18.12 2018 - Þriðjudagur

Fjárhagsáætlun 2019 afgreidd í sveitarstjórn

Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps hefur afgreitt fjárhagsáætlun næsta árs. Á síðasta fundi sveitarstjórnar á árinu 2018 sem haldinn var þann 13. desember sl. fór fram síðari umræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2019-2022. Allar upplýsingar um áætlunina, fyrir 2019 og 3ja ára áætlunina 2019-2022, er að finna í fylgigögnum fundargerðar sveitarstjórnar hér á síðunni. Samkvæmt samþykktri áætlun sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps er þess vænst að rekstrarniðurstaðan verði jákvæð tæpar 79 milljónir króna. Áætlaðar fjárfestingar á árinu 2019 eru 134,5 milljónir króna og er reiknað með lántöku til að mæta fjárfestingum ársins.

17.12 2018 - Mánudagur

Aðventukvöld í Hofskirkju 18. desember

Í aðdraganda jóla hefur íbúum Vopnafjarðar staðið til boða að sækja aðventukvöld í Hofskirkju. Þessi kvöld hefur kirkjukórinn fengið frí og sönginn annast karlakórinn undir stjórn sama kórstjóra, Stephen Yates. Annað kvöld, þriðjudaginn 18. desember nk., er komið að viðburðinum og hefst hann kl. 20.00. Hann lætur ekki mikið yfir sér en það hefur sýnt sig að þeir sem viðburðinn sækja þykir tímanum vel varið, sungnir eru fallegir jólasöngvar, ávarpið og athöfnin öll í anda hátíðar ljóss og friðar.

14.12 2018 - Föstudagur

Áfangastaðaáætlun Austurlands komin út

Á vef Austurbrúar er frá því greint að fyrr í mánuðinum hafi komið út áfangastaðaáætlun fyrir Austurland sem unnin er í samstarfi við Ferðamálastofu og markaðsstofur landshlutanna. Áfangastaðaáætlunin er byggð á vinnu síðustu fjögurra ára í verkefninu Áfangastaðurinn Austurland sem Austurbrú hefur haft umsjón með. Er áætluninni ætlað að efla ferðaþjónustuna í fjórðungnum en sem kunnugt er njóta sveitarfélögin ólíkra kosta í þeim efnum.

12.12 2018 - Miðvikudagur

Aðventuhátíð í Vopnafjarðarkirkju

Aðventuhátíð var haldin í Vopnafjarðarkirkju síðastliðinn sunnudag, annan sunnudag í aðventu. Var allvel mætt og munar eflaust nokkru að margir koma að dagskrá aðventuhátíðar en breytir ekki að stund sem þessi er einkar hátíðleg. Það er alltaf ánægjulegt að njóta samvista við börn og unglinga, framlag þeirra var afgerandi í athöfninni. Þannig söng barnakórinn jólalög, hljómaði söngur þeirra fagurlega og nemendur úr tónlistarskólanum léku á hljóðfæri undir stjórn Stephens. Stýrði Stephen samspili þeirra af stakri snilld. Jólasaga sr. Þuríðar er varðaði undirbúning jólanna var ágætis áminning til okkar í neyslusamfélagi samtímans.

Veðrið núna

Skjaldþingsstaðir

kl. 15:00
Hitastig:
8,2 °C
Vindur:
8 m/s
Vindátt:
A
Veljum VopnafjörðTungumál


Skipta um leturstærð


LeitVisit Vopnafjörður

Flýtileiðir