22.08 2017 - Þriðjudagur

Íþróttahúsið opnar brátt á ný

Gólf íþróttahúss Vopnafjarðar hefur verið endurnýjað svo sem frá hefur verið greint hér að gera skyldi. Fagmennirnir Björn og Gunnlaugur luku verki sínu um miðjan dag á sunnudag síðastliðinn en það er í mörg horn að líta þegar ráðist er í gólfefnaskipti íþróttahúss. Gamli dúkurinn var búinn að þjóna samfélaginu vel í 30 ár en var vissulega farinn að láta á sjá. Samþykkt var í sveitarstjórn á liðnu hausti að fara í þessa framkvæmd og má fullyrða að henni verði vel fagnað af notendum þegar húsið opnar í byrjun næstu viku.

21.08 2017 - Mánudagur

Vopnafjarðarskóli settur í dag

Í dag verður Vopnafjarðarskóli settur í sal skólans. Starfsmenn hófu vinnu sína flestir í liðinni viku þar sem starfið var skipulagt en setning skólans markar ávallt tímamót. Frelsi sumarsins sem ungviðið hefur notið er að baki og við tekur skipulagt vetrarstarfið. Framundan er því tími skyldumætingar og skipulegs náms en þó frelsið sé yndislegt hefur stundartaflan sína augljósu kosti því meiri festa kemst á líf hlutaðeigandi.

18.08 2017 - Föstudagur

Sýningin LAUSIR ENDAR á Vopnafirði

Er uppruni Álfkonudúksins frá Burstarfelli fundinn? Þessarar spurningar er spurt í tengslum við sýninguna LAUSIR ENDAR sem opnar laugardaginn 19. ágúst nk. kl. 13:00 í safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju. Verður Álfkonudúkurinn sýndur á Vopnafirði fyrsta sinni svo um merkilegan viðburð er að ræða. Einnig verða til sýnis listaverk sem unnin hafa verið undir áhrifum frá dúknum af norsku listakonunni Ingrid Larssen sem átti hér viðdvöl á haustdögum 2016. Auk heldur til sýnis teikningar Vopnfirskra barna saumaðar í dúk af Vopnfirskum konum. Verður Margrét Hallgrímsdóttir þjóminjavörður við opnun sýningarinnar.

16.08 2017 - Miðvikudagur

Unnið að gólefnaskiptum í íþróttahúsinu

Allt á sér upphaf og endi. Það á til að mynda við um gólf íþróttahússins sem eins og önnur gengur úr sér. Eftir 30 ára trausta þjónustu hefur gólfdúknum verið flett af steinsteyptri plötunni og á fáeinum dögum er eins og það hafi aldrei verið til. Sigurvin gröfukall skóf það mesta af og hefði liðsmenn áhaldahúss sér til aðstoðar. Gamalt kveður og nýtt efni tekur við.

Vakin er athygli á að húsið er öllum lokað föstudaginn 18. ágúst nk. og gæti komið til frekari lokunar í tengslum við framkvæmdirnar.

Veðrið núna

Skjaldþingsstaðir

kl. 21:00
Hitastig:
8,7 °C
Vindur:
1 m/s
Vindátt:
NNA
Veljum VopnafjörðTungumál


Skipta um leturstærð


LeitVisit Vopnafjörður

Flýtileiðir