurt skeið fannst fyrsta íslenska sumargotssíldin á vertíðinni í sl. viku – og þá í litlu magni. Sl. laugardag voru fréttir af Berki NK vestur af Garðskaga þar sem skipið hafði fengið 200 tonn í 3 holum og var hljóðið í mönnum harla dauft. Í gær bárust þær fregnir að loks hefði síld veiðst í einhverju magni djúpt vestur af Reykjanesi og Faxaflóa. Voru það skip HB Granda sem fundu og veiddu. Fram kemur í frétt á félagsins að síldin væri mjög dreifð á stóru svæði en síldin vel haldin og meðalþyngd hennar um 300 grömm.

24.10 2016 - Mánudagur

Einherjafagnaður, yngri flokkahóf

Vetur er genginn í garð þótt enn um sinn njóti Íslendingar einstakrar veðurblíðu. Þann 12. október sl. hélt Ungmennafélagið Einherji ungviði sínu árlegt hóf í félagsheimilinu þar sem sumarið er gert upp. Einherji, líkt og mörg önnur íþróttafélög á Íslandi, tók upp þá stefnu fyrir nokkrum árum að hætta að heiðra einstaka leikmenn og veita öllum viðurkenningu fyrir framlag þeirra til félagsins. Allir leikmenn Einherja hvar í flokki sem þá kann að vera að finna eru sigurvegarar. Er þátttaka barna og unglinga í starfi Einherja mikil og eins eru ungmenni héðan að leika með öðrum félögum á Austurlandi. Í sumum tilfellum er liðið sameiginlegt fyrir Austurland, í öðrum er um að ræða einstakt félag úr landshlutanum.

21.10 2016 - Föstudagur

Síldar leitað en vel gekk á makríl og NÍ vertíð

Vopnafjörður og HB Grandi hf. eru bundin sterkum böndum. Gangi HB Granda vel ríkir velmegun í vopnfirska samfélaginu en áhrif félagsins eru ekki bundin við starfsmenn þess heldur byggist starfsemi þjónustufyrirtækja sveitarfélagsins að miklu leyti á þjónustu við útgerðarrisann. Það er því sérlega gleðilegt þegar vel vegnar en svo sem greint var frá á þessum vettvangi nýverið öfluðu Venus NS og Víkingur AK meira en önnur skip íslenska flotans. Á heimasíðu félagsins, www.hbgrandi.is, er frá því greint sl. föstudag að alls hafi veiðst 29 þúsund tonn af makríl og norsk-íslenskri síld í sumar – þau tonn öll veiddu Venus og Víkingur.

18.10 2016 - Þriðjudagur

Vopnafjörður hlýtur 8,5 milljón króna styrk frá Minjastofnun

Sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps sótti um styrk til Minjastofnunar sem fallið gæti undir lög um verndarsvæði í byggð. Fékk hann jákvæða svörun því sveitarfélagið fékk samþykktan 8,5 milljón króna styrk. Saga Vopnafjarðar er löng og þarf ekki að fara ýkja langt aftur í tímann til að rifja upp þá sviðsmynd sem við blasti í miðbæ þorpsins sem mynduð var af þyrpingu timburhúsa. Á seinni hluta liðinnar aldar átti verndun gamalla húsa ekki upp á pallborðið á Íslandi fremur en t.a.m. í Skandinavíu með þeim afleiðingum að gríðarlegur fjöldi húsa var rifin vegna nýrra hugmynda um miðbæjarskipulag. Héðan fóru tvö merkileg hús og prýða nú Árbæjarsafn innan um önnur hús með sögu. Þessi hús koma ekki aftur en hugmynd sveitarstjóra felur í sér að hugmyndafræði framtíðar taki mið af núverandi stöðu og um leið sögu staðarins. Þess má geta að styrkur sá er Vopnafjarðarhreppur fær er sá næsthæsti sem úthlutað verður að þessu sinni en alls var úthlutað um 121 milljón króna.

Veðrið núna

Skjaldþingsstaðir

kl. 00:00
Hitastig:
6,3 °C
Vindur:
7 m/s
Vindátt:
S
Veljum VopnafjörðTungumál


Skipta um leturstærð


Leitvopnafjörður.is
Velkomin á opinberan vef Vopnafjarðar.
Komdu við og kynnstu fjölbreyttri náttúru og lifandi sögu.

Flýtileiðir